26.10.2011 | 20:26
Ekkert mál á einni helgi 2007.
Álversloftkastalanir, sem voru byggðir upp í græðgisbólunni voru skilgetið afkvæmi þeirrar hugsunar sem spennti hér allt upp úr öllu valdi og olli hruninu.
Í 2007 vímunni var það ekkert mál að ákveða það á einni helgi að vaða út í byggingu álvers sem augljóslega gæti ekki orðið minna en 340 þúsund tonn og þyrfti 700 megavatta orku til þess að verða hagkvæmt að lokum.
Og ekki bara það. Ákveðið var fyrirfram að ana af staðog byrja að byggja í Helguvík þótt verkefnið þyrfti að fara inn á borð hjá tólf sveitarfélögum í formi virkjana, háspennulína, vega og annarra mannvirkja.
Þetta var í hugum áltrúarmanna ekkert mál, - bara slá lán og slá lán og vaða áfram, því að ef einhver fyrirstaða kæmi upp, yrði mönnum stillt upp við vegg frammi fyrir orðnum hlut og leggja sitt af mörkum til að "bjarga verðmætunum."
250 milljarða lán? Ekkert mál, ná í þessa peninga strax!
Þessir menn hafa ekkert lært af Hruninu og orsökum þess heldur trúa því að hægt sé að æða áfram sem fyrr.
Þeir geta heldur ekki séð að neitt sé rangt við þetta heldur eru þeir, sem höfðu athugasemdir fram að færa, úthrópaðir sem "öfgamenn", sem eru "á móti rafmagni, framförum, atvinnuuppbyggingu og vilja heldur fara aftur inn í torfkofana."
![]() |
Ekki gert á einni helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.10.2011 | 13:19
Sauðárflugvöllur: Öryggisatriði allt árið.
Öryggisatriði og ráðstafanir í flugi geta verið margs konar og líta verður til allra mögulegra og ómögulegra atriða í því efni eins og sést af varúðarlendingu einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í morgun. Má tala um plan A, plan B, plan C o.s.frv. í því efni.
Minnir á það að gott væri að leggja Suðurgötuna undir A-V braut vallarins og lengja hana svo að hún verði aðalbraut vallarins. Mætti þá stytta N-S brautina eða gera plássminni N-S braut í staðinn sem skapaði meira rými fyrir byggð vestan við Háskóla Reykjavíkur.
En nú skulum við skreppa í ferðalag á TF-ABM, tveggja sæta flugvél, og á myndinni er setið fyrir aftan flugmanninn, Hún Snædal. Framundan eru Kollóttadyngja og Herðubreið og ferðin farin vegna öryggisatriðis í flugi, Sauðárflugvallar á Brúaröræfum.
Hann er ekki aðeins hugsaður sem nauðsynlegur flugvöllur á stóru vallarlausu svæði á hálendinu, sem geti komið í góðar þarfir ef þar verða slys eða náttúruhamfarir, heldur líka sem varaflugvöllur og varúðar- eða neyðarflugvöllur fyrir allar þær flugvélar, sem nú er flogið innanlands, þeirra á meðal Fokker F50.
En getur flugvöllur í 660 metra hæð yfir sjó á hálendinu gagnast sem skyldi vegna snjóa?
Skoðum málið nánar í ljósi ferðarinnar, sem ég fór þangað í síðustu viku.
Þá var völlurinn ennþá auður eins og sést á myndum úr ferðinni. Húnn Snædal flaug með mig frá Akureyri á Piper-Cub flugvél Arngríms Jóhannssonar til þess að sækja þangað "flugvallarbíl", 20 ára gamlan Suzuki Vitara bíl sem ég hef þar og koma honum til byggða áður en vetur gengi í garð.
Síðustu ár hef ég haft svona bíldruslu þar allt árið, en í ljós hefur komið að þegar um svona gamla bíla er að ræða, fer það illa með þá að standa óhreyfðir of lengi, alveg frá nóvember fram í maí-júní.
Vitara-bíll bilaði þar fyrir nokkrum árum og sömuleiðis Ferozajeppi í hitteðbyrra, rafallinn festist.
Við Helga fórum því í sumar og drógum báða bílana niður á Egilsstaði en í staðinn hafði ég áður komið þar fyrir litla Vitarajeppannum, sem ég notaði til að draga valtara til að valta völlinn.
Til lítils er að nota nútímatækni til að komast á staðinn, ef maður stendur þar á steinaldarstigi þegar stigið er út úr flugvélinni og hefur bara tvo jafnfljóta til að hökta áfram.
Sauðárflugvöllur hefur í þau átta ár, sem hann hefur verið notaður, opnast og lokast á nokkurn veginn sama tíma öll árin, - opnast í byrjun júní og lokast seint í október eða í byrjun nóvember.
Ástæða þess hve lengi hann er jafnan opinn er sú að þetta svæði er hið úrkomuminnsta á landinu.
Hina sjö mánuðina, nóvember til maí, eru snjór yfirleitt of mikill fyrir venuulegar flugvélar en þó koma fyrir tímabil eftir hlákur, þegar hart hjarn liggur yfir vellinum og hægt að lenda þar.
Og þá vaknar spurningin, hvort völlurinn geti nýst Fokker F50 þegar hann er snævi þakinn.
Svarið er óvænt: Já. Ástæðan er sú að mikill munur er á því hvort svona flugvél nauðlendir á snjó, sem liggur á rennsléttu landi eða hvort hún lendir í urð eða stórgrýti.
Þarna er ég að tala um nauðlendingu á borð við þá sem undirbúin var þegar hreyflar Fokker 50 biluðu báðir á flugi nálægt Sauðárflugvelli fyrir nokkrum árum. Í ljós kom reyndar að ekki þurfti að slökkva nema á öðrum hreyflinum og því var hægt að lenda á Egilsstaðaflugvelli.
Von mín er sú að geta sett upp neyðarljós á vellinum, sem hægt verði að kveikja í myrkri með fjarstýringu úr flugradíói.
Í millitíðinni er bót í máli, að ég málaði í sumar alþjóðlega einkennisstafi vallarins, BISA eða SA, með áberandi og stórum stöfum á "flugstöðina" og neyðarskýlið, gamla Econoline húsbílinn, stækkaði merkingar á aðalbraut vallarins, og vinur minn, Benedikt Varén flugumferðarstjóri á Egilsstöðum flaug nýlega með tveimur vinum sínum ifrá Egilsstöðum inn á flugvöllinn og þeir settu upp þennan forláta vindpoka, sem sést á myndinni hér á síðunni af Piper Cubnum og Vitörunni og stendur á hentugum stað nálægt brautarmótum SV og N-S brautanna.
Eru vindpokarnir þá orðnir tveir sem er öryggisatriði út af fyrir sig, því að stundum getur það gerst þegar pokarnir veðrast og veiklast, að þeir rifni í tætlur í vöndu veðri á tiltölulega skömmum tíma.
Líftími vindpokanna tveggja, sem nú eru á Sauðárflugvelli, skarast, og þess vegna er tryggt að annar þeirra að minnsta kosti verður heill hverju sinni, auk þess sem auðveldara er að finna þá og völlinn ef þeir eru tveir.
Nú er vetur genginn í garð á Brúaröræfum en þó er það ekki fyrr en þessa dagana sem það mikill snjór hefur fallið þar að reikna má með að dregið hafi í einhverja skafla., litla þó.
En jafnvel í myrkri ert hægt að finna völlinn með því að nota GPS (64,50 - 16,04) og lendingarljós vélarinnar og gera að honum nokkuð nákvæmt aðflug.
Þess má geta að hann stendur á sléttum mel, sem er 1000 metrar á annan veginn og 1600 metrar á hinn þannig að lending utan brauta á þessu svæði er margfalt betri kostur en að lenda bara einhvers staðar.
Komið að lokum ferðar og leiðir skiljast. Húnn hefur TF-ABM til flugs og er innan við klukkstund að fljúga til Akureyrar.
Tignarlegt að horfa úr flugvélinn til suðurs yfir Fagradalsfjalli ýfir Grágæsadal og Grágæsavatn, þar sem Völundur Jóhannesson "hálendisbóndi" er að "loka sjoppunni" fyrir veturinn. Landið að taka á sig grá-svartan blæ í vetrarbyrjun og Kverkfjöll kasta af sér gustskýjum við sjónarrönd.
Og á landleiðinni um Áftadal til Möðrudals er alltaf jafn gaman að staldra við um tíu kílómetrum fyrir norðvestan Sauðárflugvöll og horfa yfir Fagradal í átt til þjóðarfjallsins og fjalladrottningarinnar, Herðubreiðar.
![]() |
Virkjuðu viðbúnað í samræmi við flugslysaáætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2011 | 12:34
Dulið atvinnuleysi og tap.
Brottflutningur Íslendinga til nágrannalandanna er dulið atvinnuleysi. Að vísu er erfitt að átta sig á því hve mikil áhrif innflutningur fólks hefur á móti og verður þá að bera saman aldur og menntun beggja hópa.
Þegar uppgangurinn var sem mestur hér á græðgisbóluárunum komu hingað margir vel menntaðir útlendingar til þess að vinna jafnvel verkamannastörf. Þess vegna væri þarft að skoða nánar samsetningu þeirra sem flytja úr landi og bera saman við þá sem flytja inn.
Engu að síður er mikill missir fyrir Íslendinga þegar ungt og vel menntað fólk flytur af landi brott, fólk sem er hagvant hér á landi og þjóðfélagið hefur staðið straum af að mennta til að leggja sitt af mörkum til þjóðar sinnar.
Innflytjendur þurfa að læra íslensku og aðlagast aðstæðum, en íslenskumenntun Íslendinga, sem flytjast úr landi og þekking á íslensku þjóðfélagi nýtist ekki eftir brottflutninginn.
Auk þess felst oft í því tilfinningalegur missir hjá skyldmennum og vinum þegar leiðir skilja og vík verður á milli vina.
![]() |
Fimm flytja úr landi á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)