"Íslenska er þjóðtunga Íslands."

Þegar rennt er augum yfir stjórnarskrá Finnlands sést hve mikil áhersla er lögð á að hún endurspegli sátt og jafnrétti milli finnskumælandi og sænskumælandi landsmanna. Ákvæðin um þetta eru í samhengi við meginreglur stjórnarskrárinnar um mannréttindi og jafnrétti.

Í núverandi stjórnarskrá Íslands er ekki eitt einasta orð að finna um tvær helstu meginstoðir íslensks þjóðernis, en það eru land og tunga. Að vísu segir varðandi landið, að eigi megi selja land eða láta af hendi en þar með er það nokkurn veginn upp talið. 

Framarlega í finnsku stjórnarskránni er stutt grein sem tiltekur að í landinu séu tvær þjóðtungur, finnska og sænska. 

Ég tel eðlilegt að Stjórnlagaþing taki það til skoðunar að í íslensku stjórnarskránni eigi það að vera tiltekið að íslenska sé opinber þjóðtunga landsins. 

Sú staða myndi síðan verða útfærð þannig að skylt væri að öll gögn eða ritaðar heimildir, svo og það sem sagt er á opinberum vettvangi eða í fjölmiðlum, væri þýtt yfir á íslensku og öllum aðgengilegt á því máli. 

Þegar útsending er bein á að gera það sama og gert er víða erlendis, að viðtölin eru þýdd jafnóðum. 

Þetta höfum við Bubbi haft að leiðarljósi í lýsingum af hnefaleikum, enda gera kollegar okkar erlendis þetta líka þegar við á, þannig að oft hefur það sem sagt er, verið sagt á þremur tungumálum fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur. 

Þegar ákvæði er síðan tengt við ákvæði um mannréttindi og jafnrétti, myndi það tryggja að það ástand skapist ekki sem nýlega var upplýst um, að konur af erlendu bergi brotnar urðu fyrir misrétti við málarekstur vegna skilnaðs við eiginmenn, sem voru íslenskir. 

Þær fengu ekki að heyra það þýtt yfir á þeirra tungumál, sem sagt var eða ritað var. 

Æ algengara er að skjöl, skýrslur og hvers kyns kennsluefni er sett fram eingöngu á ensku. 

Á sumum sviðum ríkir um það alþjóðlegt samkomulag að ríki vafi á merkingu texta á mismunandi tungumálum, ráði eitt tungumál niðurstöðunni. 

Í bílaíþróttum er samkomulag um að í vafaatriðum varðandi reglur ráði franski textinn. 

Enska er ráðandi tungumál í flugi og vegna þess að þar verða samskipti, eðli málsins vegna, að vera hröð og markviss, gefst ekki ráðrúm til að þýða það sem sagt er í samskiptum flugvéla við flugumferðarstjóra og innbyrðis milli flugvéla. 

Síðan kann að vera spurning hver eigi að vera staða táknmáls þannig að mannréttindi og jafnrétti séu tryggð. 

 

 


mbl.is Finnar ræða framtíð sænskunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Íslenska og íslenskt táknmál.

Axel Þór Kolbeinsson, 16.1.2011 kl. 19:02

2 identicon

Sammála varðandi íslensku og stjórnarskrá. Gleymum ekki táknmáli. Táknmál er móðurmál minnihluta hér á landi. Annar minnihluti er hér sem á annað móðurmál en íslensku. Það á að vera skilyrði að allir sem dveljast hér og vinna noti íslensku í daglegum samskiptum.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 20:12

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ekki endilega Hrafn, en rétt væri ef tilgreint væri að "íslenskt tal og táknmál skal vera opinber tungumál Lýðveldisins Íslands".  Það tryggir það að öll opinber skjöl og þjónusta þurfi að fara fram á íslensku hið minnsta.

Hvaða tungumál fólk talar sín á milli er þeirra mál.

Axel Þór Kolbeinsson, 16.1.2011 kl. 21:01

4 identicon

Það er lykilatriði að útlendingar sem hér dvelja læri íslensku. Þeir verða að hafa til þess aðstöðu og tækifæri. Þetta er ekki einkamál hvers og eins. Á vinnustöðum , í verslun og þjónustu á að gera kröfu til að íslenska sé töluð. Þetta skapar öryggi og auðveldar samskipti og er báðum í hag.  Í flestum löndum Evrópu eru samsvarandi kröfur gerðar. Ég þekki fjölmarga Pólverja sem hafa náð góðum tökum á íslensku. Við það aukast möguleikar þeirra á vinnumarkaði. Hvaða tungumál fólk talar á heimilum sínum eða í einkalífi er að sjálfsögðu þeirra mál, einkamál.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband