Hvernig skal réttvísin vera?

Réttvísin hefur margar hliðar. Eins og nafnið bendir til er ætlast til að grunnur hennar sé siðfræðilegur, þ. e. að finna út hvað sé rétt eða rangt, hvaða gjörðir manna eða aðgerðarleysi teljist hafa verið þannig að koma verði því fram að þeir taki afleiðingum með því taka út refsingu.

Vandinn varðandi Landsdómsmálið er sá að þegar dæmt er eftir lögum hafa menn lítið annað til að fara eftir en lagabókstafinn sjálfan en hann kann hins vegar að vera gallaður. 

Fyrningarákvæði laga varðandi ráðherraábyrgð er megingalli núverandi löggjafar því að þeir, sem mesta ábyrgðina bera á Hruninu eða því að það varð svona stórt, voru að hluta til hættir störfum vorið 2007 þegar Hrunið var þegar orðið óhjákvæmilegt. 

Sjá má þeirri skoðun haldið fram að sanna verði að rangar embættisfærslur þeirra sem rætt er um að ákæra hafi valdið Hruninu. 

Á hinn bóginn er bent á að embættisfærslur geti hafa gert Hrunið stærra en það hefði orðið og að viðkomandi beri að svara fyrir það. 

Síðan sést á orðum forsætisráðherra í dag að hægt er að túlka orðið "embættisfærsla" á mismunandi hátt. 

Ef það er túlkað á þröngan hátt varðandi fyrrverandi utanríkisráðherra, aukast mjög líkur á sýknudómi, sem aftur þýðir það að ákæra eigi ekki rétt á sér, vegna þess að líkurnar þurfi að vera yfirgnæfandi á sektardómi til þess að hægt sé að réttlæta ákæru.  

Ef orðið "embættisfærsla" er hins vegar túlkað mjög rúmt gæti það náð yfir fundi oddvita stjórnarflokkanna og fjármálaráðherra um ástandið.  Og þá gæti ábyrgðin færst út til þeirra, sem voru í ríkisstjórn og áttu að bera samábyrgð á málinu í samræmi við það að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald. 

Ýmis sjónarmið togast á, til dæmis varðandi það að hugsanlega vanti upp á að þeir svari til saka sem ábyrgð beri.  Annars vegar það að vegna ágalla fyrningarákvæðanna verði dómar óréttlátir.  Hins vegar það að fyrst lög um Landsdóm séu á annað borð í gildi, verði að dæma eftir þeim, rétt eins og að þjófar séu dæmdir þótt vitað sé að stórtækari þjófar sleppi. 

Orðið réttvísi verður að mínum dómi að vera viðmiðið, hvernig sem fer. 

 


mbl.is Gagnrýnir málsmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Láttu drauminn rætast !"

Ofangreinda setningu sagði gamla förukonan og niðursetningurinn Margrét Sigurðardóttir, Hvammi í Langadal, við mig fyrir meira en hálfri öld þegar ég var þar í sveit sem drengur, en frænka mín í Hvammi hafði tekið hana að sér af góðsemi sinni. 

Margrét var þá komin vel á áttræðisaldur og var alltaf kölluð Manga, stundum Manga með svartan vanga eða bláa Manga, jafnvel gelda Manga af því að hún missti andvana fætt eina barnið, sem hún gekk með um sína daga.

Já, hún varð fórnarlamb þeirrar grimmdar sem fólk af hennar stigum var oft beitt og var orðin lúin og þreytt þegar ég kynntist henni, þrotinni að kröftum.  En hún hélt því þreki, sem eftir var, við með því að ganga um sveitina eins og förukonur gerðu í gamla daga.

Ég skrifaði 1993 bók um hana og fleira fólk, sem ég kynntist í Langadalnum, en var síðar sagt sitthvað um hana sem gerir það að verkum, að mig dreymir um að skrifa bókina um hana aftur og gera út.

Manga kunni ljóð stórskáldanna utanbókar og á bak við útlit umrenningsins, sem var það hlutverk sem hún hafði skapað sér í ellinni, þegar hún gekk á milli bæja, var gáfuð kona sem hafði lent utangarðs á erfiðri ævi.

Ég skipa Möngu á bekk með þeim persónum sem hafa haft mest áhrif á mig um ævina. Nafn hennar kemur upp í hugann í sömu andrá og nöfn Gísla á Uppsölum, Reynis Péturs, Pálínu á Skarðsá og bræðranna á Guðmundarstöðum. 

Manga var undanfari þeirra og beindi sjónum mínum að ljóðum Einars Ben og Steingríms Thorsteinssonar fegurð landsins og möguleikunum sem það gæfi þegar hún sagði:

"Þú átt lífið framundan, drengur minn, og mundu að það stekkur enginn lengra en hann hugsar!  Láttu drauminn rætast!"

 


mbl.is Susan Boyle í heimsmetabókina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband