5.1.2011 | 23:15
Þrjú efstu óumdeilanleg.
Ég held að hvert hinna þriggja, sem efst urðu í vali á íþróttamanni ársins á Íslandi 2010 hefði verið vel að titlinum komin.
Yfir hverju þeirra hvíldi ævintýrablær.
Þetta val er ávallt erfitt því að vega verður og meta svo margt.
Þannig verður meðal annars að taka fjölda iðkenda á heimsvísu með í reikninginn og jafnvel þótt ágæti Gylfa Þórs verði að miðast út frá iðkendafjöldanum undir 21. árs aldri, er knattspyrnan stunduð af svo mörgum að engin hinna íþróttagreinanna sem voru nú í pottinum jafnast á við það.
Það hefði því verið réttlætanlegt að velja Gylfa Þór rétt eins og Alexander. Það var hreint ævintýralegt að sjá hvernig hann á snilldarlegan hátt skoraði mörkin tvö sem gerðu á skammri stundu út um þann leik sem úrslitum réði um það að Íslendingar ættu í fyrsta sinn knattspyrnulið í úrslitakeppni á Evrópumóti.
Stúlkurnar í Gerplu urðu Evrópumeistarar í afar krefjandi og erfiðri íþrótt, sem er ein af greinum hennar og því kannski ekki hægt að bera það saman við Evrópumeistaratitil í þeim greinum sem flestir stunda.
Ég hefði samt alveg fellt mig við það að Íris Mist Magnúsdóttir hefði hampað titlinum fyrir hönd síns liðs og það hefði verið hressilegt og skemmtilegt. Það var ótrúlegt ævintýri að sjá hvernig þessar stúlkur vörpuðu ljóma á félag sitt, bæjarfélag og föðurland.
Valið á íþróttamanni ársins hefur stundum borið keim af því hvað hrífur íslensku þjóðina mest og einnig fordæmi og framganga viðkomandi íþróttamanns.
Saga Alexanders Pettersson hefur yfir sér ljóma ævintýranna gömlu um karlsson í koti sem eignast kóngsríkið á óvæntan og ótrúlegan hátt og eignast meira að segja annað kóngsríki en landið sem hann fæddist og ólst upp í.
Þetta ævintýri á sér enga hliðstæðu svo ég muni í íslenskri íþróttasögu og þess vegna er hún svo hrífandi og yljar um hjartaræturnar.
Ekki var í kvöld allt talið upp sem Alexander gerði svo snilldarlega en þar á ég við það hve oft hann "stal" boltanum af andstæðingunum.
Slíkt er ekki fært til bókar eins og stoðsendingarnar en er í raun ígildi þess þegar markmaður ver skot og færir liði sínu boltann á silfurfati til að skora í stað þess að fá á sig mark.
Í þessu var Alex yfirburðamaður.
Persóna Alexanders er heillandi í einfaldleika sínum, látleysi og hógværð og yfir því er mikill ljómi að ævintýrið hans fer með þessum titli í sögubækur íslenskra íþrótta.
![]() |
Alexander íþróttamaður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.1.2011 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.1.2011 | 13:34
Sérfræðingar ekki sammála.
Dýralæknar, dýrafræðingar og fuglafræðingar víða um heim brjóta nú heilann um dularfullan fugladauða í Bandaríkjunum og eru ekki sammála.'
Nú hefur svipaður fugladauði átt sér stað við Falköping í Svíþjóð og enn eru uppi kenningar um hræðslu sem dauðaorsök eins og í Bandaríkjunum.
Leikurinn með skýringarnar hefur nú borist til Íslands og enn eru sérfróðir menn ekki sammála.
Þegar svo er, eiga leikmenn leik.
Ætli skýringin sé ekki sú að þetta sé óráðin gáta?
Ef fuglarnir dóu svona margir í einu úr hræðslu, hvers vegna hefur slíkt ekki gerst fyrr í þessum mæli?
Það hafa áður verið þrumuveður og áður verið flugeldasýningar sem nefnd hafa verið sem hugsanlegar orsakir í Bandaríkjunum. Varla var það orsökin við Falkjöping?
Af hverju drápust þúsundir fugla í Louisiana á svipaðan hátt þar sem ekki var neinn hávaði á ferðum?
P. S. Á ljósvakamiðlunum hafa fréttamenn og þulir staglast á nafni Arkansas ríkis með því að bera það rangt fram, líkt og síðasta atkvæðið væri nafn flugfélagsins SAS sem viðskeyti.
Nafnið er borið fram Arkanso og ekki frekar ástæða til þess að bera það öðruvísi fram heldur en að bera fram nafn New York sem Nefjork.
![]() |
Drápust líklega úr hræðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)