Þjóðin fær þá ráðamenn sem hún á skilið.

Fjórflokkurinn svonefndi hefur verið við lýði á Íslandi nokkurn veginn í svipuðum stærðarhlutföllum allar götur frá 1942.  Minnsti fjórflokkurinn hefur verið með í kringum 15% fylgi og sá stærsti í kringum 35-40%.

Á næsta ári á fjórflokkurinn því 70 ára afmæli og sem fyrr skiptist hann í tvo sósíalíska flokka, einn miðjuflokk og einn hægri flokk.

Listinn yfir ný framboð sem hafa reynt að höggva í fjórflokkinn er langur: Þjóðvararflokkur og Lýðveldisflokkur 1953, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1970 (Reykjavík) og 1971, Bandalag jafnaðarmanna og Kvennalistinn á níunda áratugnum, Borgararflokkurinn 1987, Þjóðvaki 1995,  Frjálslyndi flokkurinn 1999,  Borgarahreyfingin (Hreyfingin) 2009 og Besti flokkurinn 2010.

Þessi nýju framboð hafa yfirleitt lifað stutt, í mesta lagi nokkur kjörtímabil og verið fljót að klofna.

Borgarahreyfingin gerði það á metttíma eftir síðustu kosningar.

Öll þessi 70 ár hafa íslenskir kjósendur nöldrað af óánægju yfir stjórnmálamönnum.

Oft hafa ný framboð á síðustu áratugum rokið upp í ótrúlegt fylgi í skoðanakönnunum fyrst eftir stofnunina en síðan hefur það fjarað út, oft mjög hratt.

Þessa sjö áratugi hafa kjósendur yfirleitt kosið þá sömu ráðamenn og hér hafa viðhaldið spillingu og óstjórn.  Þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, sem keyrðu upp þensluna og græðgina sem olli Hruninu allar götur frá 2002 voru endurkjörnir kosningar eftir kosningar og sátu að völdum í tólf ár.

Í skoðanakönnunum um þessar mundir njóta þeir tveir flokkar sem mesta ábyrgð báru á stefnu þenslu, græðgi og einkavinavæðingar sem leiddi til Hrunsins, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, fylgis meirihluta þjóðarinnar.

Í gildi er stjórnarskrá sem tryggir meirihluta þingmanna þá stöðu, að fyrir hverjar kosningar séu þeir í "öruggum sætum."

Er það furða að Lilja Mósesdóttir segi að þjóðin vilji óbreytt ástand?


mbl.is „Þjóðin vill óbreytt flokkakerfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segðu Ómar. Þetta er alveg sorglegt hvað íslendingar eru með mikið hundseðli og hjarðhegðun. Gullfiskaminni þjóðarinnar og hræðslan ávallt við einhverjar breytingar er það sem tryggir þessum flokkum áframhaldandi setu.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 11.10.2011 kl. 06:11

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þennan pistil Ómar, þetta er þyngra en tárum taki að fólk skuli ekki leggja saman tvo og tvo kross á atkvæðaseðli sínum og flokkadrætti og spillingu.  Þetta er sitthvor hliðin á myntinni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.10.2011 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband