Átök hita og kulda.

Það var magnað að aka vestur yfir Hellisheiði í kvöld á leið til Reykjavíkur frá Hvolsvelli. Eldingar leiftruðu með reglulegu millibili allan Flóann og vestur til Reykjavíkur og á heiðinni var öskurok á sunnan með slydduhryðjum, þótt það stæði á veðurskiltunum að þar væri fimm stiga hiti.

Eins og sjá má á veðurkortum sækir nú svalt loft að landinu og skil átaka þess við hlýja loftið sem hörfar eru nokkurs konar víglína með afar óstöðugu lofti, þrumum og eldingum.

Mörgum finnst óhugnanlegt og erfitt að vera á ferli í svona veðri og vildu gjarna vera lausir við það.

En samt er þetta heillandi í aðra röndina og hluti af þeim einstöku átökum elds og íss, hita og kulda, sem gerir Ísland ólíkt öllum öðrum löndum.


mbl.is Rafmagn sló út vegna eldinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað um Öskju?

Nú er talað um Kötlu og það sem er að gerast þar.  En hvað um Öskju?

2007 byrjaði jarðskjálfahrina á svæðinu skammt fyrir austan og norðaustan Öskju. Hræringar hafa verið þar viðvarandi æ síðan og kvika hefur verið talin þar á uppleið, komin upp í 2,5 kílómetra dýpi.

Skjálftarnir nú eru þeir sterkustu sem hafa komið lengi. Síðasta Öskjugos var 1961 en stóra Öskjugosið 1875 var eitthvert versta öskugos síðari alda. 

Full ástæða er til að hafa gætur á þessu svæði og ekki slæmt að gera viðbragðsáætlun, því að þarna er oft mikil umferð ferðamanna á sumrin.

Ég persónulega hef gert þær ráðstafanir að koma á fót stórum náttúrugerðum flugvelli með fjórum völtuðum og merktum flugbrautum,  og getur Fokker notað tvær þeirra sem eru 1000m og 1300m langar. 

Völlurinn er viðurkenndur af Flugmálastjórn og kominn á alþjóðlega skrá með einkennisstöfunum BISA. 


mbl.is Á tánum vegna Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband