Fleira sem skapar hættu.

Fleira skapar hættu á vegum en of hraður akstur miðað við aðstæður. Eitt slíkt athyglisvert atvik átti sér stað á hringveginum í dag.

Tvær bílaraðir nálguðust hvor aðra. Ég var á næstfremsta bíl í annarri þeirra og bílstjórinn á bílnum fyrir framan mig fór að færa sig til hægri og stefndi inn á allangt útskot sem var á veginum. 

Hélt ég í fyrstu að hann ætlaði að stöðva bílinn þar og hleypa um leið mér og þeim sem á eftir mér voru fram úr sér. 

Á síðustu stundu sá ég að afleggjari lá þvert til vinstri frá veginum á móts við útskotið og það kveikti aðvörunarljós í huga mér sem olli því að í stað þess að halda rakleitt áfram á sömu ferð, hægði ég á mér. 

Þetta reyndist bjarga því að þarna yrði stórárekstur því að nú sveigði bíllinn fyrir framan snöggt til vinstri inn að miðju vegarins, lokaði fyrir möguleika á að halda áfram án þess að lenda framan á bílaröðinni sem koma á móti, og ætlaði augljóslega að aka út á afleggjarann, sem þarna lá til vinstri.

Ekkert stefnuljós hafði verið gefið en vegna þess að ég hafði hægt mikið á, tókst mér að bregðast við þessu tiltæki og fara hið snarasta til hægri og nota útskotið, sem þar var til að komast fram úr þeim megin. 

Stórhættulegt hefði verið að nauðhemla vegna þess að þá var hætta á að bílarnir fyrir aftan mig hefðu lent í keðjuárekstri aftan á mig og einhverjir jafnvel kastast til hliðar í veg fyrir bílaröðina sem kom á móti. 

Ef ég hefði ekki tekið eftir afleggjaranum og slegið af hefði orðið þarna stórárekstur tveggja bílaraða sem mættust þarna. 

Hegðunin sem ég lýsti hér, er algeng í íslenskri umferð. Ekkert stefnuljós er gefið en tekin "hreppstjórabeygja", þ. e. fyrst sveigt til hægri til að rúnna af beygju til vinstri. 

 


mbl.is Mikið um hraðakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes

Ég hef oft sagt að það ætti að taka þá sem eru heimskir eins og þessi ökumaður úr umferð.

Ég var nærri búinn að fá bílinn minn úr tryggingunum í gær þegar ein ljóska virti ekki biðskyldu en ég var sem betur fer með góðar bremsur á bílnum mínum.

Af hverju er ekki hægt að setja menn eins og þennan í akstursmat?

Hannes, 17.7.2010 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband