Dýrkeypt að vinna gegn náttúrulögmálum.

"Þeir hæfustu lifa af" var sú kenning sem meðal annars spratt af rannsóknum Charles Darwins á þróun tegundanna.

Þótt sjálfsagt sé að í nútíma þjóðfélagi sé það tryggt að allir njóti lágmarks kjara til að hafa í sig og á er hitt líka sennilegt, að máltækin "sjaldan launar kálfurinn ofeldið" og "það þarf sterk bein til að þola góða daga" eigi við rök að styðjast.

Frummaðurinn þurfti að berjast fyrir tilveru sinni og þeir, sem voru duglegastir í þessari baráttu, lifðu af og fjölguðu sér.

Athyglisvert er að skoða hve mörg þeirra fyrirtækja, sem á síðustu öld voru sett á laggir af dugnaðarforkum og athafnamönnum tókst ekki að lifa það af að næsta kynslóð tæki við. Hvað varð um "stórveldin" Silla og Valda, Gunnar Ásgeirsson hf, Lárus G. Lúðvíksson, Harald Árnason, Garðar Gíslason o. s. frv. sem voru hvað mest áberandi um miðja síðustu öld?

Niðurstaðan er sú að menn verðskuldi það, sem þeir hafa úr býtum, í samræmi við framlag þeirra og dofni baráttuviljinn og vinnugleðin boði það hrörnun og tap.

Mín kynslóð var alin upp við það að taka þátt í brauðstriti venjulegs fólks og sjálfur get ég seint nógsamlega þakkað það að hafa fengið að vinna í sveit og almenna verkamannavinnu á sumrin og í skólafríum sem unglingur og vel fram á þrítugsaldur. 

Þetta var á tínum líkamlegs strits, - þeim tímum þegar orfið og ljárinn, skóflan og hakinn og verkfúsar hendur unnuð þau störf sem nú eru leyst af hendi með vélum.

Ásókn margs nútímafólks í að leysa erfið verkefni í frístundum sínum og ferðalögum sýnir að það er hollur og nauðsynlegur þáttur í eðli mannsins að sitja ekki auðum höndum, heldur takast á við náttúruöflin og krefjandi verkefni sem veita mikla umbun þegar þau hafa verið leyst.

Það er öllum til tjóns og beinlínis slæmt fyrir samfélagið og þjóðlífið að ala upp kynslóð sem að fær allt upp í hendurnar og gerir sífellt kröfur en færist undan því að hafa fyrir því að vinna fyrir lífsgæðum sínum.

Slíkt fólk verður ófullnægt og svipt sannri lífsnautn. Stöðnun og síðan afturför bíður þjóðfélags sem lætur slíkt viðgangast og verða að almennu ástandi.

Mannkynssagan geymir sögu um mörg stórveldi sem urðu hnignun að bráð vegna værukærni og slíkt getur jafnt hent smáar þjóðir sem stórar. 


mbl.is Ungt norskt fólk nennir ekki að vinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Góð færsla hjá þér Ómar.Maður er alltaf að hitta fólk sem segir," Ég var svo heppin að vera í sveit þegar ég var unglingur." Ég hef áhyggjur af fólki sem fær námslánin sín greidd inn á reikninga sína mánaðalega, svo þegar það er búið í námi er það með skuldahala og þarf að fara vinna fyrir hverri krónu,og stofna heimili. Það var heilbrigðara þegar skólafólk vann mikið til fyrir sínum námskostnaði og reynslan af því var oft ekkert síðra en menntunin, sem það gat nýtt þegar það kom út á vinnumarkaðinn.

Ragnar Gunnlaugsson, 4.7.2010 kl. 17:46

2 identicon

Ég verð að setja stórt spurningamerki við færslu Ragnars - svona sem ungur íslendingur í sambúð sem vinn hjá ríkinu og hinn aðilinn í háskóla, með eitt barn á framfæri með sérþarfir ... lífið er ekki svona einfalt - það er ekkert svona svart/hvítt!

Ásta (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 17:57

3 Smámynd: Hafþór Baldvinsson

Sæll Ómar. Það eru margar hliðar á þessu og tek það sem þú segir sem hafa gilt almennt.  Það sem Ásta segir er ein slík hlið. Atvinnuhorfur á sumrin s.l. 20 ár hafa ekki verið þannig að almennt hafi námsfólk getað fengið vinnu en auðvitað voru mörg áranna góð til þess. En launin fyrir námsfólk hafa verið æði misjöfn og þeir sem fengu lægsta kaupið gátu tæplega safnað miklu.

Sá tími þegar fólk gat vissulega unnið sumarvinnu og safnað sér var tími þar sem hlutfallslega fáir voru í námi. Nú eru námsmenn orðinn það stór hópur að þessi tími kemur sennilega aldrei aftur. Því miður.

Samt hefur mér sýnst það sem að mér snýr og þekki til að ekki skorti viljann.

p.s. ég þarf að tala við þig en ekki hérna. Viltu hringja í mig í síma 8219557 eða senda mér póst á hafthorb@mmedia.is?

Hafþór Baldvinsson, 4.7.2010 kl. 19:07

4 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Það sem ég óttast að okkar ágæta menntafólk skorti reynslu og þekkingu á atvinnulífinu og hvar peningarnir verða til þ.e.s. í framleiðslu greinunum, þegar það fer að stunda vinnu og nýta sína bóklegu þekkingu.

Ragnar Gunnlaugsson, 4.7.2010 kl. 21:42

5 identicon

Vissulega hefur eitthvað breyst, en það er fullt af ungu fólki þarna úti, sem sannarlega er að gera góða hluti. Viðhorfin hafa einnig breyst; vinna göfgar manninn, segir máltækið - en of mikil vinna skemmir líka út frá sér. Ég sá aldrei föður minn, nema í mýflugumynd, fyrstu ár minnar ævi; hann vann það mikið að hann var aldrei heima. Nú er krafan sú að foreldrar sinni börnum sínum betur - kannski það sé réttmæt krafa? Og samt virðast foreldrar enn ekki hafa tíma til að sinna börnum sínum, vegna anna, þar sem vinnuálag hefur í raun verið að aukast, en ekki minnka, síðustu árin.

Annars ætlaði ég ekki að tuða þetta, heldur senda þér eintak af nýrri ljóðabók, Ómar. Geri það hér í gegn, þar sem ég hef ekki netfang til að senda á:

http://skorrdal.is/skuggi-af-skaldi/

Skorrdal (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 02:41

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vinnufíkn er auðvitað lítið skárri en mörg önnur fíkn sem fer úr böndum.

Ómar Ragnarsson, 5.7.2010 kl. 09:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband