16.1.2011 | 18:06
"Íslenska er þjóðtunga Íslands."
Þegar rennt er augum yfir stjórnarskrá Finnlands sést hve mikil áhersla er lögð á að hún endurspegli sátt og jafnrétti milli finnskumælandi og sænskumælandi landsmanna. Ákvæðin um þetta eru í samhengi við meginreglur stjórnarskrárinnar um mannréttindi og jafnrétti.
Í núverandi stjórnarskrá Íslands er ekki eitt einasta orð að finna um tvær helstu meginstoðir íslensks þjóðernis, en það eru land og tunga. Að vísu segir varðandi landið, að eigi megi selja land eða láta af hendi en þar með er það nokkurn veginn upp talið.
Framarlega í finnsku stjórnarskránni er stutt grein sem tiltekur að í landinu séu tvær þjóðtungur, finnska og sænska.
Ég tel eðlilegt að Stjórnlagaþing taki það til skoðunar að í íslensku stjórnarskránni eigi það að vera tiltekið að íslenska sé opinber þjóðtunga landsins.
Sú staða myndi síðan verða útfærð þannig að skylt væri að öll gögn eða ritaðar heimildir, svo og það sem sagt er á opinberum vettvangi eða í fjölmiðlum, væri þýtt yfir á íslensku og öllum aðgengilegt á því máli.
Þegar útsending er bein á að gera það sama og gert er víða erlendis, að viðtölin eru þýdd jafnóðum.
Þetta höfum við Bubbi haft að leiðarljósi í lýsingum af hnefaleikum, enda gera kollegar okkar erlendis þetta líka þegar við á, þannig að oft hefur það sem sagt er, verið sagt á þremur tungumálum fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur.
Þegar ákvæði er síðan tengt við ákvæði um mannréttindi og jafnrétti, myndi það tryggja að það ástand skapist ekki sem nýlega var upplýst um, að konur af erlendu bergi brotnar urðu fyrir misrétti við málarekstur vegna skilnaðs við eiginmenn, sem voru íslenskir.
Þær fengu ekki að heyra það þýtt yfir á þeirra tungumál, sem sagt var eða ritað var.
Æ algengara er að skjöl, skýrslur og hvers kyns kennsluefni er sett fram eingöngu á ensku.
Á sumum sviðum ríkir um það alþjóðlegt samkomulag að ríki vafi á merkingu texta á mismunandi tungumálum, ráði eitt tungumál niðurstöðunni.
Í bílaíþróttum er samkomulag um að í vafaatriðum varðandi reglur ráði franski textinn.
Enska er ráðandi tungumál í flugi og vegna þess að þar verða samskipti, eðli málsins vegna, að vera hröð og markviss, gefst ekki ráðrúm til að þýða það sem sagt er í samskiptum flugvéla við flugumferðarstjóra og innbyrðis milli flugvéla.
Síðan kann að vera spurning hver eigi að vera staða táknmáls þannig að mannréttindi og jafnrétti séu tryggð.
![]() |
Finnar ræða framtíð sænskunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2011 | 13:43
"Bílvelta varð" upp á nýtt.
Á sínum tíma ákvað ég að prófa að pota í eitt af einkennum hin nýja "kansellistíls" í notkun íslensks máls og byggist meðal annars á fyrirbæri sem er kallað "nafnorðasýki" þar sem einfaldir hlutir eru gerðir flóknir, oft að því er virðist í eftirsókn í því að gera stílinn svo hátimbraðan, að hann sýnist vera tákn um langskólanám en er óskiljanlegur eða illskiljanlegur fyrir venjulegt fólk.
Eitt af þessum einkennum er orðalagið "bílvelta varð" sem hefur verið allsráðandi þegar fjölmiðlafólk hefur þurft að skýra frá því að bíll hafi oltið.
Ég fagnaði því þegar svo virtist sem þetta hefði borið árangur hér á mbl.is og grunaði að ritstjórinn, sem er með pennafærustu mönnum landsins, og íslenskumaður góður, hefði kannski átt þátt í því.
Þetta afmarkaða orðalag, "bílvelta varð", sýnist kannski ekki stórt mál, en er þó angi af sívaxandi slappleika sem felst í því að nota ekki gagnorða og rökrétta hugsun í knöppum, skýrum texta.
"Bíll valt" segir allt tveimur atkvæðum, en "bílvelta varð" þarf tvöfalt fleiri atkvæði til að greina frá því sama.
Næsta stig þessarar sýki verða væntanlega fyrirsagnir eins og "flughrap varð", "skíðasvæðisopnun varð", "leikslok urðu", "skipssökkvun varð" o. s. frv.
Dæmin eru óteljandi um þessa nafnorða og flækjusýki sem hrjáir menn.
"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun" sagði þingmaður einn þegar betra hefði verið og miklu styttra að segja: "fólki hefur fækkað."
Í öllum nágrannalöndumn okkar eru gerðar harðar kröfur til þess að fjölmiðlafólk kunni að beita tungumálinu, verkfæri sínu, á viðunandi hátt til þess að setja fram upplýsingar og skoðanir á skipulegan, skýran og markvissan hátt.
Í ljósi menningararfs okkar, sem er eitt af því merkasta sem við eigum, og í ljósi nauðsynjar vandaðrar og metnaðarfullrar fjölmiðlunar, verðum við að taka okkur tak.
![]() |
Bílvelta við Korputorg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2011 | 12:56
Nýtt og háskalegt ástand.
Nú líður varla sú helgi að ekki sé ráðist fólskilega á fólk og eru þessar árásir annars eðlis, alvarlegri og tíðari en tíðkaðist um það tusk sem stundum varð hér á árum árum eftir dansleiki.
Og hópárásir á borð við þær sem eiga sér nú stað voru nær óþekktar allt fram á síðustu ár.
Árásirnar eru líka annars eðlis en áður að því leyti að byrjað er á því að fella fórnarlambið í jörðina og síðan eru fótaspörk látin dynja á því og fæturnir eru miklu aflmeiri og hættulegra árásarvopn en handleggir og hendur.
Hér í áður létu menn sér nægja að takast á á nokkurs konar jafnréttisgrundvelli ef láta átti hendur skipta, og átökunum var yfirleitt lokið þegar annar aðilinn var fallinn á jörðina.
Það hefur allt fram á síðustu ár verið álitið það lúalegasta og fyrirlitlegast sem menn geti aðhafst "að sparka í liggjandi mann."
Nú virðist þetta breytt með skelfilegum afleiðingum og það er íhugunarefni hvert við erum komin Íslendingar, ekki aðeins á þessu sviði, heldur ýmsum öðrum.
![]() |
Alvarleg líkamsárás í Kópavogi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2011 | 01:21
Þjóðfundurinn, þverskurður þjóðar, bakland Stjórnlagaþings.
Þegar frambjóðendur til stjórnlagaþings gerðu grein fyrir helstu viðhorfum sínum í greinargerð til landskjörstjórnar og í svörum við spurningum fjölmiðla komu fram skoðanir þeirra á ýmsum álitamálum, sem að sjálfsögðu voru ekki öll á eina lund.
Á undan Stjórnlagaþingi hafði Þjóðfundur, sem var 1000 manna slembiúrtak, þverskurður þjóðarinnar, lagt línur með tilmælum í nokkrum málum, þeirra á meðal í auðlindamálum.
Ég lít svo á að ég hafi verið í kjöri sem einstaklingur í persónukjöri en ekki sem talsmaður neinna hagsmunasamtaka eða stjórnmálaafla.
Ég mun líta á Þjóðfundina tvo og ályktanir þeirra sem bakland mitt hvað snertir ýmis atriði í stefnumiðum mínum, sem hafa samhljóm við niðurstöður Þjóðfundanna, en að öllu leyti mun ég eingöngu hlýða samvisku minni varðandi störf mín á þinginu í ljósi þess, sem ég tel að eigi að vera í upphafi stjórnarskrárinnar, líkt og sjá má í öðrum stjórnarskrám: "Allt vald kemur frá þjóðinni."
Að sjálfsögðu mun ég fylgjast með mismunandi viðhorfum í þjóðfélaginu og sviði hagsmunasamtaka og stjórnmálaafla og vinna að því að til verði skýr, gagnorð, rökrétt, auðskilin og góð stjórnarskrá sem geti verið sáttmáli fyrir þjóðina um komandi tíð og bærileg sátt náðst um.
Tilmæli og ábendingar af ýmsu tagi er sjálfsagt að skoða, en ég lít svo á að þeir sem kusu mig og komu úr ýmsum áttum og úr öllum stjórnmálaflokkum, verði mitt bakland sem og hagsmunir og réttindi komandi kynslóða.
Það er því á hreinu af minni hálfu, að ég mun ekki láta fjarstýra mér á Stjórnlagaþinginu þótt ég fái ábendingar eða tilmæli.
![]() |
Jón sendi stjórnlagaþingi bréf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2011 | 00:47
Spariummæli.
Nú eru liðin rúm 15 ár síðan ég tók að nýju að lýsa íþróttum eftir 19 ára hlé þar á undan. Raunar er þetta aðeins í einni íþróttagrein, en í henni, eins og öðrum greinum, koma stundum fram kornungir menn, sem vekja svo mikla athygli, að það verður að segja eitthvað óvenjulegt um þá.
Það getur verið áhætta fylgjandi því að nefna nafn viðkomandi íþróttamanns, sem maður er kannski að sjá í allra fyrsta sinn og segja: "Leggið þið þetta nafn á minnið."
Hugsanlegt er að viðkomandi sé einn af þeim mörgu sem er efnilegur en heldur því miður áfram að vera það en ekkert umfram það.
Þess vegna gæta íþróttamenn sín vel þegar þeir ákveða að kveða upp úr með þetta.
Aðeins örfáum sinnum hef ég árætt að segja þetta og haft heppnina með mér, - viðkomandi íþróttamaður hefur breyst úr því að vera efnilegur byrjandi í það að verða í hópi þeirra allra bestu í heiminum.
Aron Pálmason er einn þessara kornungu manna sem vekur þvílíka athygli, að jafnvel varkárustu íþróttafréttamenn láta vaða með því að segja: "Aron Pálmarsson. Leggið þið þetta nafn á minnið".
Við Íslendingar þurfum þess ekki nú. Það var fyrir nokkrum misserum þegar Aron, þá aðeins unglingur, fangaði athygli þeirra sem sáu hann hérna heima.
Það verður spennandi að fylgjast með ferli hans.
Ég hef ríka ástæðu fyrir að fara varlega í að nota svona spariummæli í ljósi atviks sem gerðist fyrir rúmri hálfri öld.
Einn af íþróttablaðamönnunum, sem skrifuðu um drengjameistaramót Íslands 1958 álpaðist til þess að láta þau ummæli falla um mig að ég væri eitthvert mesta spretthlauparaefni sem fram hefði komið í mörg ár.
Þetta var háskalega djarflega mælt í ljósi þess að næsta kynslóð á undan, Clausensbræður, Finnbjörn, Ásmundur, Hörður, Guðmundur Lárusson og Hillmar Þorbjörnsson voru einhverjir bestu spretthlauparar Evrópu.
Tíu dögum eftir drengjameistaramótið meiddist ég illa á ökkla í flipp-þrístökki á víðavangi á byggingarlóð Austurbrúnar tvö og snerti ekki við hlaupunum aftur fyrr en í fjórar vikur 1964 og sex vikur 1965, án þess að nokkur alvara væri á bak við það, enda hafði ég allt frá 1958 haft meira en nóg að sýsla á öðrum sviðum.
Ég held því að ummæli í ofangreinda átt verði að nota alveg sérstaklega sparlega.
![]() |
Leggið þetta nafn á minnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)