11.10.2011 | 12:58
Margar "tilhæfulausar ávirðingar".
"Tilhæfulausum ávirðingum" eins og það er kallað, fjölgar sífellt í garð fyrirtækja á Grundartanga ef marka má tilkynningu frá Norðuráli vegna ábendinga Umhverfisvaktarinnar.
Ég tók eitt sinn mynd af gríðarlegum mekki sem lagði frá Járnblendiverksmiðjunni. Fyrrverandi starfsmaður tjáði mér að hreinsitækin væru í raun ónýt eins og síendurtekin atvik af þessu tagi sýndu.
Þessar myndir mínar og málið allt var afgreitt sem "tilhæfulausar ávirðingar." Ég var sakaður um að vera haldinn þvílíkri heift í garð verksmiðjunnar að ég hefði vakað heilu næturnar til að ná af þessu mynd.
Hið sanna var að fyrir tilviljun var ég seint á ferð á leið til Reykjavíkur að næturlagi þegar þetta gerðist.
Algengasta vindátt á Grundartanga er norðaustanátt. Fyrrverandi starfsmaður í álverinu sagði mér að mengunarmælirinn þar væri norðaustanmegin við verksmiðjuna. Það þýðir að langoftast mælir hann aðeins hreint loftið sem blæs í átt til verksmiðjunnar en ekki mengað loftið sem fer frá henni.
Enginn fjölmiðill hafði áhuga á þessu máli og þar með hefur það í raun á rannsóknar verið afgreitt sem "tilhæfulausar ávirðingar". En sé mælirinn norðaustanmegin við verksmiðjuna er það augljóslega gagnslausasti staðurinn fyrir hann.
Hross á bæ, sem liggur í þeirri átt sem vindurinn ber oftast útblástursefni frá verksmiðjunum, drápust af eitrun. Neitað var að láta fara fram fullnaðaarannsókn á þessum "tilhæfulausu ávirðingum" og fullyrt að hrossin hefðu drepist af eðlilegum ástæðum.
Nefna má uppskipun á heilsuspillandi efni við Grundartangahöfn þar sem starfsmenn voru lagðir í hættu. Það hefur hvergi sést neitt um það í fréttum og þar með er búið að slá því föstu að um "tilhæfulausar ávirðingar sé að ræða."
Heimildarmenn mínir um framangreint voru fyrrverandi starfsmenn sem höfðu unnið þarna um árabil.
Þeir sögðu mér að þeir hefðu ekki vogað sér að segja neitt um þessi mál meðan þeir unnu þarna eða tilkynna neitt misjafnt, - ef þeir hefðu gert það hefðu þeir verið reknir.
Þessi orð þeirra um þöggunina sem þarna ríkir bætast við aðrar "tilhæfulausar ávirðingar" sem bornar eru á fyrirtæki á Grundartanga.
Rétt er að taka fram að ég setti mig í upphafi ekki upp á móti byggingu Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartana og heldur ekki álverinu eins og það var í upphafi. Taldi hins vegar að þá væri nóg komið.
En sem fjölmiðlamaður vil ég hafa allt uppi á borðinu varðandi það sem betur mætti fara þarna frekar en að það sé afgreitt endanlega út af borðinu með því að segja að aldrei fari neitt úrskeiðis og allar ábendingar um slíkt séu "tilhæfulausar ávirðingar".
![]() |
Ekki mengunarslys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
11.10.2011 | 12:42
Ekki veitir af.
Michael Gorbatshev bendir á það í grein í Morgunblaðinu í dag að leiðtogafundurinn í Höfða fyrir réttum 25 árum hafi markað tímamót í viðleitni stórveldanna til að draga úr þeirri ógn sem tilvist gereyðingarvopna felur í sér.
Hann og Ronald Reagan tókst að hrinda af stað samdrætti á þessari vopnaeign, en því miður hafa leiðtogar síðari ára ekki sýnt sömu dirfsku og ákveðni við að fylgja þessu eftir og brýn nauðsyn hefði verið til.
Það skiptir nefnilega litlu máli hvort gereyðingarvopn heimsins geta eytt öllu lífi á jörðinni tvisvar eða tíu sinnum, en þetta eru þær tölur sem nefndar eru um hið fráleita magn þessara vopna.
Reynslan frá 1983 sýnir að það þarf ekki nema ein mistök til þess að hleypa gereyðingarstríði af stað og lögmál Murphys lætur ekki að sér hæða: Séu möguleikar á að framkvæma eitthvað á rangan hátt mun það gerast fyrr eða síðar.
Við þetta er ekki hægt að una.
![]() |
Friðarmerkið við Höfða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2011 | 01:43
Þjóðin fær þá ráðamenn sem hún á skilið.
Fjórflokkurinn svonefndi hefur verið við lýði á Íslandi nokkurn veginn í svipuðum stærðarhlutföllum allar götur frá 1942. Minnsti fjórflokkurinn hefur verið með í kringum 15% fylgi og sá stærsti í kringum 35-40%.
Á næsta ári á fjórflokkurinn því 70 ára afmæli og sem fyrr skiptist hann í tvo sósíalíska flokka, einn miðjuflokk og einn hægri flokk.
Listinn yfir ný framboð sem hafa reynt að höggva í fjórflokkinn er langur: Þjóðvararflokkur og Lýðveldisflokkur 1953, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1970 (Reykjavík) og 1971, Bandalag jafnaðarmanna og Kvennalistinn á níunda áratugnum, Borgararflokkurinn 1987, Þjóðvaki 1995, Frjálslyndi flokkurinn 1999, Borgarahreyfingin (Hreyfingin) 2009 og Besti flokkurinn 2010.
Þessi nýju framboð hafa yfirleitt lifað stutt, í mesta lagi nokkur kjörtímabil og verið fljót að klofna.
Borgarahreyfingin gerði það á metttíma eftir síðustu kosningar.
Öll þessi 70 ár hafa íslenskir kjósendur nöldrað af óánægju yfir stjórnmálamönnum.
Oft hafa ný framboð á síðustu áratugum rokið upp í ótrúlegt fylgi í skoðanakönnunum fyrst eftir stofnunina en síðan hefur það fjarað út, oft mjög hratt.
Þessa sjö áratugi hafa kjósendur yfirleitt kosið þá sömu ráðamenn og hér hafa viðhaldið spillingu og óstjórn. Þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, sem keyrðu upp þensluna og græðgina sem olli Hruninu allar götur frá 2002 voru endurkjörnir kosningar eftir kosningar og sátu að völdum í tólf ár.
Í skoðanakönnunum um þessar mundir njóta þeir tveir flokkar sem mesta ábyrgð báru á stefnu þenslu, græðgi og einkavinavæðingar sem leiddi til Hrunsins, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, fylgis meirihluta þjóðarinnar.
Í gildi er stjórnarskrá sem tryggir meirihluta þingmanna þá stöðu, að fyrir hverjar kosningar séu þeir í "öruggum sætum."
Er það furða að Lilja Mósesdóttir segi að þjóðin vilji óbreytt ástand?
![]() |
Þjóðin vill óbreytt flokkakerfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)