15.8.2010 | 23:40
"Það kom þarna staur."
Í frétt sem þessi bloggpistill er tengdur við er talað um tvö umferðaróhöpp "vegna ljósastaura."
Hér er verið að snúa hlutum við. Ljósastaurar valda ekki óhöppum.
Á hitt er að líta að þeir geta samt verið á óheppilegum stöðum, svo óheppilegum að þeir eigi hlut að slysum.
Þetta minnir mig á þekktan leigubílstjóra fyrir sextíu árum sem var sífellt með beyglaðan bíl vegna árekstra en sagði þegar hann var spurður, hvers vegna nýjasta beyglan væri komin: "Það kom þarna staur", eða "það kom þarna girðing" o. s. frv.
En hvað um það, - ég ætla að taka að hluta til undir með blaðamanninum sem gefur í skyn að ljósastaurar valdi óhöppum.
Þannig vill til að sums staðar í gatna- og vegakerfinu eru ljósastaurar settir þannig niður að þeir beinlínis hámarka líkurnar á því að einhver aki á þá ef ökumenn missa stjórn á bílum sínum.
Lengi vel var til dæmis ljósastaurum á leiðinni út á Álftanes raðað þannig niður, að leiðinni var skipt í kafla þar sem staurarnir voru annað hvort vinstra megin eða hægra megin á leiðinni út á nesið.
Gott er ef þetta er ekki svona ennþá þótt ég hafi reyndar bent á þetta á ráðstefnu Vegagerðarinnar í fyrra.
Af einhverjum ástæðum voru þessar stauraraðir settar niður í löngum aflíðandi beygjum einmitt þeim megin sem bílar myndu skrika út af veginum í hálku.
Skiptingin milli þess að raðirnar væru vinstra megin eða hægra megin nánast tryggði það að staur yrði í veginum fyrir bíl sem til dæmis rynni út af í hálku.
Annað dæmi eru nokkur hringtorg þar sem staurar virðast settir niður til þess að koma í veg fyrir að bílar fari alveg út af, sem er alger óþarfi vegna þess að slétt land er við torgin og því öryggisatriði að geta runnið útaf árekstrarlaust í stað þess að hafna á staur.
Tveir staurar eru mér einkum þyrnir í augum, annar við Hveragerði og hinn norðan við Borgarnes.
Þegar ekið er austur Ölfus og komið í gegnum hringtorgið við Hveragerði getur það gerst í hálku, að bíll nái ekki beygjunni til vinstri í boga hringtorgsins.
Einmitt þar sem bíll myndi fara út af í hálku af stendur staur sem menn lenda á en rynnu annars án tjóns út af torginu.
Aðeins þyrfti að hnika staðsetningu þessa staurs lítillega til þess að gera hann hættuminni.
Hinn staurinn er á svipuðum stað þegar maður er að taka hringtorgsbeygjuna á leiðinni norður frá Borgarnesi.
Þar hefur staur líka verið settur niður einmitt þar sem hættan er mest á að bíll renni út af.
Í hvert skipti sem ég ek um fyrrnefndar slóðir koma mér orð gamla leigubílstjórans í hug sem upplagða skýingu þeirra ökumanna, sem eiga eftir að lenda á þessum staurum: "Það kom þarna staur."
![]() |
Tvö umferðaróhöpp vegna ljósastaura |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.8.2010 | 20:13
Verður að taka afleiðingunum.
Ef eitthvað er er ég Pool-ari en eingöngu vegna þess að mér finnst þeir vera með besta einkennislagið.
Engu að síður finnst mér að Joe Cole og félagið eigi að taka afleiðingunum af algerlega misheppnaðri tæklingu hans í leiknum í dag.
Og raunar er ég þeirrar skoðunar að verði leikmaður fyrir meiðslum af völdum brots og verði frá keppni af þeim sökum eigi sá, sem braut á honum, að fá jafn langt leikbann, þó ekki meira en sex vikur, sem er sá tími sem tekur menn að jafna sig eftir flest slæm meiðsli eða beinbrot.
![]() |
Liverpool hyggst áfrýja rauða spjaldinu hjá Cole |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.8.2010 | 13:21
Meistarar augnabliksins. Besti kynnir heims?
Ljósmyndara, sem ná myndum sem skapa meiri hughrif en kvikmynd af viðkomandi atburðum, má kalla meistara augnabliksins.
Kvikmyndargerðarmönnum kann að þykja þetta ósanngjarnt en langoftast eru ljósmyndirnar afrakstur samblands af hæfileikum og mikilli vinnu.
Nokkrar ljósmyndir má nefna, en myndin af því þegar sjóliðar reisa bandaríska fánann á efsta tindi Iwo Jima og myndin af Muhammad Ali þar sem hann stendur yfir Sonny Liston og manar hann til að standa upp eru ágæt dæmi.
Þetta leiðir hugann að öðrum meisturum sem njóta sín á stuttum stundum sem einstaka sinnum eru nánast augnablik.
Í nótt var hnefaleikakvöld í beinni útsendingu frá Montreal í Kanada sem stóð í margar klukkustundir.
Einn maður var ómissandi á þessu kvöldi, kynnirinn Michael Buffer sem fengið hefur viðurnefnið "gullbarkinn".
Hann hefur halað inn milljarða fyrir að segja nokkrar setningar á kvöldum eins og þessum.
Þar af hefur hann grætt meira en 50 milljarða bara fyrir einkaréttinn á einni fimm orða setningu.
Buffer er 66 ára gamall en lítur á skjánum út fyrir að vera miklu yngri.
Við Bubbi komumst í námunda við hann fyrir bardagakvöld í Manchester fyrir allmörgum árum og í návígi er hann hvergi nærri eins flottur og á skjánum.
Það stafar mest af því að þegar hann er ófarðaður sést að hann er með grófa húð sem virðist vera afleiðing af gelgjubólum fyrr á tíð.
En fas hans og útlit eru með þeim hætti að upp úr þrítugu fór hann að stunda módel-störf.
Mörgum kann að finnast ósanngjarnt að maður, sem eitt sinn var bílasali, og hefur aldrei lært framsögn eða leiklist, skuli geta haft milljarðatekjur af því að segja nokkrar setningar í hljóðnema.
Það hlýtur að vera auðvelt líf og þægilegt að ferðast um til að gera ekki meira viðvik og vera heimsfrægur og góðkunningi þekktasta fólksins.
En þetta er ekki svona einfalt. Buffer, "gullbarkinn" hefur að vísu einstaklega góða rödd, en margir fleiri hafa góðar raddir. Og margir fleiri líta vel út.
Yfirburðir hans byggjast hins vegar á því að hvert orð, allt frá fyrsta orði, sem hann mælir af vörum, til hins síðasta, er afrakstur mikillar pælingar og úthugsaðrar nákvæmni.
Snilldin er ekki aðeins flóð orða úr gullbarkanum heldur má segja að hún komi innan úr heilabúinu sem er á bakvið.
Þar að auki eru höfuðhreyfingar og fas Buffers þannig að betur verður ekki gert.
1984 fór Buffer að nota setninguna "let´s get ready to rumble!" og 1992 hafði hann fengið lögvarinn einkarétt á henni sem hefur fært honum miklar tekjur.
Þegar maður hlustar á hann tala bæði á ensku og frönsku eins og í gær og íhugar hrynjandina, tónhæðina, áherslurnar og öll smáatriðin sem gerir framsögn hans að snilld, er ekki hægt annað en dást að því sem Buffer gerir svo vel, að mér er til efst að nokkurn tíma hafi verið uppi betri og flottari kynnir en hann.
Að minnsta kosti hef ég heyrt í hundruðum þeirra í meira en hálfa öld og enginn þeirra kemst í námunda við gullbarkann.
Sugar Ray Leonard hefur sagt að eingöngu það að vera kynntur af Michal Buffer vegi þyngra en flest annað til þess að fá upp bardagagleðina.
Og ekki spillir hvatningarhrópið fræga: "...and now for the thousands in attendance and the millions watching around the world, - ee...let´s get ready to rumble...eeee!"
Lífskjör og hlutskipti fólks eru kannski ekki alltaf sanngjörn en á það verður líka að líta að ein kynning sem framkvæmd er af þessum meistara vegur þyngra allar hinar til samans.
Hún mun lifa um aldir á þegar allar hinar verða löngu gleymdar.
![]() |
Þvílíkur koss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)