19.9.2010 | 21:15
Andlega hliðin skilar mestu.
Í knattspyrnuliði eru ellefu menn inni á vellinum í einu. Þótt þjálfun, leikskipulag og einstaklingsgeta hvers leikmanns skipti miklu er mikilvægast að réttur andi ríki meðal leikmanna.
Ef Breiðablik verður Íslandsmeistari í fyrsta sinn verður það fyrst og fremst vegna þess sem stundum er kallað "karakter" liðsins sem heildar. Þann eiginleika hefur liðið sýnt hingað til og nú vantar aðeins herslumuninn til þess að uppskera.
![]() |
Blikar í toppsætinu fyrir lokaumferðina - Selfoss fallið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.9.2010 | 14:51
Eitthvert dýrmætasta sportið.
Oft er talað um bilið eða gjána á milli fólks í þéttbýli og dreifbýli og það hve slæmt það geti verið fyrir þjóðina, samheldni hennar, árangur og velferð.
Mikið óskaplega eigum við Íslendingar hestinum okkar að þakka, því að erfitt er að finna eitt fyrirbæri sem leiðir fólk úr þéttbýli og dreifbýli saman á þann stórkostlega hátt og hesturinn gerir.
Möguleikarnir til þess að sameina þjóðina eru margir og þar að auki er stór hluti þeirra þess eðlis að við getum laðað erlent fólk til landsins og átt með þeim ljúfar stundir sem gefa bæði þeim og okkur gleði og skilning á landi og þjóð.
![]() |
Aldrei séð jafn marga á baki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2010 | 11:51
Við verðum að fara að læra.
Við Íslendingar erum undarlegir kleyfhugar hvað snertir nýjungar og breytt viðhorf og ástand.
Á sumum sviðum erum við svo fljótir að stökkva á nýjungar af ástríðufullum ákafa að við eigum að baki nokkur heimsmeti í því, svo sem í því að nýta okkur farsíma og internetið.
Þetta getur verið dásamlegur kostur en oft förum við langt fram úr okkur og högum okkur eins og barn sem á ríka foreldra og hefur komist inn í risastóra leikfangabúð þar sem það má leika sér að vild.
Andri Snær Magnason hefur lýst þvi vel í frægri blaðagrein hvernig okkur hefur hætt til að stökkva á risastórar hugmyndir án þess að huga hið minnsta að afleiðingunum , til dæmis því að afleiðingunum af því að tvöfalda, fjórfalda og tífalda gersamlega stjórnlausa og áhættusama orkuöflun í þágu mesta mögulega orkubruðls veraldar.
Á hinn bóginn er síðan sá eiginleiki okkar að ríghalda í gamlar og úreltar hugmyndir og skella skollaeyrum við aðvörunarorðum um afleiðingar þess að aðhafast ekkert í ljósi breyttra aðstæðna.
Fréttin um þá áhættu sem við tökum með því að ríghalda í notkun fjölfosfats til að gera saltfisk hvítan er gott dæmi um þetta.
Við höldum líka að við komumst upp með til frambúðar með ofnýtingu og rányrkju á jarðvarmasvæðum og hugum ekkert að því hve stórhættulegt það verður fyrir orðspor okkar (öðru nafni viðskiptavild) þegar upp kemst hvers kyns er.
Ég þarf sífellt að vera samskiptum við útlendinga og þekki af eigin reynslu það sem Andri Snær segir um það hve steinhissa þeir verða er þeir komast að hinu sanna um margt það sem við aðhöfumst.
Þar er af svo mörgu að taka að átakanlegt er. Maður stendur eins og fífl og reynir að réttlæta margt það sem veldur viðbrögðum á borð við það að þeir hrópa upp: "Þú ert að grínast!"
Eru menn virkilega að eyða peningum í að skoða það hvernig hægt sé að virkja helminginn af vatnsafli Dettifoss og halda samt áfram að sýna hann sem aflmesta foss Evrópu? Þú ert að grínast, er það ekki?
Skoðuðu menn virkilega og eyddu fé í að gera áætlun um að veita hinu auruga Skjálfandafljóti í Kráká, gera fyrir sunnan Mývatn stærra miðlunarlón en Mývatn, steypa jökulfljótinu í Laxá og drekkja Laxárdal?
Þú ert að grínast, er það ekki?
Þá dugir ekki að svara á Gnarrisku: "Nei, djók!"
Við verðum að fara að læra. Við verðum að hætta að horfa bara á tærnar á okkur eða stinga höfðinu í sandinn og horfast ekki í augu við veruleikann.
![]() |
Hættulegt fyrir orðspor okkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)