Sem sagt: Útlendingar mega eignast alla orku landsins.

Seljum fossa og fjöll.

Föl er náttúran öll. 

Og landið mitt taki tröll. 

Þessar ljóðlínur Flosa Ólafssonar eiga vel við þá stefnu sem rekin hefur verið leynt og ljóst hér á landi síðustu fimmtán ár varðandi orkuauðlindir þjóðarinnar og nú birtist í úrskurði nefndar um erlenda fjárfestingu. 

Þrátt fyrir allt sjálfstæðiskvakið á hátíðastundum er raunin sú að með tangarsókn erlendra aðila ná þeir yfirráðum yfir öllum orkuauðlindum landsins á næstu árum verði ekkert að gert.

Tangarsóknin felst í því að fyrst er risafyrirtækjum afhent orka heilla landshluta í formi orkusölu til álvera. En til þess að gulltryggja erlend yfirráð eru orkufyrirtækin líka seld útlendingum og hringurinn lokast. Tröll hafa tekið landið.

Þegar þessu ferli lýkur og álver hafa fengið alla virkjanlega orku landsins í sínar hendur munu 2% vinnuafls þjóðarinnar hafa vinnu í þessum álverum. 

Jafnvel með ítrustu reiknikúnstum um "afleidd störf" getur þessi tala aldrei orðið hærri en 8%. 

Miðað við þær óskaplegu fórnir á náttúruverðmætum, sem stefnt er að, sýna þessar nöktu tölur hve glötuð þessi atvinnustefna er.  

Gumað er af því hve þessi verksmiðjustörf séu góð þótt í öðrum löndum sé þessi atvinnustefna talin úrelt og aðir kostir mun vænlegri.

En jafnvel þótt störfin væru góð" eru feitir þjónar ekki miklir menn, hvorki nú né á tímum Árna Magnússonar. 

 


mbl.is Má eiga 98,5% hlut í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendiboðanum kennt um.

Það er gömul saga og ný að sendiboða válegra tíðinda er refsað grimmilega. Þegar eitthvað misjafnt "lekur" úr stofnunum eða fyrirtækjum snýst spurningin oft ekki um mikilvægi þess sem lekið var heldur það hver hafi lekið því. 

Fjölmiðlamenn eru sendiboðar tíðinda og fá oft að kenna á því að flytja skilaboð sín. Ég finn því til talsverðrar samkenndar með kolkrabbanum Páli.

Páll naut hylli meðan skilaboð hans voru eigendunum þóknanleg og fólk lét sér vel líka þegar ég ferðaðist um og sýndi athyglisverð landsvæði og fólk.

Gamanið fór hins vegar að kárna þegar á skjánum birtust myndir af illa förnum afréttum og umdeildum virkjanasvæðum.

Steininn tók úr þegar ég tók upp á því að sýna Eyjabakka úr lofti og taka tvo daga til að ganga um svæðið og taka myndir af því.

Fjölmenni krafðist þess að ég yrði rekinn úr starfi með skömm fyrir þá ósvinnu og allt varð aftur vitlaust þegar ég fór í fyrsta skipti ofan í Hjalladal og sýndi myndir af örlitlum hluta þess svæðis þar sem nú er botn á aurflykkinu Hálslóni.  

Ungur sjómaður sem sagði mér í sjónvarpsviðtali í Kaffivagninum vorið 1986 frá brottkasti á fiski fyrstur manna var látinn taka pokann sinn strax morgunin eftir.

Mér láðist að fylgjast með afleiðingum frásagnar hans og harma það æ síðan að hafa ekki staðið vaktina nógu vel.

Í síðasta þorskastríðinu lögðum við Guðjón Einarsson það til við fréttastjóra okkar að fara til Hull og Grimsby og sýna kjör þess fólks þar sem átti allt sitt undir veiðum á Íslandsmiðum.

Það fengum við ekki í gegn.

Virkjanastefnan íslenska hefur byggst og byggist enn á því að halda frá fólki vitneskju um þau náttúruverðmæti sem í húfi eru. 

Stefnan er sú að helst engir komist á þessi svæði fyrr en eftir að fossar hafa verið þurrkaðir upp, svæðum sökkt eða jarðvarmasvæðum umturnað og er þá Landsvirkjun þakkað fyrir að hafa gert þau aðgengileg.

Meira að segja byggjast niðurstöður eins vinnuhóps Rammaáætlunar á því að meta mikilvægi svæða til ferðamennsku eftir því hvað margir hafa séð þau hingað til.

Þar með fæst sú niðurstaða að tveir stórfossar á stærð við Gullfoss í Efri-Þjórsá hafi lítið gildi fyrir ferðamennsku af því að svo lítið af fólki hefur séð þá vegna þess hvað þeir eru óaðgengilegir!

Einnig Gjástykki vegna þess hve fáir hafa komið þangað, enda er slóða þangað frá Kröflu lokað með keðju að boði landeigenda. 

Kolkrabbinn Páll fær ígildi þessa framkvæmt á sjálfum sér ef hann verður gerður að hluta af sjávarréttahlaðborði.

Sendiboðinn var drepinn forðum tíð og það mun því miður ekki breytast.  


mbl.is Páll fallinn í ónáð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband