Réttmætt ákall og framtíðarsýn.

Ákall íbúa Vestur-Landeyja og Bakkabæja er fylliega réttmætt, þótt hættan á hamfarahlaupi til vesturs frá Mýrdalsjökli sé miklu minni en hlaup hina hefðbundnu leið niður Mýrdalssand.

Þetta er gersamlega flatt land og ummerkin efir hið mikla hamfaraflóð fyrir 1500 árum, sem kurlaði stóran birkiskóg eins og eldspýtur, (ummerkin sjást austan við Hvolsvöll) sýnir um hvað er að ræða. 

Ef brú yrði gerð yfir Hólsárós, svipuð Óseyrarbrú, þyrfti aðeins eina brú í viðbót til að skapa raunverulegan fullmótaðan Suðurstrandarveg frá Grindavík til Eyjafjalla.  Auðvitað þyrfti líka vegabætur til að tengja saman þessar þrjár brýr. 

Slíkur vegur yrði mikil samgöngubót, langstysta leiðin milli Suðurnesja og Suðurlands og jafnvel stysta leiðin frá Reykjavík austur í Skaftafellsýslu og myndi skapa nokkrar hringleiðir, smáar og stórar í lágsveitum Suðurlands og auka samgönguöryggi og hagkvæmi í senn.

Það hefur stundum skort á framtíðarsýn í samgöngum hér á landi og eru samgöngur til og frá Vestfjörðum hryggilegt dæmi um það. 

Suðurstrandarvegur frá Þorlákshöfn til Eyjafjalla þarf ekkert að koma 1,2 og 3, heldur þarf að íhuga þau öryggissjónarmið og framtíðarsjónarmið sem felast í þeim möguleikum, sem felast í því að horfa langt fram til framtíðar við gerð slíks vegar þótt það taki tíma að fullgera hann. 


mbl.is Ákall innikróaðra íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja sko, við eigum nú alltaf eftir að skreppa þarna yfir og skoða ;)

En, nokkrir markverðir hlutir, í engri skipulagðri röð:

- Þveráin var lengi útflæmd vegna sandburðar. Bændur á svæðinu tóku sig til og brutu upp straum-mynstrið, þannig að áin gróf sig niður. Ótrúlega magnað afrek og ekkert annað. Byggðist á því einfalda viðhorfi að farvegurinn var sandflæmi og alltof stór miðað við vatnsmagnið. Nú er áin tiltölulega auð-brúanleg.

-  Hólsáin þarna neðst er hins vegar orðin töluvert vatnsmikið fljót, enda Rangárnar báðar komnar út í Þverána. (Önnur við Ármót, hin neðar) . Þarna er steinsnar yfir í Þykkvabæ í beinni línu (áin er reyndar mörg hundruð metrar á breidd. Frá Bakkabæjum til Þykkvabæjar er samt eins og ein Þingmannaleið (37 km?) og gott betur, 16 frá Bakkakoti í Hvolsvöll (og sú væri leiðin á móti flóði, án nokkurrar annarar undankomu), ca 14 að Þykkvabæjarafleggja, og svo 17 km niðureftir aftur. Ártún eru reyndar 2 km neðar en Bakkakot eðaum það bil. 18+14+17 eru 49 km, en beina línan er ca 2!!!

- Ég er frekar hræddur um að það að brúa Hólsána sé töluverð framkvæmd. Staðkunnugir hafa auðvitað oft spekúlerað í þessu.Það er virkilega spurning hvort að ekki sé hægt að brúa árnar 2 eða 3 neðarlega, - Þverá öðru hvorum megin Ármót, og svo þá Eystri og Ytri Rangá. Ég er ekki viss hvort það yrði neitt meiri framkvæmd en ein brú við Djúpósinn. Þá myndaðist líka tenging við Oddahverfið, og frá Landeyjum og upp á Hellu yrði allt í einu bara skreppur.

- Áður fyrr fóru menn af þessum neðri bæjum (Ath að Ártún og Bakkakot tilheyra Rangárvallahreppi hinum forna, nú Rangárþingi ytra) stundum yfir Hólsána, akandi vörubílum á ís, til verslunar í Þykkvabæ. Menn eiga það enn til að fara á hestum yfir í Oddahverfið, en Hólsáin neðst er nú önnur saga.

-  Fyrirhleðslurnar við Djúpósinn eru kannski það sem einn heimamaður nefndi "stærsta framkvæmd íslandssögunnar". Þetta var verulegt verk, og mest unnið í höndum og með hestum. Svo má ekki gleyma því að fyrirhleðslurnar ofar (við Markarfljót) voru feiknar afrek á sinni tíð, - fyrir 100 árum!

- Þegar flæddi, og skóginn tók af við drumbabót, þá hefur sú bylgja sjálfsagt gumsast yfir Landeyjarnar mestallar. Þar sem Hvolsvöllur stendur eru ekki teikn um hana og ekki heldur nokkuð neðar. En Þveráin hefur fengið sitt, og svo Hólsáin, það enginn vafi.

- Með fyrirhleðslunum við Markarfljót var reyndar fljótinu haldið frá Þveránni. Um aldir var fljótið búið að sullast þar um, og stundum leggja býli í eyði. LandEYJAR er ekkert tilviljunarnafn. En...fljótið var tamið, og verkið unnið í höndunum! Þetta er því ágætis ábending um mögulegar endurbætur bæði til öryggis og framfara á 21 öld!

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 08:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Jón minn Logi, þetta voru afrek á sinni tíð. Og ég saknaði þess að í umfjölluninni um stærsta flóðið sem kom í Markarfljóti, var þess ekki getið að gamla brúin, sem allir voru búnir að afskrifa, stóð flóðið af sér og var eina færa leiðin yfir ána á tímabili !

Ómar Ragnarsson, 20.1.2011 kl. 13:46

3 identicon

Það er rétt. Ég hafði reyndar ekki leitt hugann að því, en auðvitað er mestur gusugangurinn neðar í farvegum, og þess vegna lágu allar aðal-leiðir til forna svona frekar ofantil í sveitum.

Eystri - Rangá er til dæmis ósköp meinlaus þegar hátt er komið upp í land, en orðin sæmilegasta á strax við hringveginn. Ég skal skjóta inn nokk skemmtilegri sögu um það, þegar ég þrautskoðaði ána árið 1997 og hvað gerðist á meðan. Það er hins vegar svolítil vinna að rifja það upp og koma í letur svo að vel sé og rétt, þannig að það verður í kvöld.

Það verður ljómandi lesning og er þetta loforð sem er pottþéttara en hjá nokkrum pólítíkusi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 17:01

4 identicon

Jæja. Það er víst eins ómögulegt og mögulegt er að byrja pistil á því orði (JÆJA), alveg eins og að nota alltaf sama orðið í t.a.m. endarími.  Hef ég því upplofaða lesningu á skólabókardæmi um slæmar upphafssetningar. Og kem svo að efninu. Bið reyndar forláts á orðfærinu, en ég er bara svo mikill púki, og hef gaman að leika mér með stíl.

1997, um snemmsumar, fékk ég þá flugu í hausinn, að prófa að róa Eystri Rangá niður að Bakkabæjum og sem praktískan upphafspunkt var miðað við byrjun við Djúpadal, sem liggur alveg við hringveginn.

Tilhneiging í að framkvæma svona flipp kann að skýrast af þrennu. Hið fyrsta er það að áður (1986) var ég oft á bátsveiðum norður í Þingeyjarsýslu, og komst þá á bragðið með ágæti þeirrar afþreyingar að ferðast milli A og B á fljótandi farartæki.

Hið annað var forvitni mín með Rangána. Ég var búinn að vinna í flagvinnu og aðallega sáningu víða með henni um árabil (byrjaði 1989) og var alltaf hrifinn af ánni og hennar tæra vatni og grasi grónum bökkum.

Hið þriðja var ennþá meiri forvitni. Eitt sinn (1984) hafði ég sem ferðamaður í Svíþjóð tekið þátt í 3ja manna róðri á kanóbát um Siljan vatn og upp fallega á sem þar rann út í. Þetta var ógleymanlega skemmtilegt, og minnti um margt á "professor Drövells hemlighet", - vonandi man einhver eftir þeirri norsku snilld.

En, JÆJA, - ég leigði einhverskonar plastkanó, og fékk með mér 2 aukamenn. Þeir voru Ómar nokkur Árnason, ættaður frá Götu í Hvolhreppi, og svo virðulegur fulltrúi Bresku krúnunnar, - enginn annar en Adrian Timothy Pilbeam frá Kantaraborg, - einhver al-traustasti maður sem ég hef kynnst, og þar að auki gæddur lúmskri kímnigáfu.

Nú, Jæja, - við áhöfnin lögðum upp frá Djúpadal í áðurnefndum plastkanó, og höfðum 3 árar. Það þurfti einhverjar æfingar til að átta sig á farartækinu, en við náðum því með sérsveitalegum þrjóskupúkaheitum og algerri blindu fyrir almannatryggingum, lífshættum og möguleikum í átt að hryllilegum og kald-blautum drukknunardauða. Við sem sagt rérum eitthvað umhverfis gömlu Brúna ofan við gamla sláturhúsið, og létum svo gossa niður undir brúna á no.1 og áfram.

Skjótt komumst við að því, að þótt áin væri tær og lygn að sjá, þá var drúgur straumur og vatnsmagn í henni. Við reyndum að róa til baka, en það var engin leið. Þar með létum við okkur gossa niðureftir.

Við náðum skjótt tökum á hraðferð með straumi, - það þurfti bara að stýra þannig að straumurinn bæri mann rétt og kastaði ekki út úr röst eða á land upp. Við svifum áfram á vatni, hljóðlegar en nokkur indíáni, enda eins gott, því skjótlega runnum við yfir línuna hjá stangveiðimanni. Hann varð okkar lítt var, enda sennilega sofandi þótt hann hafi staðið. Kannski var hann útbúinn mjaðmagrind úr hesti.

Skömmu síðar fórum við fram hjá öðrum. Það var greinilega gæðamaður, eða bara með toppstykkið rétt skrúfað á, - því hann veifaði og skilaði því til okkar að gott væri að hreyfa aðeins við laxinum, því ekki væri hann neitt að sjást. Kvöddumst við með handar-vinki endar ekkert annað mögulegt

Við sáum reyndar fiska af og til, og fórum svolítið að spá í því hvar þau blóðköldu matvæli myndu helst halda sig. Helst var eitthvað að sjá í álum og við bakka þar sm djúpt var.

Nema hvað, -  áin var straumþyngri og hraðinn á okkur meiri en okkur grunaði. Við Oddhól var nokkuð lúmsk beygja. Þar saup kanóinn nokkuð mikið af vatni, en sökk ekki. Vuð skutluðum okkar að landi og sturtuðum öllu því H2O úr bátnum sem við gátum. Verst var að Ólafur i Oddhóli var fluttur á Selfoss, og því mannlaus bær. Það er nefnilega ekkert betra fyrir vota fætur heldur en sögur af hupplegu kvenfólki á árabilinu 1925-1995.

Svo fór það, - við lögðum í hann með blauta fætur frá Oddhólsfjöru í Eystri-Rangá, og með einbeittum vilja brunuðum við að Ármótum, þar sem Þverá lendir saman við Rangána. Við prófuðum að róa upp Þverána, en straumur var of sterkur til að við tommuðum nokkuð upp í mót.Snerum við þar við og létum gossa niður straum, að bæjarstæðinu við Ármót.

Þar bjó á þeim tíma Þorkell St. Ellertsson, og datt mér í hug að fala af honum kálfa, - það voru reyndar algengar þreifingar okkar í millum. Ekki var hann heima, bara sænsk griðka, og ágætis útsýni. Þannig að við lögðum árar aftur frá borði og héldum lengra. Nú vorum við í Hólsá.

Eftir 2ja mínútna þreifingar við það að stranda ekki plastskelinni á sandrifjum, fundum við loksins ál til að sigla eftir. Voru þar þá aftur stangveiðimenn, og brugðust illir við. Þeir töldu okkur eyðileggja alla veiðimöguleika með okkar rekalds-starfssemi á öllu þessu aqua (H2O) yfir svartssandi (Aðal efnið í og við Þverá er svartur sandur). Okkur tókst nú að kjafta okkar leið áfram friðsamlega með því að benda á hvar við höfðum séð fisk.

Við Bakkakot ákváðum við að lenda, og gerðum það. Straumurinn í Hólsánni er þar orðinn það þungur að með árum fer maður ekki til baka. Þá á hin Rangáinn eftir að bætast við, og ekki langar mann að sullast undan straumi á indíánabát úr plasti út á Atlandshaf, nema að maður sé virkilega leiður á lífinu.

(Þar fyrir utan búa ættingjar og vinir á bænum, og það var skemmtilegt að dúkka upp hjá þeim svona upp úr ánni)

En það besta er eftir. Ef einhver nennir að lesa þetta á annað borð. Það verður ekki skráð fyrr enb á morgun...eða á eftir, - þar sem að kosningarloforðið er fallið, - ég náði þessu ekki fyrir miðnætti.

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband