Réttmætt ákall og framtíðarsýn.

Ákall íbúa Vestur-Landeyja og Bakkabæja er fylliega réttmætt, þótt hættan á hamfarahlaupi til vesturs frá Mýrdalsjökli sé miklu minni en hlaup hina hefðbundnu leið niður Mýrdalssand.

Þetta er gersamlega flatt land og ummerkin efir hið mikla hamfaraflóð fyrir 1500 árum, sem kurlaði stóran birkiskóg eins og eldspýtur, (ummerkin sjást austan við Hvolsvöll) sýnir um hvað er að ræða. 

Ef brú yrði gerð yfir Hólsárós, svipuð Óseyrarbrú, þyrfti aðeins eina brú í viðbót til að skapa raunverulegan fullmótaðan Suðurstrandarveg frá Grindavík til Eyjafjalla.  Auðvitað þyrfti líka vegabætur til að tengja saman þessar þrjár brýr. 

Slíkur vegur yrði mikil samgöngubót, langstysta leiðin milli Suðurnesja og Suðurlands og jafnvel stysta leiðin frá Reykjavík austur í Skaftafellsýslu og myndi skapa nokkrar hringleiðir, smáar og stórar í lágsveitum Suðurlands og auka samgönguöryggi og hagkvæmi í senn.

Það hefur stundum skort á framtíðarsýn í samgöngum hér á landi og eru samgöngur til og frá Vestfjörðum hryggilegt dæmi um það. 

Suðurstrandarvegur frá Þorlákshöfn til Eyjafjalla þarf ekkert að koma 1,2 og 3, heldur þarf að íhuga þau öryggissjónarmið og framtíðarsjónarmið sem felast í þeim möguleikum, sem felast í því að horfa langt fram til framtíðar við gerð slíks vegar þótt það taki tíma að fullgera hann. 


mbl.is Ákall innikróaðra íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvergi eins auðvelt að losa úrgang úr skipum.

Í blaði, sem gefið er út á þeim ágæta vinnustað álverinu í Straumsvík er viðtal við íslenskan skipstjóra sem hefur siglt áratugum saman um öll heimshöfin og meðal annars flutt súrál til Straumsvíkur frá Ástalíu. p1011534.jpg

Skipstjórinn fullyrðir í viðtalinu að hvergi í heiminum, ekki einu sinni í þróunarlöndunum, sé eins auðvelt að kasta í sjóinn hverju því sem menn girnist og við strendur Íslands. Hér geti menn spúlað skipin af hvaða óþverra sem vera skal án þess að hafa neinar áhyggjur af því.

Hann nefnir dæmi um þunga dóma, sem skipstjórar hafi hlotið erlendis fyrir að brjóta gegn lögum um þessi efni og hafi einn meira að segja verið dæmdur frá skipstjórnarréttindum ævilangt.  p1011541.jpg

Hér virðast ekki gilda neinar alvöru reglur um þetta og þaðan af síður eftirlit ef marka má viðtalið við skipstjórann. Afleiðingin sé sú að skipstjórnarmenn noti tækifærið og spúli skip sín rækilega við Íslandsstrendur af hvers kyns óþverra. 

Hér á meðfylgjandi mynd af viðtalinu má meðal annars sjá þetta haft eftir skipstjóranum: 

"Á Íslandi eru engar reglur um þetta þannig að menn geta dælt út við ströndina hér sjó sem var tekinn allt annars staðar í heiminum." 

Þegar haft er í huga að hér á landi er nú sóst eftir að reisa olíuhreinslstöðvar og laða hingað risaskip, sem hafa innan borðs alls kyns óþverra, sem spúla þarf út, getur maður svona rétt ímyndað sér hvað fer í sjóinn við Íslandsstrendur. 

Eins og sést á myndinni í blaðinu eru skipin sem eru hér í förum risaskip og þeim á eftir að fjölga stórkostlega ef allar gróðahugmyndirnar um risaolíuskipaumferð við landið rætast. 

Fyrir næstum tuttugu árum gerði ég nokkrar fréttir um allan óþverrann, ruslið og viðbjóðinn, sem rekur á fjörurnar á Ströndum og sýndi af því ferlegar myndir. 

Ekki er að sjá af viðtalinu við íslenska eðalskipstjórann í álversblaðinu að neitt hafi gerst til batnaðar síðan þá sem máli skiptir og heldur ekki að nein viðbrögð hafi fengist við þessu einstæða viðtali. 

Líklega vegna þess að þetta þykir svo sjálfsagt mál. 

Okkur er greinilega meira skítsama um þetta en nánast öllum öðrum þjóðum, ef marka má viðtalið. 


mbl.is Rannsaka rusl á ströndum landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjóta Glætu? Glætan!

Þegar kolkrabbi nokkur, Páll að nafni, varð heimsfrægur fyrir að spá um gengi Þjóðverja í leikjum þeirra í HM, var því vel tekið heima fyrir í fyrstu en síðan var honum kennt um það að titilvonin gekk þeim úr greipum og var þá rætt um að réttast væri að stúta honum og setja á matardiska. 

Ef svipað verður uppi á teningnum hvað varðar íslensku spákúna Glætu get ég fullvissað landa mína um það, að vel má gera góðan mat úr Glætu. 

Þegar ég var sveit í Langadalnum fyrir 60 árum voru dauðir nautgripir vel nýttir og til dæmis voru svið á borðum þegar einhver kýrin lauk jarðvist sinni. 

Í fyrstu leist mér ekkert á þennan mat en það breyttist fljótlega og loksins var svo komið í lok eins sumarsins, þegar óvenju margir nautgripir höfðu fallið, að mér fannst sviðin af þessum kúm jafnvel betri matur en svið af sauðfé og ekki skaðaði það að magnið var miklu meira af hverjum grip. 

Ef svo mikill hiti verður í Íslendingum vegna slæmra spádóma Glætu, að henni verður fargað að kröfu lýðsins (sem væri arfa vitlaust í stað þess að nýta úr henni mjólkina), get ég fullvissað alla um að hvers kyns afurðir sem unnar væru úr Glætu, væri hinn besti matur. 

Fyrir um það bil 10-15 árum var orðið "glætan!" vinsæl upphrópun hjá unga fólkinu. 

Kannski á hún eftir að verða vinsæl aftur og þá sem upphrópun, blandin gremju, kannski einhver veginn svona:

 

Árangurinn, það má alltaf bæta´ann. 

Það örvar landann og sífellt mun kæta´ann. 

Ef vinnum við ekki sigurinn sætan, 

er sjálfsagt að skjóta Glætu?  Glætan! 

 


mbl.is Glætu mislagðar granir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

80 ára íhugunarverð saga.

Saga mótmæla, sem hafa beinst gegn opinberum stofnunum og fundum kjörinna fulltrúa á afmæli á næsta ári þegar 80 ár verða frá Gúttóslagnum fræga, en í bók Þórs Whitehead "Sotvét-Ísland" kemur fram að þeir hafi raunar verið þrír.

Gúttóslagurinn skapaði ákveðið viðmið sem hefur loðað við æ síðan. 

Af minn heitinn, Þorfinnur Guðbrandsson, var einhvert mesta ljúfmenni og friðsemdarmaður sem ég hef kynnst.

En hann var líka maður hugsjóna um jafnrétti og jöfnuð.

Hann var þvi verkalýðssinni og fylgismaður Héðins Valdimarssonar.

Gúttóslagurinn var harður, og meðal þeirra, sem tóku þátt í honum voru menn sem trúðu því, að þegar tíminn yrði kominn, myndu öreigarnir taka völdin með ofbeldi í kommúnistabyltingu. 

Af minn var hins vegar fulltrúi þess mikla meirihluta verkalýðssinna, sem varð heitt í hamsi í Gúttóslagnum af því að þeim blöskraði misrétti og ójöfnuður þótt þeir aðhylltust ekki vopnaða byltingu með ofbeldi og jafnvel vopnavaldi.  

Síðar, þegar ég var strákur og var í pössun hjá afa og ömmu á Ásvallgötunni á gamlárskvöld af því að þá fór allt ungt fólk á áramótadansleiki, labbaði afi stundum með mig niður í miðbæ, þar sem við urðum vitni að því ár eftir ár, að skríll réðist á lögreglustöðina með grjótkasti og braut rúður í henni. 

Þessi ósiður lagðist síðar af þegar farið var að hafa áramótabrennur víða um borgina, enda voru þessar óspektir við lögreglustöðina blettur á borgarlífinu og dæmi um það hvernig óeirðaseggir nota tækifæri til að finna útrás fyrir skemmdarfýsn eða átök og slagsmál eingöngu óeirðanna vegna. 

Með því komu þeir og hafa ávallt komið óorði á friðsamlega baráttu fólks notar borgaralegan rétt sinn til að koma saman og taka þátt í göngum og útifundum tll að vekja athygli á málstað sínum. 

Tímamót urðu í Búsáhaldabyltingunni þegar mótmælendur mynduðu sjálfir sveit manna, sem tók að sér að verja lögregluna fyrir hamslausum árásum óeirðarseggja, sem aðeins voru að misnota tækifærið til þess að hleypa öllu í bál og brand. 

Óeirðirnar á Austurvelli 30. mars 1949 voru langalvarlegustu og stærstu átök lýðveldissögunnar. 

Ég tel að báðir málsaðilar hafi gert mistök í hita leiksins en ekki hægt að réttlæta grjótárásina á þinghúsið.

Í framhaldi af þessum atburðum gengu dómar sem ekki geta hafa talist harðir úr hófi. 

Mótmæli á þingpöllum hafa orðið af og til síðan eins og Össur Skarphéðinsson vitnaði um fyrir rétti í dag. 

Hávær og fjölmenn mótmæli urðu í Ráðhúsi Reykjavíkur þegar borgarstjórn hleypti Kárahnjúkavirkjun i gegn og einnig var þar háreysti þegar nýr borgarstjórnarmeirihluti tók við 2008. 

Engin dómsmál hlutust af þessu. 

Mótmælin hafa áður verið háværari og heitari í Alþingishúsinu en fyrir tveimur árum, án þess að fólk væri saksótt fyrir það og dæmt. 

Þess vegna er ósamræmi í þeirri málssókn, sem nú á sér stað á hendur níumenningunum svonefndu. 

Ég tel að hafa beri í huga jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess að ekki birtist jafnræði í þessum málaferlum gagnvart hliðstæðum aðgerðum áður. 

En það er hollt fyrir okkur að velta fyrir okkur 80 ára sögu átaka og mótmæla við fundarstaði kjörinna fulltrúa, draga af henni lærdóma og skipa þessum málum á betri og skaplegri veg. 

Ég hygg að það sé einsdæmi að þjóðþing njóti eins lítils trausts í skoðanakönnunum eins og hér á landi og sömuleiðis einsdæmi að eggjum, matvælum og rusli sé kastað að kjörnum fulltrúum eins og gerðist við síðustu þingsetningu. 

Þetta er íhugunarefni fyrir okkur öll, hvar sem við stöndum. Hvert erum við eiginlega komin? 

Ég á mér þann draum að þessu linni því að annars gæti illa farið. 


mbl.is Brugðið en ekki óttasleginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband