2.1.2011 | 14:08
Balkanskagi 1914 - Miðausturlönd 2011
Á síðustu árunum fyrir 1914 hafði Balkanskagi verið "órólega hornið í Evrópu" og sannkölluð púðurtunna, því að hagsmunir stórveldanna með Þýskaland og Tyrkland sem bakhjarla, sköruðust þar, annars vegar Rússlands með bakstuðning í Frökkum og Bretum, og hins vegar Austurríkis-Ungverjalands.
Hvarvetna bjuggu menn sig undir "stórstyrjöld" líkt og nú gerist í Miðausturlöndum, en sögðu þó að það væri aðeins í varúðarskyni til þess að viðhalda jafnvægi og friði.
Margir áhrifamenn í Þýskalandi þóttust þó sjá, að því lengur sem slík styrjöld drægist, ef hún á annað borð brysti á, því verr stæðu Þjóðverjar að vígi.
Schlieffen-áætlunin hefði getað fært Þjóðverjum sigur á Frökkum ef hún hefði verið framkvæmd eins og hann lagði fyrir, svo að þessi hugsun var svo sem ekki svo galin ef útkljá þyrfti mál með vopnavaldi.
En áætluninni var breytt og allar þjóðirnar, sem héldu út í þetta stríð af bjartsýni og eldmóði, sannfærðar um skjótan sigur, uppskáru ekkert annað en gríðarlega eyðileggingu og mannfall og ávísun á aðra heimsstyrjöld.
Það er óhugnanlega margt líkt með ástandinu í Miðausturlöndum nú og var á Balkanskaga 1914.
Þegar við horfum fram á árið 2011 ætti helsta áhyggjuefnið kannski að vera það að verði "stórstyrjöld" í Miðausturlöndum eins og nú kemur fram að flestir virðast vera að búa sig undir.
![]() |
Bjóst við mikilli styrjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.1.2011 | 10:54
Munurinn á heiti og stefnumiði.
Það er mikið talað um áramótaheit við hver áramót og hvert sé gildi þeirra.
Ef litið er á það hve lítið vill oft verða úr áramótaheitum, jafnvel þótt sömu heitin séu strengd ár eftir ár, má draga af því þá ályktun að þau séu jafnvel til ills, vegna þess að verra sé að vinna slík heit en ekki af því að fólk verður dofið fyrir því að lúta sífellt í lægra haldi hvað þau varðar.
Ég held að fermingarheitið, sem flestir hafa unnið á sinni tíð, sé kannski dæmi um það hvernig eigi að nálgast þetta fyrirbæri.
Upphaf þess er: "Viltu leitast við af fremsta megni að...."
Þarna kemur fram munurinn á því að heita einhverju, sem mjög tvísýnt er um að gangi í gegn, eða að setja sér stefnumið, raunsæi þess sem sér að maðurinn er breyskur og að til eru heit sem jafnvel er útilokað að gefa.
Sé hugsunin þessi er kannski affarasælla að setja sér gott markmið í einu eða öðru um áramót og gera síðan upp reikingana eða stöðuna um þau næstu.
Ég hef til dæmis komist að því samkomulagi við sjálfan mig að létta mig að meðaltali um eitt til eitt og hálft kíló á hverjum mánuði ársins 2011 og verða tíu kílóum léttari um næstu áramót en ég er nú.
Ég veit af reynslunni að þetta er hægt með þolinmæði og festu og að ekki má láta hugfallast né slaka á þegar svona stefna er tekin.
Svo er bara að sjá hvernig gengur. Það hefur gengið síðustu árin vegna þess að stór hluti af aðhaldi í þessum efnum fólst í gríðarlega mikilli hreyfingu og orkueyðslu, sem ekki er lengur möguleg vegna lélegra og slitinna hnjáliða.
Í ljósi þess að offita er hugsanlega mesta heilsuvandamál samtímans væri gott að létta sig hæfilega en þó ekki í einhverjum látum, heldur jafnt og þétt, það reynist yfirleitt betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)