"Allt sem þjóðina varðar".

Þessi fjögur orð voru yfirskrift Morgunblaðsviðtals við mig í kosningabaráttunni 2007 og áttu við þá skoðun mína og flokkssystkina minna í Íslandshreyfingunni að öll meiriháttar málefni þjóðarinnar ætti að bera undir hana sjálfa í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef ævinlega verið þessarar skoðunar og er enn þótt viðurkenna verði að sum mál eru þannig vaxin að illmögulegt er að fá hreinan þjóðarvilja fram og stundum gefst ekki tími til að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Dæmi um það síðastnefnda var inngangan í NATÓ í mars 1949. Ég var nýlega að lesa um loftbrúna til Berlínar og það ástand sem þá ríkti í alþjóðamálum og það rifjaði upp fyrir mér það ástand sem þá rikti.  

Í mars 1949 var mikil stríðshætta í Evrópu. Valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948 vakti mikinn ugg og ekki minnkaði hann þegar Sovétmenn stöðvuðu á sama ári alla landflutninga milli Vestur-Þýskalands og Berlínar.

Vesturveldin gátu ekkert að gert vegna þess að um þessa landflutninga hafði ekki gilt neitt skriflegt samkomulag heldur aðeins munnlegt.  

Hins vegar var í gildi skriflegur samningur um loftleiðir til Berlínar sem Vesturveldin máttu nota og það gerðu þau. 

Stalín hélt að ómögulegt væri að fæða, klæða milljónir Berlínarbúa og hita hús þeirra með því að nota loftflutnina og í fyrstu virtist sem það væri rétt mat. Þegar það kom siðar í ljós að loftbrúin var orðin nægilega öflug ríkti ótti um það að Stalín myndi ekki geta sætt sig við að hafa reiknað dæmið skakkt og myndi nýta sér yfirburði í herafla til að rétta hlut sinn eða léti skjóta flugvélar Vesturveldanna niður.

Eina svar Bandaríkjamanna við því gat þá orðið að beita kjarnorkuvopnum og þar með var þriðja heimsstyrjöldin skollin á. Óvissa rikti um samstöðu þjóðanna í Vestur-Evrópu og það gerði ástandið enn tvísýnna og hættulegra.

Kommúnistar höfðu sterk ítök í Frakklandi og á Ítalíu og í ljósi örlaga Tékkóslóvakíu báru margir ugg í brjósti um það að fleiri þjóðir sem höfðu ræktað vestrænt lýðræði, myndi verða færðar inn fyrir járntjaldið. 

Í mars  1949 stóð Berlínardeilan sem hæst og enginn vissi hvort hröð atburðarás væri í aðsigi þar sem allt gæti farið úr böndum nema að óvissu um samstöðu þjóða Vestur-Evrópu yrði eytt hið snarasta.

Það var gert með stofnun NATÓ þar sem grunnyfirlýsingin var sú að árás á eitt aðildarríki yrði metin sem árás á þau öll. Þessi grunnyfirlýsing er langsterkasti kostur bandalagsins þótt aðgerðir þess hafi verið umdeilar oft á tíðum.

Þremur mánuðum eftir stofnun NATÓ lét Stalín undan og lét opna landleiðirnar til Berlínar. 

Þótt ég væri bara strákpatti og ætti langt í það að fá kosningarétt var ég mjög bráðþroska, kominn með stjórnmáladellu og myndaði mér þá skoðun að í ljósi ástandsins gæfist ekki tími til þess á Íslandi frekar en í nágrannalöndunum að verða við áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Nú, sex áratugum síðar, eru aðstæður gerbreyttar og enda þótt ég telji enn að við eigum ekki að rjúfa tengslin við NATÓ finnst mér það sjálfsagt að þjóðin fái sjálf að ráða þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu.


 

 


mbl.is Íhugi þjóðaratkvæði um NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú af tólf eru á Austurlandi.

Árið 2002 hófst þenslu- og gróðadansinn sem skóp Hrunið. Risavirkjun og álver átti að tryggja velsæld, hamingju og mikla fólksfjölgun á Austurlandi, sem byggð yrði á miklum fjárfestingum.

Nú blasa afleiðingarnar við. Þrjú af tólf skuldsettustu sveitarfélögum landins eru á Austurlandi, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Djúpavogur.

Fólki fækkaði á síðasta ári á sama tíma og því fjölgaði á Norðurlandi eystra á svæði sem stóriðjudansinn var ekki stiginn.

 

 

 


mbl.is Alvarleg staða sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óendanleikinn og eilífðin eru lykillinn.

"...hver skapaði Guð?" spyr Ari í Aravísum og bragð er að þá barnið finnur. Áberandi er hvað Kristur nefnir oft eilífðina í kenningu sinni en hún er flötur á lykilatriði alheimsins sem er óendanleikinn.

Óendanleikinn er raunar hugtak sem er svo stórt að mannshugurinn á erfitt með að höndla það. En af óendanleikanum leiðir að allt er ekki til og tíminn byrjaði aldrei og hann endar aldrei. 

Þetta sköpunarverk getur samt verið afurð þess alheimsanda sem ég get vel fellt mig við að kalla Guð og ég held að við mennirnir getum með engu móti útilokað þennan Guð frá því að til.

Ég get nefnilega vel ímyndað mér það að afl huga og anda, sem er okkur að mestu hulið, sé svona álíka mikið og jafnvel meira en þeir kraftar sem hægt er að mæla á vísindalegan hátt.

Fyrir aðeins 200 árum var það mönnum algerlega hulið að hægt væri að gera það með notkun rafeindabylgna sem nú er gert. Við sjáum ekki útvarpsbylgjurnar en vitum þó að þær eru til.


mbl.is Ljóst að Guð skapaði ekki heiminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkasti kandidatinn.

Ef rétt er að Guðbjartur Hannesson verði ráðherra er það góð frétt. Guðbjartur hefur verið farsæll, vandvirkur, íhugull og yfirvegaður stjórnmálamaður og á að hafa alla burði til að valda nýrri og vandasamri vegsemd.

Ég hef áratugum saman verið talsmaður kynjajafnréttis og er stoltur af því að í kosningunum 2007 náði Íslandshreyfingin þeim áfanga í því máli, að á framboðslistum flokksins var algerlega skipt jafnt á milli kynja ofan frá og niður eftir framboðslistum okkar hvað þetta varðar. 

Það geta þó komið upp þær aðstæður að þetta sé ekki mögulegt að fullu, til dæmis í ríkisstjórn og að  það hallist lítillega á á annan hvorn veginn. Ljóst var að kapallinn gat ekki gengið öðruvísi upp miðað við þær  forsendur um hlutföll á milli flokka sem lágu til grundvallar. 

Guðbjartur er sterkasti kandidatinn í þetta erfiða hlutverk og það hlýtur að vega þungt.

Stundum sópa nýir vendir best og er skipun ríkisstjórnar hins kornunga Hermanns Jónassonar 1934 gott dæmi um það. En ævinlega er tekin meiri áhætta að öðru jöfnu en ella þegar slíkt er gert. 

 


mbl.is Guðbjartur verði ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin hættulega "hvort eð er" hugsun.

Það fer ekkert á milli mála íslenska þjóðin er nú í skuldaánauð erlendra lánadrottna þegar timburmenn lánafyllerísins sem skóp Hrunið eru í algleymingi. Skuldir heimila og fyrirtækja fjórfölduðust á örfáum árum tilbúins "gróðæris" og það voru að mestu erlend lán.

Gróðærið var búið til með því að skapa innistæðulausa þenslu sem olli því að gengi krónunnar var skráð allt að 40% of hátt og þar með sköpuð hvatning fyrir skuldasöfnun og gróðrastía fyrir ófyrirleitna fjárglæframenn sem notuðu ofvaxið fjármálakerfi til að leika lausum hala og teyma þúsundir fólks á asnaeyrunum til að fjárfesta í erlendri mynt, sem allir máttu sjá að myndi fyrr eða síðar stórhækka í verði þegar krónan félli að lokum 

"What goes up must come down". 

Gamla dæmisagan um Jósep og söfnun innistæðna á góðu árunum til þess að eiga fyrir áföllum slæmu áranna var okkur gleymd. Í staðinn gerði yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar þveröfugt, annars hefðu skuldirnar ekki margfaldast á þeim tíma sem við hefðum átt að losna við þær. 

Stjórnmálaflokkurinn sem langmesta ábyrgð bar á því að skapa þessar aðstæður og hugsunarhátt er nú á ný orðinn langstærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar. 

Árni Mathiesen sagði á sínum tíma þegar allt var að hrynja: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?" 

Árni nafni hans Sigfússon segir nú: "Komið þið bara í Reykjanesbæ og sjáið Ljósanótt!" 

Innan þess flokks og víðar er alið á þeim hugsunarhætti að "hvort eð er" sé þetta og hitt svona og svona. 

Útlendingar eiga fyrirtækin og heimili skuldsettra Íslendinga í raun og þess vegna skiptir ekki máli þótt þeir eignist bara fyrirtækin í raun. 

Það er hvort eð er búið að eyða svo miklu í álverið í Helguvík að það verður að halda áfram. 

Það er hvort eð er komið svo langt með að umturna helstu náttúruverðmætum á Norðausturlandi fyrir Alcoa að það verður að halda áfram til enda. 

Með "hvort eð er" hugsuninni er hægt að réttlæta hvað sem er.  Í gær sá ég mjög vel gerða og áhugaverða kvikmynd, "Future of hope" frumsýnda. 

Það ætti að vera skylduverkefni Íslendinga að sjá slíkar heimildarmyndir þó ekki sé nema af einni ástæðu:

Þótt Hrunið væri hræðilegt hefði verið enn verra að halda áfram á sömu braut því að þetta hlaut að enda svona. Ég spáði því reyndar í Kárahnjúkabókinni 2004 en óraði þó ekki fyrir því að það myndi verða svona víðtækt og fljótt. 

Það góða við Hrunið er að ástæður þess blasa við og einnig það að sú leið sem farin var fram að því og átti að skapa svo mikinn auð og hamingju á Íslandi var sannanlega röng. 

Af því leiðir að það blasir við að við verðum að breyta um stefnu, annars stefnir í enn verra Hrun  sem mun að stórum hluta bitna á milljónum fólks sem á eftir að byggja þetta land í framtíðinni. 

Menn geta verið sammála eða ósammála ýmsu því sem kemur fram í þessari mynd en eftir stendur að þetta gengur ekki áfram hjá okkur óbreytt.  Ég hvet því fólk til að sjá hana.

 


mbl.is Auðlindir lánardrottna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband