Við verðum að fara að læra.

Við Íslendingar erum undarlegir kleyfhugar hvað snertir nýjungar og breytt viðhorf og ástand.

Á sumum sviðum erum við svo fljótir að stökkva á nýjungar af ástríðufullum ákafa að við eigum að baki nokkur heimsmeti í því, svo sem í því að nýta okkur farsíma og internetið. 

Þetta getur verið dásamlegur kostur en oft förum við langt fram úr okkur og högum okkur eins og barn sem á ríka foreldra og hefur komist inn í risastóra leikfangabúð þar sem það má leika sér að vild.

Andri Snær Magnason hefur lýst þvi vel í frægri blaðagrein hvernig okkur hefur hætt til að stökkva á risastórar hugmyndir án þess að huga hið minnsta að afleiðingunum , til dæmis  því að afleiðingunum af því að tvöfalda, fjórfalda og tífalda gersamlega stjórnlausa og áhættusama orkuöflun í þágu mesta mögulega orkubruðls veraldar. 

Á hinn bóginn er síðan sá eiginleiki okkar að ríghalda í gamlar og úreltar hugmyndir og skella skollaeyrum við aðvörunarorðum um  afleiðingar þess að aðhafast ekkert í ljósi breyttra aðstæðna. 

Fréttin um þá áhættu sem við tökum með því að ríghalda í notkun fjölfosfats til að gera saltfisk hvítan er gott dæmi um þetta. 

Við höldum líka að við komumst upp með til frambúðar með ofnýtingu og rányrkju á jarðvarmasvæðum og hugum ekkert að því hve stórhættulegt það verður fyrir orðspor okkar (öðru nafni viðskiptavild) þegar upp kemst hvers kyns er. 

Ég þarf sífellt að vera samskiptum við útlendinga og þekki af eigin reynslu það sem Andri Snær segir um það hve steinhissa þeir verða er þeir komast að hinu sanna um margt það sem við aðhöfumst. 

Þar er af svo mörgu að taka að átakanlegt er.  Maður stendur eins og fífl og reynir að réttlæta margt það sem veldur viðbrögðum á borð við það að þeir hrópa upp: "Þú ert að grínast!" 

Eru menn virkilega að eyða peningum í að skoða það hvernig hægt sé að virkja helminginn af vatnsafli Dettifoss og halda samt áfram að sýna hann sem aflmesta foss Evrópu? Þú ert að grínast, er það ekki?

Skoðuðu menn virkilega og eyddu fé í að gera áætlun um að veita hinu auruga Skjálfandafljóti í Kráká, gera fyrir sunnan Mývatn stærra miðlunarlón en Mývatn, steypa jökulfljótinu í Laxá og drekkja Laxárdal? 

Þú ert að grínast, er það ekki? 

Þá dugir ekki að svara á Gnarrisku: "Nei, djók!" 

Við verðum að fara að læra.  Við verðum að hætta að horfa bara á tærnar á okkur eða stinga höfðinu í sandinn og horfast ekki í augu við veruleikann.


mbl.is Hættulegt fyrir orðspor okkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Ómar, Andri Snær sagði líka, að við ættum ekki að þurfa að standa í þessum bardaga við sturluðu karlana. Fulltrúalýðræðið á að sjá um að aðgát sé höfð og varúðarsjónarmiða gætt.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.9.2010 kl. 12:33

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Bolfisk aflinn á auðugustu fiskimiðum í heimi er komin í 300.000. tonn.

Takið þið eftir, 300.000. tonn. Ætlið þið ekki að opna augun ?

Það er glæpur gagnvart Íslensku þjóðinni að nýta fiskimiðin

eins og gert er í dag, tugir risa stórra skipa dragandi troll

eftir botninum og breyta honum í eyðimörk.

Það eru fáránlega miklir möguleikar í sjávarútvegi,

nýttum við miðin með handfærum og línu.

Fiskimiðin mundu lifna við og gefa Íslensku

þjóðinni met afla.

Það á að gefa línu og handfæra veiðar

smábáta frjálsar, þá verður gott að búa

í þessu landi, lífskjör fólks yrðu jafnari

og atvinnuleysi hyrfi.

Aðalsteinn Agnarsson, 19.9.2010 kl. 14:12

3 identicon

ég fór á stúfana hér í Noregi fyrir helgi og athugaði með hvort þetta eitur væri notað hér.....það er bannað að nota það í saltfisk  hér, hvað eru islenskir saltfiskframleiðendur að pæla...

Vilhjálmur C Bjarnason (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 07:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband