23.1.2011 | 22:46
Hvað á sagan að vega þungt?
Sífellt koma upp álitaefni sem snerta sögu þjóðanna og mannkynsins. Ég er talsmaður þess að láta söguna sjálfa vega þungt frekar en tilfinningar í núinu.
Nokkur dæmi:
Á framhlið Alþingishússins er kóróna hins danska konungsríkis 19. aldar sem Ísland var hluti af.
Til eru þeir sem vilja fjarlægja hana og setja í staðinn skjaldarmerki Íslands, vegna þess að eftir 1944 eigi kórónan ekki við.
Ég er þessu ósammála. Kórónan sú arna segir þá sögu, að í nafni sameiginlegs konungs Íslands og Danmerkur var þetta hús reist og hún séu því sams konar sögulegar minjar og til dæmis Skansinn í Vestmannaeyjum.
Mér er Skansinn hugleikinn því að margir amast við hernaðarminjum á Íslandi úr Seinni heimsstyrjöldinni og Kalda stríðinu á grundvelli friðsemdar Íslendinga.
En Skansinn var reistur af dönskun einvaldskonungi sem hernaðarmannvirki og ætti samkvæmt hliðstæðu mati því að vera óæskilegur.
Ég var einmitt í gær að sjá mynd af skrifstofu verkalýðsfélags úti á landi þar sem tvær stórar myndir af Marx og Lenin hanga uppi á vegg.
Einhver kann að segja að þessar myndir séu mjög óviðeigandi á okkar tímum en ég lít hins vegar á þær sem sterkar minjar um ástand sem var hér á landi á árunum 1920 - 1960, þegar stór hluti þjóðarinnar tók upp gagnrýnislausan átrúnað á þessa menn.
Á sama hátt tel ég að alls ekki eigi að hrófla við grafhýsi Lenins í Kreml eins og Rússar eru nú að velta fyrir sér, vegna þess að það er gríðarlega áhrifamikil og merk heimild um hina skefjalausu persónudýrkun á þeim Lenin og Stalín, sem var undirstaða einhverrra hrikalegustu glæpaverka sem sagan kann frá að greina.
Grafhýsið er sterk áminning um að slíkt gerist ekki aftur.
![]() |
Kjósa um hvort jarðsetja eigi Lenín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.1.2011 | 21:01
Hin lævísu "tíðahvörf".
Í frétt, sem tengd er þessari bloggfærslu, kemur fram algeng hugsana- og málvilla, sem veður uppi í íslenskum fjölmiðlum og ég kýs að kalla "tíðahvörf."
Hún felst í því að byrjað er að segja frá tilteknu atriði í þátíð í upphafi setningar en síðan skyndlega skipt um tíð í framhaldinu.
Setningin er svona: "Rannsókn leiddi í ljós að rafsegulbylgjur í örbylgjofni hafi skemmt símann.
Það tók séra Emil Björnsson, minn gamla fréttastjóra, aðeins eitt tiltal að venja okkur fréttamennina á þeirri tíð af svona villu. "Haltu áfram í sömu tíð og þú byrjar" þrumaði hann.
Og þá er setningin svona:
"Rannsókn leiddi í ljós að rafsegulbyljgur í örbylgjuofni hefðu skemmt símann."
![]() |
Lævís Lee svindlaði á Samsung |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2011 | 20:45
Gæti hafa sprungið árið 1372.
Stjörnufræðin og alheimurinn eru heillandi viðfangsefni, raunar svo stór að þau eru á ystu mörkum mannlegs skilnings eða jafnvel ofar mannlegum skilningi.
Vegna þess að risastjarnan Betelgás er í 640 ljósára fjarlægð frá jörðu erum við að sjá hana í sjónaukum eins og hún var árið 1371.
Hafi hún sprungið árið eftir, árið 1372, munum við ekki sjá það fyrr en á næsta ári. +
Ef hún hins vegar springur ekki fyrr en eftir milljón ár veit enginn hvernig jörðin okkar lítur út þá, hvað þá hvort eða hvaða líf verður á henni.
Líkurnar á því að við njótum birtunnar af sprengingu hennar eru einn á móti einhverjum hundruðum þúsunda, margfalt minni líkur en eru á því að hundruð milljóna jarðarbúa muni njóta birtunnar sem verður til í ragnarökum allsherjar kjarnorkustyrjaldar.
Þrátt fyrir alla tækni nútímans er svo margt, sem er okkur hulið.
Það að Betelgás gæti verið sprungin fyrir meira en 600 árum minnir á veturinn 1863 til 1864 þegar Íslendingar vissu í marga mánuði ekki betur en að Friðrik 7, konungur landsins, væri við bestu heilsu þótt hann hefði í raun verið dauður allan þennan tíma og nýr kóngur tekinn við.
Kóngurinn dó í nóvember 1983, afsakið, 1863, en ekki fréttist um það til Ísland fyrr en fyrsta vorskipið kom til landsins frá Danmörku 1864.
![]() |
Jörðin eignast nýja sól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2011 | 20:23
Firring stríðsæðisins.
Niðurstaða ísraelskrar rannsóknarnefndar á árás Ísraelshers á skipalest hjálparsamtaka var fyrirsjáanleg.
Ísraelsmenn komast upp með það að virða að vettugi ályktun Sþ frá 1967 um ólöglegt hernám Vesturbakkans og Gaza og komast líka upp með það að halda fólkinu á Gaza í raun í stærstu fangabúðum heims við hin verstu kjör.
Þegar slær í brýnu þykir það sjálfsagt lágmark af hálfu Ísraelsmanna að drepa tugi eða hundruð Palestínumanna fyrir hvern fallinn Ísraelsmann.
Sömuleiðis þykir þeim það sjálfsagt mál að salla fólk niður með vélbyssum ef þeir þykjast sjá teygjubyssur meðal þess.
Elsta kynslóðin í Ísrael ólst upp við það sem sjálfsagt mál að beitt væri skemmdarverkum og hryðjuverkum með tilheyrandi mannfalli til þess að koma sínu fram.
Allar núlifandi kynslóðir landsins síðan hafa lifað við stanslausan stríðsótta og engin þjóð í heimi ver jafn stórum hluta þjóðartekna sinna til hermála né heldur eru herskylda og hugsunarháttur hernaðar jafn snar þáttur í þjóðlífinu og í Ísrael.
Þótt á stundum ríki friður á yfirborðinu á þessum slóðum er það í raun stríðsástand sem er eina ástandið sem þessar þjóðir þekkja.
Frumorsökin er sú að Gyðingar töldu sig Guðs útvalda þjóð og töldu sig eiga rétt á að endurheimta land, sem þeir hröktust frá fyrir nær tveimur þúsundum ára og valta þar með yfir rétt þess fólks, sem hafði átt þar heima kynslóð fram af kynslóð í allan þennan tíma.
Þetta er svona álíka og að við Íslendingar krefðust þess að fá í okkar hlut yfirráð yfir vesturströnd Noregs og drjúgan hlut af olíuauðnum þar vegna þess að við hefðum farið þaðan eða hrökklast þaðan fyrir 1100 árum.
Þegar svona ástand myndast fer margt úr böndum og margt af því sem Palestínumenn og nágrannaþjóðirnar hafa gripið til í hinni heiftúðugu baráttu við Ísraelsmenn hefur ekki verið þeim til sóma, heldur gert illt verra og aukið á óttablandna vantrú, þrjósku og hörku Ísraelsmanna.
Hliðstæður varðandi landvinninga finnast annars staðar þar sem þó ríkir friður.
Þegar litið er á landakort af Evrópu stingur í augu, að við Eystrasalt er landsvæðið Kaliningrad sem er hluti af Rússlandi, þótt mörg hundruð kílómetrar séu þaðan til Rússlands.
Þetta var áður Austur-Prússland, hluti af Þýskalandi og þar áður Prússlandi um aldir, en í stríðslok 1945 voru Þjóðverjar hraktir þaðan á brott milljónum saman og Rússum afhent landið.
Alls voru fjórtán milljónir Þjóðverja hraktir í burtu í stríðlnu þegar ný landamæri Þýskalands og nágrannalandanna voru dregin.
Ef upp kæmi krafa um að Þjóðverjar fengju Austur-Prússland aftur og milljónir Þjóðverja flyttu þar inn, myndi því umsvifalaust verða hafnað. Eru þó aðeins liðin 66 ár síðan þetta var þýskt land.
Raunar verður að skrifa vandamálin við botn Miðjarðarhafs að mestu leyti að reikning Breta og annarra Evrópuþjóða auk Bandaríkjanna.
Í Bandaríkjunum hafa Gyðingar ætíð haft mikil ítök í stjórnmálalífinu og sjálfir eiga Bandaríkjamenn þá fortíð að hafa hrifsað land frá frumbyggjum þess með ofbeldi.
Á millistríðsárunum létu Bretar það eftir Gyðingum að þeir flyttust í stórum stíl inn í Palestínu í þeim tilgangi að stofna þar nýtt Ísraelsríki eftir forskrift Zíonismans.
Eftir brjálæði Helfararinnar sem byggt hafði verið upp á kynþáttahatri í garð Gyðinga, vísuðu þessar þjóðir vandamálinu og afleiðingunum af höndum sér með því að koma því yfir á þjóð í fjarlægu landi, sem ekki hafði komið nálægt Helförinni.
Á grundvelli þessa má okkur Vesturlandabúum ekki standa á sama það ástand sem við áttum mestan þátt í að skapa í "Landinu helga".
![]() |
Tyrkir og mannréttindasamtök gagnrýna ísraelska skýrslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2011 | 19:32
Gömul saga og ný.
Þegar ekið var niður Norðurárdal í Borgarfirði í dag var flatlendið í miðjum dalnum að mestu á kafi í vatni.
Ár eru allar á þessu svæði aurugar og miklu vatnsmeiri en í stórrigningum að sumri til vegna þess hve mikill snjór bráðnar nú í langt upp í fjallahlíðar og inn á heiðarnar.
Það hefur margoft gerst á þessum tíma árs að hlýindi og mikil rigning hafa komið af stað miklum og illvígum flóðum í tveimur stærstu landbúnaðarhéruðum landsins.
Raunar hafa fleiri mikil flóð komið víða um land þegar mikil leysing hefur verið.
Fyrir ofan Reykjavík kom mikið flóð í Elliðaárnar og ána Bugðu fyrir ofan hana og voru gríðarlegir fossar þar sem heilt fljót féll niður Lækjarbotna, en þar er jafnan þurr farvegur mestallt árið.
Allt fór á flot í Eyjafirði í miklum vorleysingum á síðasta áratug liðinnar aldar og af og til hafa komið í Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót í miklum haustrigningum.
Svona er nú einu sinni landið okkar og loftslagið hér. Í upphafi fréttamannsferilsins var hvert flóð stórverkefni í huga manns en nú eru þau svo mörg í minni, að þau hafa gerst heldur hversdagslegri en áður var.
![]() |
Eiga von á hressilegu flóði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)