Gagnslaus fundur og breytir engu?

Nei, ekki gagnslaus þessi íbúafundur í Hveragerði í kvöld hvað það varðar, að í raun var upplýst að hann breytti engu um aðgerðir, stefnu og fyrirætlanir Orkuveitu Reykjavíkur.

Skiptir þá engu þótt allir fundarmenn risu úr sætum og klöppuðu fyrir bæjarstjóranum Aldísi Hafsteinsdóttur, þegar hún krafðist þess að þessum tilraunum yrði hætt nú þegar og gefið ráðrúm til skoða framhaldið betur.  

Forstjórinn upplýsti að niðurdælingin, sem koma á í veg fyrir að affallsvatn mengi Gvendarbrunna, væri forsenda fyrir rekstri virkjunarinnar og aðeins um tvo kosti að velja: Að halda áfram á sömu braut eða að leggja virkjunina niður. 

Sem þýðir að í raun breytti þessi fundur engu og var að því leyti til gagnslaus. Ljóst er af orðum forstjórans að ekkert svigrúm er til að hætta niðurdælingunni, enda hefur þegar runnið mengað affallsvatn frá virkjuninni í nokkur ár án niðurdælingar að nokkru marki og væntanlega ekki á það bætandi. 

Aðspurður um það hvers vegna ekkert hefði verið gert til að láta vita um það fyrirfram að skjálftar gætu fylgt niðurdælingu svaraði forstjórinn: "Það var vegna einfeldni og andvaraleysis."

Hreinskilið svar sem afsökunarbeiðni fylgdi, en vekur þó spurningar um það hvort víðar í starfsemi fyrirtækisins ráði einfeldni og andvaraleysi ríkjum. 


mbl.is Fjöldi á fundi í Hveragerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex til sjö fyrirtæki í staðinn?

Það hefur verið fyrirsjáanlegt síðustu árin að það hefur verið fjarri því að til værinæ g orka handa 340 þúsund tonna álveri á Bakka, sem Alcoa viðurkenndi að væri lágmark.

Síðan breytti Alcoa um taktík með því að segja að 250 þúsund tonna álver væri nóg. Væntanlega var þá undirliggjandi að orkuverðið væri "viðunanlegt" eins og það er orðað, sem sé, að orkan fengist á lægra verði en aðrir vilja borga fyrir hana og auk þess var síðar hægt að hóta lokun álversins nema að það yrði stækkað.

250 þúsund tonna álver þarf meira en 450 megavatta orku og augljóst er að sú orka er ekki fyrir hendi nema að farið sé í að virkja Skjálfandafljót eða Jökulsá á Fjöllum. 

Stundum er hægt að lesa ýmislegt út úr ummælum manna. Í útvarpsviðtali í kvöld kom fram hjá talsmanni norðanmanna að sex til sjö fyrirtæki þyrfti til að koma í staðinn fyrir Alcoa. 

Sú spurning vaknar því hvort krafan verði ekki sú að allt sem hægt er að virkja verði virkjað til þess að "bæta upp tjónið" sem brotthvarf Alcoa veldur. 

Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld lýsa norðanmenn yfir að áfram verði sóst eftir orkufrekum iðnaði. 

Það þýðir að enn hefur ekkert breyst hjá áltrúarmönnum varðandi það að það sé eftirsóknarverðast að viðkomandi iðnaður eyði sem allra mestri orku. Hugtakið "orkunýtinn iðnaður" virðist víðs fjarri í hugum Íslendinga. 

Ég vísa í blogg mitt á undan þessu um það sem bíður Mývetninga þegar reist verður 90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi eins og nú stendur til að gera. Nýjustu upplýsingar um það sem er að gerast á Hellisheiði eru sláandi. 

Ég á venjulega ekki sjö dagana sæla eftir atburði eins og brotthvarf Alcoa. Mér er í minni þegar reiðir Húsvíkingar skóku framan í mig hnefana á fundi Íslandshreyfingarinnar-lifandi lands á Húsavík 2007 þegar við vorum kölluð "óvinir Norðurlands" og bætt við: "Þið ætlið að koma í veg fyrir hækkun fasteignaverðs hér og þar með möguleika okkar til að flytja suður." 

Ég er viðbúinn viðbrögðum svipuðum þeim sem ég fékk vorið 2005 þegar ég greindi frá áliti norsks snjóflóðasérfræðings sem benti til þess að afar hæpið væri að draga línur í miðjum bratta eins og er í vestfirskum bæjum og slá því föstu að snjóflóðahætta væri ofan við línuna en ekki fyrir neðan hana. 

Fyrir vestan barst pati af því að ég ætlaði að fjalla um þetta í kvöldfréttum og sveitarstjórnarmenn hringdu bæði í mig á leiðinni suður og í Boga Ágústson fréttastjóra til þess að koma í veg fyrir að ég fjallaði um þetta. 

Eftir að fréttin var samt flutt fékk ég upphringingar með tilfinningaþrungnum orðum eins og þessum: "Ertu ekki ánægður með að hafa eyðilagt ævistarf fjölda fólks í tveggja mínútna frétt?" 

Mér leið ekki vel undir þessu, fann að eftir þetta yrði ég kannski kallaður "óvinur Vestfjarða". 

Haustið eftir féll á Flateyri snjóflóð yfir sams konar snjóflóðahættulínu og ég hafði sýnt í fréttinni og eftir það fékk ég ekki fleiri upphringingar frá æstu fólki. 

Ég hef síðan verið undir það búinn að fá svipuð viðbrögð vegna frétta minna eða bloggskrifa og hef ákveðið að lifa við það. 

 

 

 


mbl.is Alcoa hættir við Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrot "stórkarlastefnu" í landbúnaði.

Þegar Hitler skrifaði Mein Kamph var eitt af lykilatriðunum "drang nach Osten - lebensraum" eða þörf þess fyrir Þjóðverja að tryggja "lífsrými" sitt með sókn til austurs, allt austur að Úralfjöllum.

Lykillinn að þessu voru svæði sem þá var litið á sem kornforðabúr, einkum í Suður-Rússlandi og Úkraínu.

Stalín innleiddi landbúnaðarstefnu sem ég vil kalla samheitinu "stórkarlastefna", það er, að taka jarðnæði af smábændum og koma á stórkarlalegum ríkisvæddum samyrkjubúskap.

Griðasáttmáli Stalíns og Hitlers 23. ágúst 1939 var mikill sigur fyrir Hitler, því að nú gat hann einbeitt sér að því að afgreiða Vesturveldin fyrst áður en hann réðist til atlögu við Rússa.

Tvennt hafði reynst Þjóðverjum erfiðast í fyrri heimsstyrjöldinni. Annars vegar að þurfa að berjast á tvennum vígstöðum. Hins vegar að vera nærri því að verða sveltir til bana.

Samingurinn við Stalín tryggði Þjóðverjum á friðsamlegan hátt næg matvæli og auk þess frið við austurlandamærin.

Á síðustu áratugum kommúnismans í Rússlandi beið "stórkarlastefnan" skipbrot. Landið, sem áður var "kornforðabúr Evrópu" varð nú háð innflutningi á korni.

Sama hefur nú gerst í Norður-Kóreu.

En þetta er líka að gerast á heimsvísu, því að alþjóðleg stórfyritæki ryðja nú burtu dreifðu eignarhaldi í landbúnaði  og valda vaxandi tjóni í landbúnaðarframleiðslu og verslun með landbúnaðarvörur.

Til lítils er að hafa ákvæði um tryggt fæðuframboð í stjórnarskrám 22ja landa ef hungurvofan læsir krumlum sínum um hvert landið af öðru.


mbl.is Leggja mat á hungursneyð N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband