Föst í hinni "gríðarmiklu orku" og hinum "geysimörgu tæknistörfum."

Meðan þess sem búið er að syngja síbyljusöng um í áratugi er hin "gríðarmikla orka" í Þingeyjarsýslum og hin "geysimörgu tæknistörf" sem stóriðjan skapi.

Í þessu fari er Valgerður Sverrisdóttir (Álgerður Nótt) föst.

Á tímabili var fullyrt fyrir norðan að minnst 1000 megavött af jarðvarmaorku væri í Þingeyjarsýslum þótt allar rannsóknir og reynslu skorti til að færa rök að því.

Nú kemur í ljós að þessi tala er minnst fimm sinnum minni. Þá er gert ráð fyrir tvennu: Að hægt sé að reisa 90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi og stækka Kröfluvirkjun um annað eins.

Hvorugt er fast í hendi. Í 35 ár hefur ekki fundist lausn á sýruvandamálum í borholum í Kröflu.

Vaða á með hiuta virkjunarsvæðisins inn í Vítismó og stórskaða með því friðun Gjástykkis, ef henni fæst framgengt.  

Eftir er að sjá hvernig þrítugföldun á virkjun í Bjarnarflagi, sem þegar hefur mengað Grjótagjá og stefnir í Mývatn getur virkað án þess að eyðileggja lífríki vatnsins.

Lausnin er sögð niðurdæling í aðeins 3ja kílómetra fjarlægð frá hótelunum og ferðamannastöðunum við vatnið og enginn veit hvaða áhrif niðurdæling hefur á jarðskjálfavirkni þar né heldur hve vel tekst til með að láta setja affallsvatnið niður í jörðina án þess að það hafi áhrif á Mývatn.

Rétt austan við Bjarnarflag er Hverarönd við Námaskarð, eina meiri háttar hverasvæðið á landinu sem liggur alveg við hringveginn og er ekki að sjá af mati vísindamanna að tryggt sé með öllu að það haldi sér þegar 90 megavatta orku verður pumpað upp í næsta nágrenni.

Í þeim efnum virðist eins og svo víðar hafa verið ákveðið að standa ekki við alþjóðlega skuldbindingu okkar Íslendinga varðandi það að náttúran eigi að njóta vafans.

Þar á ofan er það einróma niðurstaða íslenskra sérfræðinga á sviði jarðvarma, að í stað þess að látið sé nægja að reikna með 50 ára endingu hvers virkjanssvæðis þyrfti þessi tími að verða minnst 2-300 ár til þess að þessi nýting standist kröfur um sjálfbæra nýtingu og endurnýjanlega orku, sem er þriðja síbyljan sem er kyrjuð.

Og þá er ég komin að hinum "geysimörgum tæknistörfum" og "forsendu fyrir fjölgun starfa" sem stóriðjan á að skapa.

Í fróðlegu erindi Guðmundar Gunnarssonar um þetta efni hvað snertir rafiðnaðarmenn, sem ég hlýddi á í gær, kom fram að síðustu 30 ár hefur störfum á því sviði fjölgað úr 2000 í 6000.

En ekkert af þeirri fjölgun hefur komið frá stóriðjunnni heldur eingöngu frá öðrum tæknigreinum og þjónustu.  

 


mbl.is Vonbrigði að Alcoa skuli hafa hætt við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á svörtum fötum og sveltifæði ?

Það eru mjög slæmar fréttir að við Íslendingar séum orðnir næstfeitastir vestrænna þjóða því að er ávísun á verri heilsu, verri sjálfsmynd og óþarfa kostnað í heilbrigðiskerfinu og á mörgum fleirum sviðum.

Til dæmis kostar það fjármuni að flytja aukaþungann í farartækjum, einkum í flugvélum og kannski ekki langt þangað til farþegar verða vigtaðir og hæðarmældir til að borga eftir aukaþyngd.

Það er óþarfi að gera grín að þessu, því að þegar fjöldi feitra farþega er orðinn mikill getur það kostað það að færri komist með flugvélinni vegna þess að hún verði of þung.

Sjálfur sé ég mig á mynd í dag og uppgötvaði að enda þótt aukakílóin séu enn ekki yfir tíu fer mér betur að vera í dökkum jakka en ljósum.

Svört föt og sveltifæði?  Ekki endilega "sveltifæði" þannig að borðað sé mikið minna, heldur fæði, sem gefur færri hitaeiningar og er með minna magn fitu og kolvetna miðað við þyngd.

Og síðan má ekki gleyma aukinni hreyfingu, og jafnvel þótt hné,  mjaðmir eða bak séu lélegt má finna ráð til að leita að hreyfingu sem reynir minna á þessa liði en hörð hlaup eða hopp.


mbl.is Allt að 180 kíló að þyngd á fæðingardeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband