4.9.2010 | 22:10
Á spítalabolina með þetta?
Ég er einn þeirra sem vegna kvilla í meltingarvegi hef þurft að fara oftar en einu sinni í ristilspeglun.
Á undan henni fer maður í laxeringu og fær leiðbeiningar um það hvernig maður eigi að bera sig að.
Það myndi létta lundina ef maður fengi bol til afnota þegar þetta er gert með áletrun sem létti lundina.
Mér dettur í hug að áletranirnar gætu verið tvær, spakmæli Þórunnar og meðfylgjandi leiðbeiningarvísa sem ég gerði að tillögu við þarmalæknana að yrði bætt við textann í leiðbeiningarbæklingnum.
Sá texti tiltók hvernig taka ætti laxerolíuna inn og að maður ætti síðan ganga um þangað til hún færi að virka.
Mér þótti þetta ekki nógu nákvæmar leiðbeiningar og vildi hafa í "endann" eftirfarandi vísu, sem gæti verið á spítalabol:
Laxeringin gengur glatt
ef gætir þú að orðum mínum:
Þú átt að ganga, - ekki of hratt, -
og alls ekki í hægðum þínum.
Ég vil af fagmennsku fræðin mín tjá þér.
Framkvæmdu og mundu nú heilræðin frá mér.
Í snarpri klósettferð hefst þetta hjá þér
og hoppaðu svo upp í rassgatið á þér !
![]() |
Ummæli Þórunnar á boli og bolla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.9.2010 kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.9.2010 | 21:57
Snilldin tæra.
Enn á ný kemur upp í hugann viðtalið við einn af "fjármálasnillingunum" miklu í tímaritinu Krónikunni snemma árs 2007 þar sem hann lýsir því hvernig hann fari að því að búa til milljarða tuga gróða í áður tapreknu og skuldugu fyrirtæki með því að stunda kaup og sölu og kennitöluflakk á fyrirtækjum þar sem í hvert skipti skapast tuga milljarða króna viðskiptavild sem er augljóslega tekin úr lausu lofti.
Þar að auki lýsir hann því hvernig hann geti, þrátt fyrir tuga milljarða gróða af þessum viðskiptum komist hjá því með nógu hröðum bellibrögðu að komast hjá því að borga nokkurn tíma skatt af þessum tekjum.
Þessu er lýst eins og ekkert sé sjálfsagðara í viðtali sem blaðakona tekur við snillinginn á leið upp og niður landganga á einkaþotu sinni á meðan hann er í ferðum til þriggja landa!
Þegar þetta er lesið gefur auga leið að það eru yfirgnæfandi líkur til að svona vinnubrögð og gróðakúnstir séu stundaðar með öllum tiltækum ráðum og það sem Vilhjálmur Bjarnason er að lýsa því mjög trúlegt.
![]() |
Stálu frá og eyðilögðu FL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2010 | 09:31
Það eru takmörk.
Í mín eyru hef ég heyrt það sagt að gárungar séu farnir að kalla rás 1 og Sjónvarpið "alzheimersrásirnar". Þá eiga þeir við það að þegar hlustað sé eða horft á þessar rásir sé engu líkara en að þeir sem ráði efni þeirra muni ekki lengur hvort efnið sé nýtt eða margnotað.
Öllu gamni fylgir alvara og augljóst er að það eru takmörk fyrir þeim möguleikum sem Sjónvarpið hefur til þess að bjarga sér. Stóra útgjaldaliði eins og rekstur hins stóra útvarpshúss er ekki hægt að minnka og margt fleira af því tagi má nefna.
Nú þegar hefur RUV misst Spaugstofuna og ef horft er á ýmislegt fleira, sem farið er vegna samdráttar, svo sem mikill fjöldi mjög reyndra og hæfra starfsmanna, þá er ljóst að það getur fært fyrirtækið inn í ákveðinn vítahring, þar sem það verður að éta undan sér og missa tekjur.
Ekki er þó allt alvont við "alzheimers-rásirnar". Í útvarpshúsinu er varðveitt sannkölluð gullkista dagskrárefnis þrátt fyrir að talsvert hafi glatast og það er mjög gaman að heyra eða sjá margt af þessu efni.
Ég nefni sem dæmi þætti Svavars Gests, sem að mínum dómi var snjallasti stjórnandi slíkra þátta sem við Íslendingar höfum átt með fullri virðingu fyrir öðrum, sem síðar hafa komið fram.
Það var óheppilegt að Svavar skyldi ekki koma siðar fram því að tæknin á hans tíma gerði ómögulegt að senda út skemmtiþætti af þessari tegund beint.
Svavar reyndi fyrir sér með gerð eins sjónvarpsþáttar, en þá átti Sjónvarpið aðeins eitt myndbandsupptökutæki og vegna þess að sífellt varð að stoppa upptökuna og byrja aftur, glataðist gildi augnabliksins, "spur of the moment".
Margt fleira af endurfluttu efni mætti nefna.
Þegar gerð var íslensk bók fyrir um 12-13 árum um tíu merkustu atriði á ýmsum sviðum, spurði annar höfundur bókarinnar mig um það hvernig mér litist á lista hans yfir tíu merkustu leikara Íslandssögunnar.
Ég sá strax að þetta voru allt nútímaleikarar og spurði hvers vegna hinn stórsnjalli Brynjólfur Jóhannesson kæmist ekki á blað, því að hann hefði verið jafn frábær sem dramatískur leikari og gamanleikari.
"Brynjólfur Jóhannesson, hver var hann? " spurði bókarhöfundurinn.
Þá áttaði ég mig á því hvílík kynslóðarof hafði orðið í íslenskri menningu á sviði leiklistar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)