12.1.2011 | 21:13
Allir að bíta hvað?
Sina er visnað gras en hestar og sauðkindur leggja sér það samt til munns á veturna ef þessar skepnur ganga úti. Það hefur verið sina sem hefur brunnið í dag á hverjum staðnum á fætur öðrum í Reykjavík.
Í dag er fyrirsögn í Fréttablaðinu: "Einn í einu eða allir í beit."
Ég hélt fyrst að þetta væri grein um vetrarbeit enda sina í fréttunum, þótt fyrirsögnin væri lítt skiljanleg, því að ef hin íslensku orð í henni væru tekin bókstaflega væri hér um það að ræða að einn hestur fengi gjöf í einu, en ella væru reknir út á beit.
Og hingað til hefur raunar verið sagt að skepnur séu á beit en ekki í beit.
Var þá spurning hvort einhver þessara hesta hefðu kveikt í sinunni.
En þá kom í ljós að hér var ekki um beit að ræða heldur þykir nú orðið ófínt að nota íslensku orðin "í röð", "í samfellu" , "í belg og biðu" eða "hver á eftir öðrum" heldur verður endilega að nota enskt orð til þess að vera maður með mönnum, orð sem þýðir allt annað á íslensku, því orðið "beit" hefur alveg ákveðna og afmarkaða merkingu í okkar máli.
Raunar kemur í ljós við lestur greinarinnar að hún fjallar um það hve þægilegt geti verið að horfa á framhaldsþætti í sjónvarpi í samfellu hvern á eftir öðrum ef það er tæknilega hægt, fremur en að bíða í viku eftir einum og einum þætti.
Af hverju er ekki hægt að nýta sér hin ýmsu og ágætu íslensku orð um þetta fyrirbæri heldur en að gera einfalt mál flókið með því að henda inn orði sem ætlast er til að þýði annað en það hefur gert hingað til?
![]() |
Þrír gróðureldar í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2011 | 09:52
Afar óhagstætt ástand.
Hið mjög svo óvenjulega veðurfar, sem verið hefur hér og í Evrópu síðan í miðjum nóvember, kemur á versta tíma fyrir marga á Suðurlandi.
Ég var á ferð um Suðurland í gær, bæði akandi og fljúgandi, og þetta sást glögglega þegar bætti hressilega í vindinn síðdegis.
Eyjafjallasveit hvarf í sandmistur, það rauk af söndunum vestar á ströndinni og sömuleiðis af leirum vestur í Ölfusi. Þetta fer illa með þau uppgræðslusvæði, sem Landgræðslan er með við Þorlákshöfn.
Ef jörð hefði ekki frosið eftir rigningardaga fyrir skemmstu væri ástandið þó miklu verra.
Í Reykjavík höfum við séð hvernig loft hefur orðið grábrúnt af sand- og moldfoki, sem kemur ofan af þurru suðurhálendinu þegar norðan- og norðaustanáttin hefur náð sér á strik.
Spáð er mikilli úrkomu sunnanlands á næstu dögum, sem svo er að sjá að mikið af henni verði rigning, sem mun þá bleyta jörðina og frjósa á eftir þegar hann snýst í norðanátt.
Varasamasti tíminn í þessu efni gæti þó orðið í vor þegar loft verður hlýrra og það frýs ekki í norðanáttinni.
Er vonandi að við sleppum við það, því að ástandið vegna sand- og öskufoks gæti orðið miklu verra en það er nú.
![]() |
Sandrok undir Eyjafjöllum og á Mýrdalssandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)