4.7.2010 | 20:57
Svar við gátunni um nakta manninn á puttanum.
Vangaveltur og getgátur hafa verið á kreiki um furðufréttina af nakta manninum "á puttanum" á Suðurlandsvegi.
Ef maðurinn hefur fengið far er skýringin á þessu líkast til þessi:
Um nakinn mann á ferð ég frétti
og finn við gátu svarið:
Einn hann lim sinn upp þar rétti
og út á hann fékk farið.
![]() |
Tilkynnt um nakinn mann á puttanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.7.2010 | 17:30
Gottsvin óð yfir Þjórsá.
Hálfgeggjaðir menn, bæði fullir og ófulir, eiga til að gera það gert var í ölæði í nótt, að synda yfir ár, fljót og vötan.
Þannig segir frá því í bókinni um Þuríði formann og Kambránsmenn að Gottsvin Jónsson, faðir foringja Kambránsmanna, sem þótti bæði þjófóttur og oft ruddalegur, hefði vaðið eitt sinn vaðið yfir Þjórsá.
Gottsvin þessi á að hafa sagt hin fleygu orð "sá á ekki að stela sem ekki kann að fela" og sannaði það sjálfur þegar hann ku hafa komið ránfeng undan með því að drepa hestinn sem hann reið á flótta með ránsfenginn og segja að hann hefði sprungið og barmað sér mjög.
Þóttust menn síðar sjá að Gottsvin hefði falið ránsfenginn inni í hestinum.
Þegar ég var í lagadeild Háskóla Íslands var farið í svonefnd vísindaferðlög einu sinni á ári, en aldrei komst ég í neitt þeirra.
Í einni þeirra áttu góðglaðir laganemar að hafa lagst til sunds í Vestmannaeyjahöfn.
Jafnaldri minn einn tók upp á því eitt kvöld á þessum sokkabandsárum að synda yfir Tjörnina í Reykjavík til að heilla ástmey sína, sem tók á móti honum á Tjarnarbakkanum og má raunar heita mikið lán að ekki skuli oftar orðið slys eða mannskaði af svona uppátækjum.
![]() |
Syntu yfir Hvítá í ölæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.7.2010 | 16:56
Dýrkeypt að vinna gegn náttúrulögmálum.
"Þeir hæfustu lifa af" var sú kenning sem meðal annars spratt af rannsóknum Charles Darwins á þróun tegundanna.
Þótt sjálfsagt sé að í nútíma þjóðfélagi sé það tryggt að allir njóti lágmarks kjara til að hafa í sig og á er hitt líka sennilegt, að máltækin "sjaldan launar kálfurinn ofeldið" og "það þarf sterk bein til að þola góða daga" eigi við rök að styðjast.
Frummaðurinn þurfti að berjast fyrir tilveru sinni og þeir, sem voru duglegastir í þessari baráttu, lifðu af og fjölguðu sér.
Athyglisvert er að skoða hve mörg þeirra fyrirtækja, sem á síðustu öld voru sett á laggir af dugnaðarforkum og athafnamönnum tókst ekki að lifa það af að næsta kynslóð tæki við. Hvað varð um "stórveldin" Silla og Valda, Gunnar Ásgeirsson hf, Lárus G. Lúðvíksson, Harald Árnason, Garðar Gíslason o. s. frv. sem voru hvað mest áberandi um miðja síðustu öld?
Niðurstaðan er sú að menn verðskuldi það, sem þeir hafa úr býtum, í samræmi við framlag þeirra og dofni baráttuviljinn og vinnugleðin boði það hrörnun og tap.
Mín kynslóð var alin upp við það að taka þátt í brauðstriti venjulegs fólks og sjálfur get ég seint nógsamlega þakkað það að hafa fengið að vinna í sveit og almenna verkamannavinnu á sumrin og í skólafríum sem unglingur og vel fram á þrítugsaldur.
Þetta var á tínum líkamlegs strits, - þeim tímum þegar orfið og ljárinn, skóflan og hakinn og verkfúsar hendur unnuð þau störf sem nú eru leyst af hendi með vélum.
Ásókn margs nútímafólks í að leysa erfið verkefni í frístundum sínum og ferðalögum sýnir að það er hollur og nauðsynlegur þáttur í eðli mannsins að sitja ekki auðum höndum, heldur takast á við náttúruöflin og krefjandi verkefni sem veita mikla umbun þegar þau hafa verið leyst.
Það er öllum til tjóns og beinlínis slæmt fyrir samfélagið og þjóðlífið að ala upp kynslóð sem að fær allt upp í hendurnar og gerir sífellt kröfur en færist undan því að hafa fyrir því að vinna fyrir lífsgæðum sínum.
Slíkt fólk verður ófullnægt og svipt sannri lífsnautn. Stöðnun og síðan afturför bíður þjóðfélags sem lætur slíkt viðgangast og verða að almennu ástandi.
Mannkynssagan geymir sögu um mörg stórveldi sem urðu hnignun að bráð vegna værukærni og slíkt getur jafnt hent smáar þjóðir sem stórar.
![]() |
Ungt norskt fólk nennir ekki að vinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)