Eins gott að spila þetta rétt.

Allt frá Kóreustríðinu 1950-53 hefur það verið mikið vandaverk fyrir stórveldin að meta stöðuna rétt á þessum slóðum og haga sér í samræmi við það, - hvorki of né van. 

Sovétmenn pössuðu sig á því í Kóreustríðinu að taka ekki of beinan þátt í því að styðja við Norður-Kóreumenn en láta reyna á það hve langt Vesturveldin vildu ganga í hernaðaraðgerðum. 

Litlu munaði að Norður-Kóreumönnum tækist þá með sovéskum vopnum að ná öllu skaganum en svo illa vildi til fyrir Stalín, að fulltrúi hans í Öryggisráði SÞ tók ekki þátt í atkvæðagreiðslum þar einmitt um þessar mundir og því samþykkti ráðið að Bandaríkin leiddu fjölþjóðaher í nafni Sameinuðu þjóðanna til að verjast innrásinni.

Síðan gerðu Bandamenn þau mistök að leyfa Douglas MacArthur að leiða herferð norður eftir skaganum til að koma kommúnistum frá völdum.

Þetta gátu Kínverjar ekki sætt sig við og sendu her inn í Norður-Kóreu á móti her bandamanna, sem hrakti þá til baka að 38. breiddarbaugnum sem var hin upphaflega landamæralína.

Mac Arthur vildi beita kjarnorkuvopnum og Truman forseti rak hann þá úr embætti og Ridgeway tók við.

Þetta var mannskætt stríð og gangur þessi benti til þess að fyrir báða aðila snerist stríðsreksturinn um það að komast að því hve langt væri hægt að komast í beitingu hervalds.

Stalín hefði aldrei átt að taka það í mál að styðja Norður-Kóreumenn í upphafi og Bandaríkjamenn hefðu átt að láta nægja að hrekja Norður-Kóreumenn norður fyrir 38. breiddarbaug.  

Ástandið er að mörgu leyti svipað nú og stiginn mikill jafnvægisdans í yfirlýsingum og aðgerðum.  

 


mbl.is Kína uggandi yfir yfirlýsingu Bandaríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Katla og Grímsvötn kallast á"

Ein af myndunum níu sem ég hef byrjað á, ber ofangreint heiti. Hún á að fjalla um svæðið frá Eyjafjöllum og Mýrdal norður og norðaustur til Vatnajökuls.p1012449.jpg

Þetta kom upp í hugann þegar ég fór með Helgu í dag til að sækja FRÚna, sem hafði bilað uppi í Veiðivötnum á sunnudagsmorguninn. 

Akstursleiðin og síðan flugleið mín þaðan til Hvolsvallar skartaði sínu fegursta í lágri kvöldsólinni og eru myndirnar á síðunni teknar í þessu ferðalagi okkar, - enn einu slíku sem við köllum nafninu "flug og bíll".  p1012465.jpg

Fyrir fimm árum sóttu orkufyrirtæki um að fá að fara inn á svæðið verstan Landmannalauga til tilraunaborana sem auðvitað var aðeins byrjunin á virkjanaframkvæmdum, því að svona fyrirtæki henda ekki milljörðum í slíkt án þess að vera nokkuð viss um framhaldið. 

Augljóst var að þetta var stórmál því að svæðið er efst á lista virkjanasinna sem orkumesta jarðvarmasvæði landsins og líka efst á lista náttúruverndarfólks. Ljósmyndirnar af þessu svæði sem ég smellti út um flugvélargluggann í kvöld gefa örlitla hugmynd um það. p1012452_1011018.jpg

Hluti þessa svæðis ber nafnið "Friðland að fjallabaki" en ljóst var að það myndi litlu máli skipta, því a bæði Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir sögðu að friðanir þyrftu ekki að vera endanlegar, þeim mætti alltaf aflétta eftir þörfum. 

Þannig var friðun aflétt á sínum tíma af þeim hluta Kringilsárrana sem sökkt var undir Hálslón. p1012471.jpg

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" færi ég rök að því að hálendið norðan Suðurjökla standi hinum fræga þjóðgarði Yellowstone framar sem náttúruverðmæti, en í hinu gríðarlega jarðvarma- og vatnsaflsorkubúnti Yellowstone og á svæði sem er stærra en Ísland í kringum þjóðgarðinn, eru allar boranir bannaðar, - punktur.

Ég rauk til fyrir fimm árum og fór margar ferðir að vetri og sumri bæði akandi og fljúgandi til þess að taka myndir á þessu yfirgripsmikla svæði. Fékk dálítinn styrk hjá Umhverfisráðuneytinu og eyddi honum og talsvert meiru í þetta kapphlaup mitt við orkufyrirtækin. 

Svo fór þó að leyfin voru ekki gefin en ný og ný svæði voru nú sett í aftökuröðina ásamt olíuhreinsistöðvum og á eftir öllu þessu neyddist ég til að hlaupa með myndavélarnar til þess  að reyna að koma af stað upplýstri umræðu í stað þess að enginn þekkti svæðin sem áttu að fara að virkja. 

Í umhverfisnefnd á landsfundi Samfylkingarinnar 2009 tókst mér að fá það samþykkt sem stefnu þess flokks að allt þetta svæði yrði gert að þjóðgarði og þar með friðað fyrir virkjunum. 

Ljóst er þó af nýjum og nýjum virkjanaáformum, sem dúkka sífellt upp, að baráttan er rétt að byrja fyrir því að verjast hinni skefjalausu ásókn í skjótfenginn skammtímagróða á kostnað komandi kynslóða. 

 


Bloggfærslur 21. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband