2.7.2010 | 22:03
Ótrúlegt fálæti í vöggu flugsins.
Fyrsta flug á Íslandi fór fram í Reykjavík 1919.
Er til einhver minnisvarði um þetta í borginni? Nei.
Flugvélin Súlan var af tegund sem var einhver fullkomnasta flugvél síns tíma tæknilega og var gerð út frá Reykjavík. Flugskýlið í Vatnagörðum var stærsta hús á Íslandi á sinni tíð. Er það varðveitt í Reykjavík?
Nei, á Hnjóti við Patreksfjörð.
Í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli var stórum hluta af orrustunni um Atlantshaf stjórnað á stríðsárunum. Sú orrusta varð að vinnast, annars var ekki hægt að ráðast nógu tímanlega inn í Normandy og Rússar hefði náð yfirráðum yfir meginlandi Evrópu. Í Noregi og Bretlandi væri slík bygging friðað safn þar sem hægt væri að sjá tæki þess tíma hjá þeim sem stjórnuðu flugumferðinni og veðurfræðingunum, sem unni á Veðurstofu Íslands í sama húsi.
Er flugturninn friðaður? Nei, hann er látinn drabbast niður og yfirvöld frekar hallast að því að eyðileggja hann en varðveita.
Í Reykjavík reis fyrsta innanlandsflugstöðin. Erlendis eru slíkar byggingar varðveittar sem safngripur og löngu búið að reisa nýjar.
Mestallt innanlandsflug á Íslandi fer um Reykjavíkurflugvöll. Eru flugstöðvarmál þá ekki þar í hliðstæðu horfi og annars staðar á landinu eða í öðrum samgöngugreinum?
Ó, nei, enn er notast við gersamlega úreltar fornminjar, sem ættu að vera varðveittar á flugminjasafni frekar en að vera enn notaðar sem miðstöð fyrir hálfa milljón flugfarþega árlega.
Í ljósi framangreinds mætti ætla að í Reykjavík væri flugminjasafn Íslands. Ó, nei, flugminjar eru geymdar á Hnjóti við Patreksfjörð, meðal annars af Reykjavíkurflugvelli í stríðinu og á Akureyri er myndarlegt flugminjasafn og einnig eru flugi stríðsáranna gerð skil á Reyðarfirði.
Fálætið um flugið er yfirþyrmandi í vöggu flugsins á íslandi og í algeru ósamræmi við það sem gerist hjá öðrum þjóðum eða um aðrar samgöngugreinar.
![]() |
Vilja reisa eigin flugstöð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.7.2010 | 21:08
Fá Hollendingar uppbót fyrir 1974 ?
Tvívegis hafa orðið þau úrslit á HM að Þjóðverjar hafa "stolið" sigri af þeim þjóðum sem þá voru taldar með bestu landslið heims. Í fyrra skiptið voru það Ungverjar sem urðu að lúta í gras 1954 en í síðara skiptið Hollendingar 1974 og löngu eftir þann leik játaði Hölzenbein, leikmaður Vestur-Þjóðverja, að hafa látið sig detta inni í vítateig Hollendinga til að fiska vítið sem réði úrslitum.
Nú er spurningin hvort Hollendingar séu að fá uppbót fyrir þetta og hvort lánið leiki við þá til enda keppninnar.
![]() |
Holland sló út Brasilíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.7.2010 | 09:31
Hvenær hefur maður drepist og hvenær ekki?
Ofangreind orð eru í svipuðum stíl og fræg ummæli Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni þegar hann er inntur eftir því hvort hann hafi drepið böðul konungsins.
Hér á Íslandi höfum við dæmi um það að maður, sem hvarf í Ameríku fyrir um tuttugu árum var úrskurðaður og skráður látinn þangað til hann birtist allt í einu sprelllifandi hér uppi á klakanum að mig minnir tólf árum síðar.
Ekki minnist ég þess að fjölmiðlar eða aðrir hefðu kafað ofan í það hvernig þetta mátti verða enda virðast aðstæður hafa verið þannig að það virtist vera einkamál þessa manns hvort hann væri lifandi eða dauður.
Jarðneskt líf og dauði Jesú Krists vafðist eðlilega fyrir fólki, ekki aðeins vorið, sem hann var krossfestur, heldur vekur það mál enn spurningar hjá mörgum.
Þrenn morðmál á árunum 1967 og 1975 vekja enn spurningar og efasemdir. Raunar voru tvö þessara morðmála þess eðlis að efast má um hvort hægt sé að kalla þau morðmál.
Morðið á Gunnari Tryggvasyni var staðreynd og lík, morðvopn og jafnvel ástæða þóttu liggja fyrir en þó var hinn ákærði réttilega sýknaður.
Þegar Guðmundur og Geirfinnur hurfu átta árum síðar lágu hvorki lík, morðvopn né ástæður fyrir en samt voru kveðnir upp þyngstu dómar yfir sakborningum í því máli.
Raunar er ekkert sem liggur óyggjandi fyrir um það að þessir menn hafi látist.
Það er því enn ekki alveg óhugsandi að fjölmiðlamaður geti staðið í Leifsstöð í beinni útsendingu í sjónvarpinu og sagt: "Nei, sjáið þið hverjir koma hér með vélinni frá New York! Guðmundur og Geirfinnur! Sælir, strákar, hvar hafið þið eiginlega verið í öll þessi ár? "
Kona, sem taldi sig vera Anastasiu, dóttur Rússakeisara, sem bolsévikar myrtu, gat blekkt fjölmiðla og ýmsa mikilsmetna menn árum saman.
Var meira að segja gerð um hana kvikmynd og lagið "Anastasia" var eitt vinsælasta dægurlagið hér og víðar um svipað leyti.
Nú hefur loksins komið í ljós við DNA-rannsókn að keisaradóttirin var drepin í rússnesku byltingunni.
Löngum hafa komið upp kvittir um það að Elvis Presley sé lifandi og við góða heilsu.
Þannig mætti lengi telja og ekki eru þau fá málin, þar sem viðkomandi ætlaði að svíkja út fé úr tryggingafélagi á þeim forsendum að hann væri dauður.
![]() |
Dáinn maður sannar að hann sé á lífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)