Erfiðasta fíkniefnið.

Alla tíð hafa ríkt fordómar gagnvart þeim sem stríða við ávanabindandi fíkniefni á borð við áfengi og tóbak. Alltof lengi hefur það viðgengist að líta á fólk, sem stríðir við slíkt sem aumingja og ræfla og af bloggi um ummæli borgarstjórans má ráða að enn sé svona á sveimi.

Staðreyndin er sú að það fer ekkert eftir gáfum eða öðru andlegu eða líkamlegu atgerfi hve vel fólki gengur að halda aftur af neyslu fíkniefna, en áfengi og nikótín eru fíkniefni og ekkert annað. 

Tölurnar tala sínu máli: Hér eru prósenttölur þeirra sem missa stjórn á neyslu fíkniefna: 

Hass:  8% 

Áfengi: 13% 

Kókaín  18% 

Heróin:  23% 

Nikótín:  33% 

Það er algerlega persónubundið hvernig fólki gengur.

Ferill Baracks Obama Bandaríkjaforseta sýnir að hann er geysilega viljasterkur og snjall maður.

Hins vegar er það opinbert að hann hefur ekki getað hætt að reykja.

Faðir minn heitinn fór í áfengismeðferð en reykingar höfðu ekki minnstu áhrif á hann.  Hann gat reykt hvað sem honum lysti þegar honum sýndist og látið það vera og hætt því hvenær sem honum datt það í hug og snerti ekki tóbak árum saman. 

Á hinn bóginn gat hin viljasterka móðir mín aldrei ráðið við nikótínið. 

Það er á skjön við staðreyndir að dæma fólk eftir því hvernig því gengur að glíma við erðabundna erfiðleika gagnvart fíkniefnum. 

 


mbl.is Pirringur vegna nikóktínfíknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árnaðaróskir.

Ég óska félögum mínum og vinum um árabil til hamingju með að geta haldið áfram því þjóðþrifastarfi sem ég tel að þeir hafi sinnt undanfarin ár og áratugi með því að vera með fingurna á þjóðarpúlsinum. 

Þeir hafa verið í næsta herbergi við mig í útvarpshúsinu og auðvitað sakna ég þeirra þaðan og finnst súrt í broti að missa þá í burtu frá þeim vettvangi sem hefur verið sameiginlegur fyrir okkur lengst af.

Þeir félagar hafa verið ómissandi síðustu tvö ár í að viðhalda beittri og ómissandi háðsádeilu á samfélag okkar og það er fagnaðarefni að þeir geti látið gamminn geysa áfram. 


mbl.is Spaugstofan á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðin hömlulausa.

Í viðtali við blaðið Krónikuna 2007 lýsir Sigurjón Þ. Árnason því fjálglega að kynslóðin, sem stjórni hinum ævintýralegu loftfimleikum fjármálamanna, sé að mestu á sínu reki, hafi alist upp við mikið frjálsræði og segir í lokin: "...telur allt mögulegt og er að þessu leyti hömlulaus."  

Sú spurning vaknar nú í mínum huga hvort þessi sama kynslóð sé nú að nýta sér sparnað minnar kynslóðar til að breiða yfir skítinn sinn, - þið fyrirgefið orðbragðið. 

Nú er það svo að við erum öll á sama báti og að það er kannski einföldun að setja þetta mál í farveg togstreitu kynslóða. 

Hitt liggur ljóst fyrir að elsta kynslóðin á ekki aðeins mest undir því að lífeyrissjóðirnir séu vel notaðir þannig að þeir séu ekki eyðilagðir eða stórskertir, heldur kemur veiklun þeirra beint niður á elstu kynslóðinni á sama tíma og vofa Hrunsins gengur enn ljósum logum, hugsunarháttur skyndireddinga, kúlulána, ofnýtingar orkulinda og eyðileggingar náttúruverðmæta á kostnað komandi kynslóða. 

Annað varasamt atriði kemur upp í hugann við ráðstöfun framlaga lífeyrissjóðanna, en það er sú þróun að mörg stór fyrirtæki séu rekin af ríkinu á kostnað skattgreiðenda til þess að keppa við önnur fyrirtæki, sem ekki voru eins glæfralega rekin. 

Ef þessu fer fram stefnum við í svipað ástand og á spillingartímum haftakerfisins hér í gamla daga þegar þau fyrirtæki sem höfðu pólitísk sambönd inn í hið opinbera fyrirgreiðslukerfi ríkisbankanna gátu nýtt sér það í "pilsfaldakapitalisma" þess tíma, sem orðhagur maður kallaði kapítalisma andskotans. 

Það mátti heyra á útvarpsauglýsingum fyrir síðustu jól að fyrirtæki, sem ríkið hafði tekið að sér, gátu auglýst miklu meira en samkeppnisfyritækin, sem urðu að spenna sultarólina í þrengingum kreppunnar og fengu ekki aðstoð né umbunun fyrir að sýna aðhald og gætni. 

 

 


mbl.is Ósátt við fjárfestingar sjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband