Lýsi eftir 40 hestafla vél.

Fyrir þremur árum var glænýjum 40 hestafla utanborðsmótor stolið af báti mínum, Örkinni, þar sem hann stóð rétt hjá vinnubúðunum við Kárahnjúka.

Þetta olli mér miklum vandræðum því málið upplýstist ekki. 

Mér tókst að vísu að afla mér 9 hestafla mótors en í blankheitum síðasta vetrar þegar ég sá að ég neyddist til að selja bátinn, gat ég það ekki, því að hugsanlegir kaupendur vildu að almennilegur mótor fylgdi honum.

Nú sé ég í frétt á mbl.is að grænlenskan sjómann vantar slíkan mótor. 

Ég vil því gera þeim, sem stal mótornum mínum þetta tilboð:

Ef þú skilar mér mótornum mun ég láta það mál niður falla, heita þér nafnleynd og sömuleiðis því að gefa grænlenska föðurnum mótorinn.

Þú getur hringt í mig eða gert mér skilaboð á annan hátt og sagt mér hvar mótorinn er að finna og ég myndi þá sækja hann án þess að reka málið neitt frekar. 

Það myndi verða þér til mikils sóma, hver sem þú ert, ef þú tekur þessu tilboði.  


Hvað um flugturninn?

Fyrir þremur árum bloggaði ég um einhvert merkilegasta hús Reykjavíkur, gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, fyrsta sérsmíðaða flugturn á Íslandi, sem hýsti fyrstu flugumferðarstjórana og Veðurstofu Íslands.

Hann og flugvallarmannvirkin í Reykjavík og á Kaldaðarnesi gegndu ómetanlegu hlutverki í orrustunni um Norður-Atlantshafið sem í öllum fræðbókum um heimsstyrjöldina síðari er með svipaða umfjöllun og helstu orrustur stríðsins.

Nöfnin segja sína sögu: Atlantshafið, Moskva, Stalíngrad, Kursk, El Alamein, Sikiley, Normandí, Midway, Kóralhafið, Corregidor, Iwo Jima og Okinawa. 

Frá Íslandi flaug flugvélin sem hertók fyrsta þýska kafbátinn og færði hann til hafnar þar sem hann var rannsakaður og þar með fengin dýrmæt vitneskja um þetta skæða vopn andstæðinganna. 

Á tímabili hafði Churchill meiri áhyggjur af orrustunni um Atlantshafið en nokkrum öðrum stríðsvettangi. 

Ef sú orrusta tapaðist var stríðið tapað, því að þá væri ekki hægt að flytja matvörur, hermenn og herbúnað til Bretlands og tómt mál að tala um innrás í Normandí. 

Hér á landi eimir enn eftir að úreltri feimni og tómlæti gagnvart því sem við lögðum til í stríðinu við mestu villimennsku mannkynssögunnar.

Það sést best þegar skoðaðar eru stríðsminjar í Noregi og í Bretlandi og raunar er flugturninn og aðrar stríðsminjar við Reykjavíkurflugvöll svo og völlurinn sjálfur sameiginlegar minjar um baráttu lýðræðisþjóðanna við Norður-Atlantshaf gegn nasistum. 

Á Reyðarfirði hefur verið staðið myndarlega að varðveislu minja um stríðsreksturinn þaðan og gefa Reyðfirðingar Reykvíkingum langt nef í þessu efni. 

2007 datt mér í hug að reyna að fara í leiðangur um borgarkerfið í Reykjavík og snúa mér til flugmálayfirvalda til þess að fá leyfi til þess að mála flugturninn, sem er í algerri niðurníðslu sem er til stórrar skammar yfir okkur Íslendinga. 

Tilviljun réði því að þegar ég átti erindi í Landsbankann hitti ég Björgólf Guðmundsson í afgreiðslusalnum og hann kvaðst vera tilbúinn að styðja við þetta framtaka og meira að segja fara sjálfur með mér til að mála turninn með eigin höndum.

Á þessum tíma, 2007,  var slíkur atbeini öflugs styrktaraðila á borð við Landsbankann mikils virði og þess vegna setti ég aukinn kraft í þennan erindrekstur minn og hætti ekki fyrr en ég hafði fengið samþykki allra aðila með ákveðnum skilyrðum. 

Síðan kom Hrunið og málið hefur verið í biðstöðu síðan. 

En nú er spurningin hvort hægt sé að taka þráðinn upp aftur og  að fá samtök um að gera þetta með því að leita að sjálfboðaliðum. 


mbl.is Þingmenn máluðu húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamraborgin skoraði á Hamraborgina.

Hamraborgin kom víða við sögu í gærkvöldi. Í glæsilegri söfnin fyrir Ljósið undir kjörorðinu "Á allra vörum" í gærkvöldi  var talsvert um áskoranir. 

Til dæmis skoraði hárgreiðslustofan Cleo í Garðabæ strax í upphafi á aðrar hárgreiðslustofur að láta að sér kveða og fyrirtækið Hamrabofrg í Kópavogi skoraði á önnur fyrirtæki með sama nafni að taka þátt.

Öllum sem þarna voru bar samanum hve það væri gefandi í þess orðs fyllstu merkingu að fylgjast með þessu framtaki og taka þátt í því.

Nú gleðja skulum lönd og lýði

svo lifni frægðarhrósið, 

öflum fjár í ergi og gríði

og eflum blessað ljósið. 

 


mbl.is Hamraborgin sungin í Hamraborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband