Þrjú efstu óumdeilanleg.

Ég held að hvert hinna þriggja, sem efst urðu í vali á íþróttamanni ársins á Íslandi 2010 hefði verið vel að titlinum komin.

Yfir hverju þeirra hvíldi ævintýrablær. 

Þetta val er ávallt erfitt því að vega verður og meta svo margt.

Þannig verður meðal annars að taka fjölda iðkenda á heimsvísu með í reikninginn og jafnvel þótt ágæti Gylfa Þórs verði að miðast út frá iðkendafjöldanum undir 21. árs aldri, er knattspyrnan stunduð af svo mörgum að engin hinna íþróttagreinanna sem voru nú í pottinum jafnast á við það. 

Það hefði því verið réttlætanlegt að velja Gylfa Þór rétt eins og Alexander. Það var hreint ævintýralegt að sjá hvernig hann á snilldarlegan hátt skoraði mörkin tvö sem gerðu á skammri stundu út um þann leik sem úrslitum réði um það að Íslendingar ættu í fyrsta sinn knattspyrnulið í úrslitakeppni á Evrópumóti. 

Stúlkurnar í Gerplu urðu Evrópumeistarar í afar krefjandi og erfiðri íþrótt, sem er ein af greinum hennar og því kannski ekki hægt að bera það saman við Evrópumeistaratitil í þeim greinum sem flestir stunda. 

Ég hefði samt alveg fellt mig við það að Íris Mist Magnúsdóttir hefði hampað titlinum fyrir hönd síns liðs og það hefði verið hressilegt og skemmtilegt. Það var ótrúlegt ævintýri að sjá hvernig þessar stúlkur vörpuðu ljóma á félag sitt, bæjarfélag og föðurland. 

Valið á íþróttamanni ársins hefur stundum borið keim af því hvað hrífur íslensku þjóðina mest og einnig fordæmi og framganga viðkomandi íþróttamanns.

Saga Alexanders Pettersson hefur yfir sér ljóma ævintýranna gömlu um karlsson í koti sem eignast kóngsríkið á óvæntan og ótrúlegan hátt og eignast meira að segja annað kóngsríki en landið sem hann fæddist og ólst upp í. 

Þetta ævintýri á sér enga hliðstæðu svo ég muni í íslenskri íþróttasögu og þess vegna er hún svo hrífandi og yljar um hjartaræturnar. 

Ekki var í kvöld allt talið upp sem Alexander gerði svo snilldarlega en þar á ég við það hve oft hann "stal" boltanum af andstæðingunum. 

Slíkt er ekki fært til bókar eins og stoðsendingarnar en er í raun ígildi þess þegar markmaður ver skot og færir liði sínu boltann á silfurfati til að skora í stað þess að fá á sig mark. 

Í þessu var Alex yfirburðamaður. 

Persóna Alexanders er heillandi í einfaldleika sínum, látleysi og hógværð og yfir því er mikill ljómi að ævintýrið hans fer með þessum titli í sögubækur íslenskra íþrótta.  


mbl.is Alexander íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Alexander átti titilinn margfaldlega skilið. Fáir hafa lagt sig eins vel fram fyrir hönd þjóðarinnar en hann í fræknum ferðum landsliðsins á undanförnum árum. Hann berst meðan báðir fætur eru jafn langir og jafnvel lengur.....!

Ómar Bjarki Smárason, 5.1.2011 kl. 23:41

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Frábær íþróttamaður og með stærra "íslenskt" hjarta en flestir innfæddir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2011 kl. 23:52

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vel mælt, Gunnar!

Ómar Ragnarsson, 6.1.2011 kl. 00:05

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Sammála,það var nú reyndar sýnt frá ævintýralegri vörn hans,þegar hann elti andstæðing uppi,stakk sér eins og til sunds og náði að  ,,bægja hættunni frá,, Ég missti af verðlaunaafhendingunni,hefði viljað sjá andlit hans ljóma, en það verður kanski endursýnt.

Helga Kristjánsdóttir, 6.1.2011 kl. 00:19

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var úti í Sviss á EM 2006 og sá þegar einn Króatinn kjálkabraut Alexander í fyrri hálfleik. Það var greinilega viljandi gert, en "Lexi" hélt áfram og kláraði leikinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.1.2011 kl. 01:34

6 Smámynd: Sigurður F. Sigurðarson

Alexander er vel að þessu kominn þó ég hefði frekar viljað sjá Írisi Mist gullverðlaunahafa hampa titlinum.

 Ég er reyndar á því að það þurfi að kollvarpa þessu vali.  Íþróttafréttamenn eru svo þröngsýnir að það verður annað hvort að fjölga í valnefnd eða skpta þeim út fyrir annan hóp.  Íþróttafréttamenn fjalla nær eingöngu um handbolta og fótbolta.  Spurning um eggið og hænuna með vinsældir.  Eru það ekki íþróttafréttamenn sem stýra að nokkru leyti hvað er vinsælt.  Ef sýnt er frá og sagt frá minna þekktum íþróttum þá verða þær þekktari og vinsælli fyrir vikið.

Einnig finnst mér að það ætti að velja íþróttakonu og mann ársins og jafnvel lið ársins.  

Það þarf að stokka þetta allt upp að mínu viti því að það er gengið framhjá svo mörgum vegna þröngsýni þess hóps sem velur.  Hvernig stendur t.d. á því að Jón Arnór er valinn besti körfuboltamaður landsins af þeim sem standa að körfuboltanum en Hlynur Bæringsson er valinn af íþróttafréttamönnum.  Þarna kemur þröngsýnin og fáfræðin hjá íþróttafréttamönnum vel fram.  Þeir hafa ekki sama vit á íþróttinni og þeir sem standa henni næst.  Svo er Helena Sverris að gera feikilega góða hluti út í Bandaríkjunum en þeir sniðganga hana í topp 10 og um það eru ansi margir sammála.

Sigurður F. Sigurðarson, 6.1.2011 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband