2.10.2011 | 20:55
Þáttur í valddreifingu og valdtemprun.
Rauður þráður í frumvarpi Stjórnlagaráðs er aukið lýðræði, valddreifing og valdtemprun, gegnsæi og heiðarleiki.
Því fleiri af völdhöfunum, sem geti veitt hver öðrum aðhald, því meiri líkur á valdtemprun.
Þess vegna varð niðurstaðan að forseti Íslands gæti orðið nokkurs konar öryggisventill og haft ákveðnu hlutverki að gegna í samræmi við það að hann er eini embættismaður þjóðarinnar, sem er kosinn af þjóðinni í persónukjöri.
Hingað til hefur forsetinn getað haft völd á tveimur sviðum, annars vegar með málskotsréttinum og hins vegar með því að geta myndað utanþingssstjórn.
Þótt hlutverki forseta Íslands í nýrri stjórnarskrá sé nákvæmar skipað en fyrr hafa völd hans á fyrrgreindum sviðum að öðru jöfnu allt eins minnkað og að hún hafi aukist.
Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá hefur hann einn haft málskotsrétt til þjóðarinnar en nú getur þjóðin sjálf skapað sér málskotsrétt; 10% hennar geta nýtt sér málskotsrétt og 2% geta haft frumkvæðisrétt til lagasetningar á Alþingi.
Af þessu hlýtur að leiða að forseti Íslands getur meira haldið sig til hlés í þessu efni en samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og treyst þjóðinni sjálfri til að sjá um að leiða mál í dóm sjálfrar sín.
Skýrt er kveðið á um aðkomu forsetans að stjórnarmhyndun, en þingræðið að fullu virt hvað það varðar, að takist því ekki að velja forsætisráðherra í tveimur atrennum,, geta þingmenn, þingflokkar og forsetinn stillt upp frambjóðenum til starfans og telst sá valinn, sem flest atkvæði hlýtur.
Takist ekki að velja forsætisráðherra innan tíu vikna er þing rofið og boðað til nýrra kosninga.
Þar með er ljóst að forsetinn getur hvorki myndað utanþingsstjórn upp á eigin spýtur eins og hingað til hefur verið möguleiki, né hótað að gera það, eins og nokkrum sinnum hefur komið fyrir á lýðveldistímanum.
Til voru þeir innan stjórnlagaráðs, þeirra á meðal ég, sem vildu að forsetinn hefði þennan möguleika sem neyðarúrræði, en það varð ekki ofan á.
Auðvitað er hægt að sjá það fyrir sér að valdafíkinn forseti eða forseti sem telur sig þurfa að taka til róttækra ráða geti nýtt sér möguleika nýrrar stjórnarskrár í því efni til hins ítrasta.
En þá er það á svig við hugsunina á bak við nýju stjórnarskrána varðandi aukna valddreifingu og valdtemprun á milli allra valdamanna og valdþátta.
Þar að auki þyrfti forsetinn að standa ábyrgður gerða sinna frammi fyrir þjóðinni í næstu forsetakosningum.
![]() |
Einræðistilburðir forsetans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.10.2011 | 14:13
Dýrmæt "heimildamynd."
Kvikmyndin Eldfjall og allir þeir sem að henni standa eiga skilið þau verðlaun og það lof sem hún hefur fengið.
Ég kalla myndina "heimildamynd" innan gæsalappa vegna þess að mörkin milli leikinna mynda og heimildamynda geta oft verið víðari en virðist í fljótu bragði.
Fyrir alla þá, sem hafa upplifað hliðstæður þess, sem gerist í myndinni Eldfjalli var myndin afar dýrmæt varðandi það að íhuga efni hennar.
Ég hef heyrt að einhverjir hafi gagnrýnt að tempóið í henni hafi verið of hægt á nokkrum stöðum.
Því er ég ósammála. Ef myndin átti að vera "sönn" og gefa rétta mynd af því ástandi, sem hún lýsir, er eitt af einkennum þess ástands, að tíminn líður afar hægt, stundum eins og hann ætli aldrei að líða.
Gunnar Eyjólfsson leikari sagði mér einu sinni frá því að einhvert mesta leikkona, sem hann hefur kynnst, hafi verið áhugaleikkona á Akranesi, sem lék til dæmis kerlingu Jóns í Gullna hliðinu svo vel að hann hafði ekki séð það betur gert.
Gunnar sagði mér, að hún hefði meira að segja geta "leikið með bakinu", það er, sýnt tjáningu þegar hún sneri baki í áhorfendur.
Theódór Júlíusson er upprunninn úti á landi og hefur kannski þurft að hrista það af sér, þegar hann kom suður, að vera ekki frá upphafi inni í í nnsta hring leikhúsheimsins í Reykjavík.
En hann hefur svipaða náðargáfu og áhugaleikkonan á Akranesi forðum og geta jafnvel "leikið með bakinu." Það gerir hann í Eldfjalli og það gerði hann í söngleiknum "Ást" í Borgarleikhúsinu, meðal annars í atriði okkar tveggja þar sem við göngum til baksviðs og snúum baki í áhorfendur.
Það fór kliður um salinn í hvert sinn sem þessar örfáu sekúndur söngleiksins liðu.
Theódór er fagmaður af hæsta gæðaflokki sem leikari auk þess sem hann hefur meðfæddan og ræktaðan túlkunarhæfileika. Þetta skilar sér vel í Eldfjalli í samleik við aðra, sem standa sig afar vel og gera þessa mynd svo góða og eftirminnilega sem hún er.
Viðfangsefnið er dásamlega íslenskt og alþjóðlegt í senn, viðkvæmt vandamál sem er feimnismál en er nauðsynlegt að láta koma upp á yfirborðið eins og gert er í þessari mynd.
Það væri freistandi að fara nánar út í það, en fyrir þá, sem eiga eftir að sjá myndina er betra að það sé ekk gert. Því að ástandið og aðstæðurnar, sem myndin lýsir, þurfa að koma jafn óvænt fyrir áhorandann og þau gera í lífinu sjálfu.
![]() |
Eldfjall fékk kvikmyndaverðlaun kirkjunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2011 | 01:32
Sumrin og haustin hafa lengst.
Undanfarinn áratug hefur hlýnandi veðurfar meðal annars birst í því að það hefur vorað fyrr og haustað seinna en áður var.
Kalt vor í ár var að vísu undantekning frá þessu, en hlýtt haust núna og hlýr ágúst eru á sínum stað og athyglisvert var að heyra í fréttum úr Húnaþingi á dögunum að met fallþungi væri þar mældur í sláturhúsi.
Menn höfðu nefnilega búist við rýru fé af fjalli vegna hins kalda vors.
Einnig hefur verið fróðlegt að heyra fréttir af því hvernig fuglar hafa nýtt sér hlýtt síðsumar og haust til að seinka för sinni af landi brott.
![]() |
Hlýr september kvaddi með miklum hlýindum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2011 | 01:20
"Veturinn er erfiður mér..."
Ofangreinda setningu söng Vilhjálmur Vilhjálmsson, lag og texti Magnúsar Éiríkssonar, og miklar líkur eru á því að það sama muni verða að segja um Landeyjahöfn í framtíðinni.
Eftir því sem lengra líður frá gosinu í Eyjafjallajökli verður erfiðara að kenna því um sandburðinn.
Og ekki verður séð að sífellt tal í fyrra um óvenjulegt veðurlag sem orsök hafi átt við rök að styðjast.
Ísland er einfaldlega vindasamasti staður á norðurhveli jarðar á veturna og ekkert óeðlilegt við til dæmis haustveðrið, sem nú er gengið í garð.
Það sem nú hefur komið í ljós hefur verið fyrirsjáanlegt, þótt menn hafi átt erfitt með að viðurkenna það.
Sumrin hafa verið óvenju þurr og góðviðrasöm síðustu árin og því liggur beinast við að álykta sem svo, að Landeyjahöfn verði mikilvægt samgöngumannvirki fyrir Vestmannaeyjar á sumrin þegar ferðamannastraumurinn og umferðin eru sem mest.
Hitt verðum við hins vegar líklega að sætta okkur við að höfnin verði lokuð stóran hluta af vetrinum og ekkert við því að gera, því að það er ekki aðeins firnadýrt að reyna að halda henni opinni, heldur einnig ómögulegt langtímum saman.
Úr því sem komið er tjóir ekki að fást um þetta heldur að vinna sem best úr þessu og líta á þau jákvæðu áhrif, sem höfnin hefur haft og mun hafa meirihluta ársins.
![]() |
Landeyjahöfn að lokast á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)