Rússnesk rúlletta í umferðinni.

Maður sem ekur alla sína tíð á vegum sem hafa eina akrein í hvora átt veit aldrei hvenær að því geti komið að bíll, sem kemur á móti, komi skyndilega yfir á hans akrein.

Oftast gerist þetta vegna þess að menn dotta undir stýri en það getur líka gerst ef bílstjóri fær hjartaáfall eða heilablóðfall sem hann gat með engu móti séð fyrir. 

Vinur minn og skólafélagi, Almar Grímsson, varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu skammt frá Hvalfjarðargöngunum í vor að bíll, sem kom á móti honum, beygði skyndilega í veg fyrir hann. 

Almar bjargaði sér frá árekstri með því að aka út af og við það valt bíll hans. Hann slapp að mestu við meiðsli en þetta var sálrænt áfall. 

90 kílómetra hámarkshraði á svona þjóðvegum er miðaður við þá hættu sem þeir bjóða upp á, en væri hraðinn meiri yrði skemmri tími til að bregðast við svona uppákomum og árekstrarnir yrðu líka miklu harðari. 

Ég hef það fyrir reglu að skoða að jafnaði næsta umhverfi veganna sem ég ek á til að geta brugðist við ef einhver ekur skyndilega í veg fyrir mig. Þetta lærði ég í rallilnu á sínum tíma og það hjálpar við að finna skástu undankomuleiðina og komast hjá því að velta bílnum, sem er aðalatriði í svona tilfelli.

Atvikið 18. desember síðastliðið sýnir að það er enginn óhultur, sama hve vel hann ekur, þegar bílar sem koma á móti eiga greiða leið yfir á rangan vegarhelming. Skiptir þá engu þótt akreinar séu á móti tveimur og aðskildar með auðu svæði. 

Ekki nóg með það,  heldur varð slysið 18. desember við þær aðstæður að lægðin á auða svæðinu á milli akbrautanna virkaði eins og stökkpallur fyrir bíl mannsins sem fékk hjartaáfallið, svo að hann tókst á loft þegar hann kom upp á gagnstæða akbraut og fór inn um framrúðu bílsins sem kom á móti. 

Í þessu tilfelli hefði verið skárra ef auða svæðið hefði verið alveg slétt. Lægðin er höfð til þess að bílar komist síður yfir á gagnstæða akrein og líklega hamlar hún því í flestum tilfellum. 

En þó ekki öllum eins og dæmin sýna. Eina vörnin sem dugar er að hafa vegrið mitt á milli akbrautanna. Upplýst hefur verið það muni kosta um 500 milljónir króna að reisa þau á þeim stöðum þar sem háttar til eins og við Hafnarfjarðarveg. 

Á sínum tíma var reiknað kalt út að hvert mannslíf sem glatast í banaslysi kosti þjóðfélagið um 200 milljónir krónar hið minnsta á núvirði. Er þá ekki metin til fjár þjáningar og óbeint tjón. 

Þetta sýnir að aðeins eitt banaslys á Hafnarfjarðarvegi 18. desember síðastliðinn kostaði í köldum beinum peningum meira en að reisa þessi vegrið. 

Í umferðinni tökum við þátt í rússneskri rúllettu sem á stórum vegarköflum er spiluð gersamlega að óþörfu og veldur ómældu og óbætanlegu tjóni. 


mbl.is Ökumaður fékk hjartaáfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Þetta er satt Ómar

Ég lenti í að fá bíl framan á mig þegar hann kastaðist í veg fyrir mig eftir aftanákeyrslu. Þetta var á Álftanesveginum. Ég var nokkur ár að ná starfsþreki á ný.

Við hönnun nýja Álftanesvegarins benti ég á nauðsyn aðskildra akgreina og ábyrgð okkar sem ökum þjóðhöfðingjum sem heimsækja Ísland um þessa slysagildru.

Vegamálastjóri sagði mér að það kæmi ekki til álita að skilja að akgreinar þarna.

Mér var mjög brugðið við þau orð.

Ég sakna umferðarfræðslu þinnar úr sjónvarpinu....og alls hins líka.

Skúli Guðbjarnarson, 14.7.2010 kl. 21:14

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Ég skoða líka alltaf til hliðar við veginn en hvort ég hefði viðbragðsflýtinn það er önnur saga.  Þakka pistilinn.  Kv.  B

Baldur Kristjánsson, 14.7.2010 kl. 23:01

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég hef alla tíð verið nokkuð "meðvitaður" ökumaður, ef svo má að orði komast. En ég verð að segja að þetta er hreinlega eitthvað sem að ég hef aldrei spáð í, að skoða umhverfið með þessum augum sem þú lýsir Ómar.

Takk fyrir þetta. Maður er aldrei of gamall til að halda áfram að læra.

Heimir Tómasson, 15.7.2010 kl. 05:33

4 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þetta er fróðlegt og þarft blogg, Ómar. Þú ert einn af bestu sérfræðingum okkar í akstri og víst mættu ráðamenn fara meir að þínum ráðum.

Kv., KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 15.7.2010 kl. 09:35

5 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Þetta eru orð í tíma töluð Ómar. Og hjartanlegar hamingjuóskir með umhverfisverðlaunin, var að heyra af þeim í hádegisfréttunum. Þú ert vel að þeim kominn. Það þyrfti að verðlauna þig enn frekar, þú ert ómetanlegur í okkar samfélagi.

Óttar Felix Hauksson, 15.7.2010 kl. 12:48

6 identicon

Innilegar hamingjuóskir, Ómar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.7.2010 kl. 14:12

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Óttar. Þetta sem ég var að lýsa heitir á fagmáli rallökumanna að "lesa veginn og umhverfið framundan."

Oft háttar þannig til að hægt er að sjá alllangan vegarkafla nokkru áður en komið er að honum og t. d. blindhæð byrgir sýn. 

Dæmi um þetta er Biskupsbeygjan á sunnanverðri Holtavörðuheiði þar sem næstum tveggja kílómetra kafli sést þegar komið er að henni að sunnan en síðan verður hún sjálf "blind" þegar inn í hana er komið. 

Á þessum stað er heil lína í veginum til merkis um það að ekki megi fara fram úr en þessi lína miðast augljóslega við það að ökumenn lesi ekki veginn framundan heldur álpist inn í aðstæður með athyglina rétt fram fyrir nef sér. 

Ég tek það fram að ekki má einblína á næsta umhverfi vegarins heldur að "skanna" stöðugt það sem framundan er. 

Ómar Ragnarsson, 15.7.2010 kl. 14:18

8 identicon

Kæri Ómar.  Fyrst af öllu, þá vil ég óska þér innilega til hamingju með umhverfisverðlaunin.  Þú ættir að fá verðlaun á miklu fleiri sviðum.  Umferðaröryggis áhugi þinn er þar ofarlega á blaði, sem og ferill þinn í rallinu.

Ég ætla að skjóta hér inn í umræðuna pistli sem ég skrifaði á blogg Birgis Þórs Bragasonar um daginn, í kjölfar fréttarinnar um hið hörmulega slys á Hafnarfjarðarveginum í fyrra.  Hér er um málefni að ræða, sem ætti að fá miklu meiri athygli en raunin er.  Þar eiga fjölmiðlar og umfjöllun þeirra mikið að segja, en því miður er mikill skortur á því að þessar hörmungar sem verða í umferðinni fái málefnalega meðhöndlun, ef þá nokkra.

-------------

Þegar alvarleg umferðarslys eiga sér stað, þurfa menn að skoða allan ferilinn.  Það er sjálfsagt rétt, að upphaf þessarar hörmulegu atburðarásar var sú, að ökumaður fékk hjartaáfall.  Ef öryggismál hefðu verið í lagi á þessum kafla eru allar líkur á því, að þetta hefði orðið minniháttar umferðaróhapp og viðkomandi fengið aðhlynningu samkvæmt því og þá væntanlega vegna hjartaáfallsins.  Niðurstaðan varð hinsvegar sú, að úr varð stórslys, sem kostaði alltof marga lífið.

Það var vitað að þessi geil á milli akreinanna á Hafnarfjarðarvegi var barn síns tíma og stórhættuleg.  Engar þjóðir sem ég þekki til hafa svona milli akreina.  Fyrir löngu síðan prófuðu menn erlendis að hafa bil milli akreina, en þá var það ávalt slétt.  Meira að segja það virkaði ekki, jafnvel þó fjarlægðin á milli væri yfir 20 metrar.  Það eina sem virkar eru viðurkennd vegrið af einhverri gerð.  

Vinna við úrbætur á Hafnarfjarðarveginum voru komar í gang og vegrið nýlega sett upp milli akreina við Kópavogslækin.  Vegna fjárskorts var ekki farið lengra í það skiptið, því miður.  Í fyrra var síðan sett vegrið á Kringlumýrarbraut í Fossvogi og það hefur sannað gildi sitt amk. tvisvar.  Framkvæmdir við uppsetning vegriðs frá Kópavogslæk, yfir Arnarneshæð og til Garðabæjar eru um það bil að hefjast, eftir því sem ég kemst næst.

Stóra málið er, að það þarf að setja vegrið á milli akreina á öllum stóru stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins, þar sem leyfður hraði er meira en 60 km/klst.  Það þýðir öll Miklabrautin, Hringbraut, Kringlumýrarbraut, Vesturlandsvegur, Reykjanesbraut o.fl. stofnbrautir.   Flestar þessar götur hafa stórhættulegar teinagirðingar á miðeyjunni, sem veita ekkert öryggi og hafa slasað fjölda fólks.  Annarstaðar eru geilar eins og á Arnarneshæð, brúarstólpar, skiltabrýr o.s.frv.  Meira að segja nýjasti vegurinn og sá fjölfarnasti í grend við höfuðborgarsvæðið, Reykjanesbrautin til Keflavíkurflugvallar, er með svona geil á milli akreina og stórhættulega ljósastaura, sem ekki eru af viðurkenndri gerð meðfram öðrumegin, alla leiðina til Reykanesbæjar.

Úrbætur í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, þar með talið öryggismál, hafa verið látin sitja á hakanum í áraraðir.  Þar er umferðin mest, slysin flest og afleiðingarnar alvarlegastar, svo ekki sé minnst á sparnaðin sem alvöru umferðarmannvirki hafa fyrir samfélagið. 

Göng í gegnum afdalafjöll eru látin ganga fyrir.  Öryggi, hagkvæmni, afköst og skynsemi er nokkuð sem ekki er haft í fyrirrúmi við ákvarðanir í samgöngumálum á Íslandi,  allavega ekki hingað til.  Það þarf að breytast.  Aðrar þjóðr eru fyrir löngu búnar að uppgötva það.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.7.2010 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband