10.11.2011 | 23:57
Afleiðingar spillingar ?
Það er alkunna að í mörgum ríkjum heims er mútuþægni landlæg. Sums staðar er hún svo algeng að fólk kemst lítið áfram í skiptum sínum við opinbera starfsmenn nema með því að múta þeim.
Hér á Íslandi hefur mútuþægni sem betur fer ekki komist á það stig sem hún er í ýmsum fjarlægum löndum.
Það var að minnsta kosti ein af ástæðum þess að Ísland komst svo hlægilega hátt á llista yfir lönd þar sem minnst spilling væri í heiminum, að að manni setti óstöðvandi hlátur.
"Rusl inn - rusl út" er máltæki sem lýsir því þegar forsendur eru rangar og útkoman eftir því.
Hinir erlendu rannsakendur áttuðu sig einfaldlega ekki á hinni sérstöku íslensku spillingu sem hefur verið böl hjá okkur svo lengi sem elstu menn muna og birtist í kunningja- og venslatengslum okkar fámenna þjóðfélags auk spillingar sem hagsmuna- og stjórnmálahópar, valdaklíkur og fjármálatengsl skapar.
Þegar stórslys hafa orðið í löndum, þar sem mútuþægni er almenn og landlæg, hefur oft komið í ljós að þau urðu vegna þess að menn gátu keypt sér vottorð og það að litið væri fram hjá öryggisatriðum, svo sem varðandi kröfur um styrkleika bygginga.
Þess vegna hafa jafnvel nýlegar byggingar, sem áttu að standast jarðskjálfta, hrunið eins og spilaborgir.
Nú skal ekkert fullyrt um það af hverju hótelið í Tyrklandi sem hrundi í jarðskjálfta hefur verið veikbyggt vegna þess að farið var á svig við kröfur í byggingarreglugerðum.
En það hrynur fleira en hús í jarðskjálftum. Hrunið okkar mátti rekja til siðferðislegra veikleika, meðal annars spillingar í upphafi bankabólunnar og skorts á eftirliti og aðhaldi.
![]() |
Myndir af hóteli að hrynja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2011 | 20:01
Hvað varð um fótanuddtækin og Bjölluna?
Sirrý Arnardóttir er ekki einum um það meðal landsmanna að gera af og til slæm kaup.
Fræg var dellan hér um árið þegar þúsundir fótanuddtækja lentu á endanum niðri í geymslu eftir að kaupæði á þeim hafði gengið yfir og í ljós kom að þau voru yfirleitt gersamlega óþörf.
Gaman væri ef einhver tæki sig til og kannaði hvað varð um öll þessi fótanuddtæki, hve mörgum var hent og hve mörg eru enn niðri í geymslu.
Ég held að verstu kaupin sem ég muni eftir að hafi gert á ævinni hafi verið tvær Volkswagen Bjöllur sem ég keypti með 34 ára millibili, en ég hef alltaf verið veikur fyrir þeirri bíltegund þótt aðrir bílar hafi hentað mér betur.
Í báðum tilfellum voru þetta gamlir og slitnir bílar sem fengust fyrir smáaura, rétt yfir skilagjaldinu í síðara skiptið. En báðir voru með gilda skoðun og virtust líklegir til viðunandi endingar.
Ég hafði í báðum tilfellum von um að heimsfræg ending Bjöllunnar gæti skilað mér einhverjum árum í notkun, en í báðum tilfellum klikkaði þetta alveg, einkum hvað varðaði síðari Bjölluna.
Fyrri Bjölluna átti ég í tvær vikur og fór eina ferð til upp í Hlégarð og austur í Selfossbíó með Jón Möller þáverandi undirleikara. Þar með var það búið og ég man ekki hvort ég seldi eða gaf einhverjum þessa mislukkuðu Bjöllu eða hreinlega henti henni.
Seinni Bjallan leit ekki svo illa út og ég fór af stað í fréttaferð á henni austur fyrir Fjall áleiðis upp í Gnúpverjahrepp ef ég man rétt.
Rétt austan við Selfoss brotnaði annað afturhjólið undan Bjöllunni og ég mátt ekkert vera að því að stumra yfir henni.
Var hins vegar svo heppinn að aðvífandi ökumaður keypti hana af mér á staðnum; kvaðst alltaf hafa dreymt að eignast svona bíl !
Hann borgaði 15 þúsund kall fyrir hana á staðnum og af því að ég var í svo miklu tímahraki vegna fréttaöflunarinnar ákváðum við að ganga frá kaupunum seinna.
Ég hélt áfram ferðinni og hef hvorki séð Bjölluna né kaupandann síðan enda týndi ég nafni kaupandans!
Hef síðan staðið í brasi vegna þessa og gjalda af henni. Frétti af henni í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum en veit ekki meira.
Ef einhvert gæti gefið mér upplýsingar um þessa ljósbláu Bjöllu yrði það vel þegið.
![]() |
Verstu kaupin voru hlaupabretti og bíll á bílaláni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2011 | 13:20
Glæsilegur ferill glæsimennis.
Fáir stjórnmálamenn hafa byrjað feril sinn jafn glæsilega og Matthías Á. Mathiesen sem nú hefur lokið jarðvist sinni. Í Alþingskosningunum í júní 1959, hinum síðustu sem haldnar voru með einmenningskjördæmaskipan, afrekaði hann það að fella sjálfan forsætisráðherrann, Emil Jónsson, í Hafnarfirði.
Emil var forsætisráðherra í minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem höfðu í desember 1958 hafið rúmlega þrettán ára stjórnarsamstarf, það lengsta og farsælasta sem íslensk stjórnmálasaga kann frá að greina.
Fall Emils var því slysalegt í hugum krata en á móti kom að Emil var ekki sá eini af handhöfum forsetavalds sem féll, heldur féll einnig ein af máttarstólpum Sjálfstæðismanna á landsbyggðinni, Jón Pálmason forseti sameinaðs Alþingis, sem laut í lægra haldi fyrir Birni Pálssyni í Austur-Húnavatnssýslu.
Þetta er í eina skiptið í sögu lýðveldisins sem tveir af þremur handhöfum forsetavalds hafa fallið út á sama tíma.
Þetta stóð þó stutt, því að fjórum mánuðum seinna var kosið eftir nýrri kjördæmaskipan sem innleiddi það ástand að meirihluti alþingismanna þarf ekki að hafa áhyggjur á kosninganótt vegna þess að þeir sitja í svonefndum "öruggum sætum".
Ef hugmyndirnar, sem felast í frumvarpi Stjórnlagaráðs, ná fram að ganga varðandi persónukjör, mun því ástandi linna að merihluti þingmanna þurfi ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni á kjördegi, heldur geti aftur gerst það sem gerðist í gamla kerfinu, að forsætisráðherrar og ráðamenn í æðstu stöðum séu ekki óhultir, heldur gerist aftur það sem gerðist 1959, þegar hæfileikaríkir menn vinna sigra og komast til áhrifa.
Afrek Matthíasar 1959 var sérlega glæsilegt og svolítið tímanna tákn í upphafi rokkaldar þegar nýir vindar blésu og Matthías kom inn í augum okkar, sem þá vorum ung, í íslensk stjórnmál eins og hvítur stormsveipur, nokkurs konar íslenskur Kennedy, rúm ári á undan hinum bandaríska.
Í hönd fór glæsilegur stjórnmálaferill glæsimennis sem hafði fallega útgeislun. Hann haslaði sér völl á vettvangi þar sem mikið er um ágjafir á siglingunni og enginn sleppur án þess að fá á sig gusur.
En alltaf stóð hann keikur af reisn og myndugleik og persónulegri ljúfmennsku sem var sú hlið hans sem ég kynntist best.
Raunar hafði ég heyrt af Matthíasi í kringum 1950 þegar frumsamið lag hans var flutt í útvarpi og kann ég það lag enn í dag.Hann lumaði á ýmsum hæfileikum.
Ég kunni ævinlega vel við Matthías í samskiptum okkar og sakna hans. Sendi aðstandendum hans og vinum djúpar samúðarkveðjur.
![]() |
Andlát: Matthías Á. Mathiesen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)