Brautryðjandinn á sviði hjólhýsa.

Á ferð um landið eins og ég fór í dag með Andra Frey Viðarssyni var mikil umferð bíla með tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi í eftirdragi.

Okkur finnst þetta sjálfsögð sjón en hún var það ekki þegar Hallbjörn Hjartarson á Skagaströnd hóf að flytja frönsk hjólhýsi inn til landsins fyrir um 40 árum. 

Í viðtali, sem við Andri tókum við hann í dag og flutt verður í "Prinsinum", þætti Andra á morgun, sagðist hann alls hafa flutt inn 45 hjólhýsi. 

Miðað við allar auglýsingarnar sem hann birti til að kynna þessa nýjung er ekki líklegt að hann hafi grætt mikið á þessu. 

En Hallbjörn hefur aldrei farið troðnar slóðir og um hann má segja að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá." 

Árum og áratugum saman mætti hann litlum skilningi á þeim möguleikum sem frumlegt framtak hans varðandi Kántríbæ gáfu. 

Í viðtalinu á morgun förum við yfir það mál og kynnum okkur hagi og hug þessa sérstæða manns og brautryðjanda, sem hefur mestallt sitt líf þurft að hafa vindinn í fangið. 


mbl.is Ökumaður jeppans handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleira sem skapar hættu.

Fleira skapar hættu á vegum en of hraður akstur miðað við aðstæður. Eitt slíkt athyglisvert atvik átti sér stað á hringveginum í dag.

Tvær bílaraðir nálguðust hvor aðra. Ég var á næstfremsta bíl í annarri þeirra og bílstjórinn á bílnum fyrir framan mig fór að færa sig til hægri og stefndi inn á allangt útskot sem var á veginum. 

Hélt ég í fyrstu að hann ætlaði að stöðva bílinn þar og hleypa um leið mér og þeim sem á eftir mér voru fram úr sér. 

Á síðustu stundu sá ég að afleggjari lá þvert til vinstri frá veginum á móts við útskotið og það kveikti aðvörunarljós í huga mér sem olli því að í stað þess að halda rakleitt áfram á sömu ferð, hægði ég á mér. 

Þetta reyndist bjarga því að þarna yrði stórárekstur því að nú sveigði bíllinn fyrir framan snöggt til vinstri inn að miðju vegarins, lokaði fyrir möguleika á að halda áfram án þess að lenda framan á bílaröðinni sem koma á móti, og ætlaði augljóslega að aka út á afleggjarann, sem þarna lá til vinstri.

Ekkert stefnuljós hafði verið gefið en vegna þess að ég hafði hægt mikið á, tókst mér að bregðast við þessu tiltæki og fara hið snarasta til hægri og nota útskotið, sem þar var til að komast fram úr þeim megin. 

Stórhættulegt hefði verið að nauðhemla vegna þess að þá var hætta á að bílarnir fyrir aftan mig hefðu lent í keðjuárekstri aftan á mig og einhverjir jafnvel kastast til hliðar í veg fyrir bílaröðina sem kom á móti. 

Ef ég hefði ekki tekið eftir afleggjaranum og slegið af hefði orðið þarna stórárekstur tveggja bílaraða sem mættust þarna. 

Hegðunin sem ég lýsti hér, er algeng í íslenskri umferð. Ekkert stefnuljós er gefið en tekin "hreppstjórabeygja", þ. e. fyrst sveigt til hægri til að rúnna af beygju til vinstri. 

 


mbl.is Mikið um hraðakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pyntingar - háþróuð fræðigrein.

Pyntingar hafa ætíð verið feimnismál hjá öllum þjóðum, - líka Íslendingum. Ástæðan er sú að fæstir vilja viðurkenna að slíkt viðgangist í þjóðfélagi þeirra. 

Hér á landi eru lýsingar Einars Bollasonar og Magnúsar Leopoldssonar helstu gögn um þær aðferðir sem hér var beitt, en höfuðatriði þeirra var að ekki væri hægt að sjá á föngunum líkamlega að þeir hefðu verið pyntaðir, mest andlega.

Einar og Magnús, báðir saklausir, voru svo langt leiddir að litlu mátti muna að þeir játuðu á sig upplognar sakir. Voru þeir þó ekki í fangelsi nándar nærri eins lengi og þeir, sem verið hafa í fangabúðum í öðrum löndum, eins og til dæmis í Guantanamo.

Ein lúmskasta pyntingaraðferðin er að halda vöku fyrir föngum og hefur lýsing á því hvernig það var og er gert í Guantanamo komið fram.

Það byggist á því að vekja fangann jafnóðum og hann sofnar og koma þannig í veg fyrir að hann falli í nógu djúpan svefn til að viðhalda andlegu þreki.

Sjálfur hef ég orðið fyrir þessu ásamt hópi Íslendinga sem hafa fengið svonefnda stíflugulu af völdum lifrarbrests. Gulan veldur ofsakláða og vegna þess að lifrin er að mestu óstarfhæf, er ekki hægt að taka nein lyf og afleiðingin er stöðugur ofsakláði sem rænir viðkomandi svefni. 

Í mínu tilfelli hélt það mér á floti að ég var þrátt fyrir allt að fást við krefjandi verkefni og var gefin sú von að þessu ástandi myndi létta eftir tvo mánuði.

Þegar ekkert lagaðist eftir tvo mánuði kom stærsta áfallið, - að þetta gætu orðið þrír mánuðir eða jafnvel lengri tími en það. Samt var það vonin um bata sem hélt manni á floti þótt þrekið væri orðið lítið.  

Mun stærri hópur en upplýst hefur verið um hefur lent í þessu hér á landi vegna nauðsynlegrar og gríðarlega öflugrar notkunar sterkustu sýklalyfja til þess að drepa skæðar sýkingar. Er lyfið Augmentin sterkasta lyfið en jafnframt það sem gengur næst lifrinni. 

Þegar um tvennt er að velja, að láta sýkinguna hafa yfirhöndina og ganga frá manni eða að taka áhættu af því að lifrin bresti, er ákvörðunin einföld, að taka áhættuna við að taka lyfið.  

Ég hef í gamni lagt til við þá sem ég hef kynnst og hafa orðið fyrir þessu að við stofnuðum klúbb sem héti Guantanamo-klúbburinn því að við þekktum þessa vinsælustu pyntingaraðferð hernaðar- og lögregluyfirvalda heimsins. 

Ég missti 16 kíló og drjúgan hluta af blóðinu á meðan á þessu stóð í þrjá mánuði, og Eiríkur Haraldsson, sem lenti í þessu fyrir mörgum árum og átti miklu lengur í þessu, hefur sagt mér frá því að í lokin hafi í alvöru komið til greina að flytja hann á geðveikrahæli og að hann hefði sjálfur verið kominn á það stig að sætta sig við það. 

Ég minnist þess dags ætíð með mikilli gleði þegar ég í fyrsta sinn eftir ofsakláðann og svefnleysið ók heill á litla opna Fiatinum mínum í sólskini, - hve óskapleg sú nautn var að geta aftur setið heill í sólinni og notið þess að vera til án þjáningar, - hve dýrmætur hver slíkur dagur er fyrir okkur öll og hve mikið við megum þakka fyrir að fá að njóta slíks og gleðjast yfir því sem okkur finnst venjulega svo lítið en er í raun svo stórt.

Í hverju þjóðfélagi er ævinlega réttlætt að beita verði pyntingum. Á tímum Geirfinns- og Guðmundarmálsins var réttlætingin sú að þjóðarnauðsyn væri að koma lögum yfir harðsvíraða meinta glæpamenn, jafnvel þótt ekkert lík fyndist, ekkert morðvopn og engin ástæða til morðanna.

Í lokin lýsti þáverandi dómsmálaráðherra yfir að þungu fargi væri létt af þjóðinni.

Þegar andrúmsloftið er slíkt þykja pyntingar eða harðræði við að fá fram játningar smámál, - því miður.  


mbl.is Amiri segist hafa verið pyntaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband