"Það kom þarna staur."

Í frétt sem þessi bloggpistill er tengdur við er talað um tvö umferðaróhöpp "vegna ljósastaura."

Hér er verið að snúa hlutum við. Ljósastaurar valda ekki óhöppum.

Á hitt er að líta að þeir geta samt verið á óheppilegum stöðum, svo óheppilegum að þeir eigi hlut að slysum.  

Þetta minnir mig á þekktan leigubílstjóra fyrir sextíu árum sem var sífellt með beyglaðan bíl vegna árekstra en sagði þegar hann var spurður, hvers vegna nýjasta beyglan væri komin:  "Það kom þarna staur", eða "það kom þarna girðing" o. s. frv.

En hvað um það, - ég ætla að taka að hluta til undir með blaðamanninum sem gefur í skyn að ljósastaurar valdi óhöppum.

Þannig vill til að sums staðar í gatna- og vegakerfinu eru ljósastaurar settir þannig niður að þeir beinlínis hámarka líkurnar á því að einhver aki á þá ef ökumenn missa stjórn á bílum sínum.

Lengi vel var til dæmis ljósastaurum á leiðinni út á Álftanes raðað þannig niður, að leiðinni var skipt í kafla þar sem staurarnir voru annað hvort vinstra megin eða hægra megin á leiðinni út á nesið.

Gott er ef þetta er ekki svona ennþá þótt ég hafi reyndar bent á þetta á ráðstefnu Vegagerðarinnar í fyrra.  

Af einhverjum ástæðum voru þessar stauraraðir settar niður í löngum aflíðandi beygjum einmitt þeim megin sem bílar myndu skrika út af veginum í hálku.

Skiptingin milli þess að raðirnar væru vinstra megin eða hægra megin nánast tryggði það að staur yrði í veginum fyrir bíl sem til dæmis rynni út af í hálku.

Annað dæmi eru nokkur hringtorg þar sem staurar virðast settir niður til þess að koma í veg fyrir að bílar fari alveg út af, sem er alger óþarfi vegna þess að slétt land er við torgin og því öryggisatriði að geta runnið útaf árekstrarlaust í stað þess að hafna á staur. 

Tveir staurar eru mér einkum þyrnir í augum, annar við Hveragerði og hinn norðan við Borgarnes.

Þegar ekið er austur Ölfus og komið í gegnum hringtorgið við Hveragerði getur það gerst í hálku, að bíll nái ekki beygjunni til vinstri í boga hringtorgsins. 

Einmitt þar sem bíll myndi fara út af í hálku af stendur staur sem menn lenda á en rynnu annars án tjóns út af torginu.

Aðeins þyrfti að hnika staðsetningu þessa staurs lítillega til þess að gera hann hættuminni.  

Hinn staurinn er á svipuðum stað þegar maður er að taka hringtorgsbeygjuna á leiðinni norður frá Borgarnesi.

Þar hefur staur líka verið settur niður einmitt þar sem hættan er mest á að bíll renni út af.

Í hvert skipti sem ég ek um fyrrnefndar slóðir koma mér orð gamla leigubílstjórans í hug sem upplagða skýingu þeirra ökumanna, sem eiga eftir að lenda á þessum staurum: "Það kom þarna staur."  


mbl.is Tvö umferðaróhöpp vegna ljósastaura
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar! Þegar ekið er austur (upp) Ártúnsbrekku og beygt inná afrein sem liggur niður í Elliðaárdal (eins og verið sé að fara að rafstöðinni eða Ingvari Helgasyni) eru allir ljósastaurar á afreininni vinstra megin! Afreinin endar í T-gatnamótum og til að taka steininn úr er ljósastaur staðsettur eint í miðju T-inu!!

Hvað skyldu þeir hafa verið að hugsa sem ákváðu þetta?

Gunnar Th Þorsteinsson (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 01:47

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Verð að þakka þér fyrir yndislega textann í Þar ríkir fegurðin...

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.8.2010 kl. 01:58

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar, vissulega eru ljósastaurar og ýmis önnur mannvirki illa staðsett við vegi og götur. Því meiri ástæða er til að aka varlega, sérstaklega ef menn þekkja ekki leiðina. Varðandi ljósastaurinn sem þú nefndir við hringtorgið í Borgarnesi, þá hef ég ekki tekið eftir honum, þó fer ég mjög oft um það hringtorg. Þarf að líta eftir honum næst til að geta varast hann.

Í fréttinni kemur hinsvegar fram að að minnsta kosti annar ökumaðurinn var grunaður um ölvun, það er sennilegri skýring á slysinu.

Gunnar Heiðarsson, 16.8.2010 kl. 10:48

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Guðrún María. Lagið er næstefst á tónlistarspilaranum hér við hliðina. 

Ómar Ragnarsson, 16.8.2010 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband