Hvað varð um fótanuddtækin og Bjölluna?

Sirrý Arnardóttir er ekki einum um það meðal landsmanna að gera af og til slæm kaup.

Fræg var dellan hér um árið þegar þúsundir fótanuddtækja lentu á endanum niðri í geymslu eftir að kaupæði á þeim hafði gengið yfir og í ljós kom að þau voru yfirleitt gersamlega óþörf.

Gaman væri ef einhver tæki sig til og kannaði hvað varð um öll þessi fótanuddtæki, hve mörgum var hent og hve mörg eru enn niðri í geymslu. 

Ég held að verstu kaupin sem ég muni eftir að hafi gert á ævinni hafi verið tvær Volkswagen Bjöllur sem ég keypti með 34 ára millibili, en ég hef alltaf verið veikur fyrir þeirri bíltegund þótt aðrir bílar hafi hentað mér betur. 

Í báðum tilfellum voru þetta gamlir og slitnir bílar sem fengust fyrir smáaura, rétt yfir skilagjaldinu í síðara skiptið.  En báðir voru með gilda skoðun og virtust líklegir til viðunandi endingar. 

Ég hafði í báðum tilfellum von um að heimsfræg ending Bjöllunnar gæti skilað mér einhverjum árum í notkun, en í báðum tilfellum klikkaði þetta alveg, einkum hvað varðaði síðari Bjölluna.  

Fyrri Bjölluna átti ég í tvær vikur og fór eina ferð til upp í Hlégarð og austur í Selfossbíó með Jón Möller þáverandi undirleikara. Þar með var það búið og ég man ekki hvort ég seldi eða gaf einhverjum þessa mislukkuðu Bjöllu eða hreinlega henti henni.

Seinni Bjallan leit ekki svo illa út og ég fór af stað í fréttaferð á henni austur fyrir Fjall áleiðis upp í Gnúpverjahrepp ef ég man rétt. 

Rétt austan við Selfoss brotnaði annað afturhjólið undan Bjöllunni og ég mátt ekkert vera að því að stumra yfir henni. 

Var hins vegar svo heppinn að aðvífandi ökumaður keypti hana af mér á staðnum; kvaðst alltaf hafa dreymt að eignast svona bíl !

Hann borgaði 15 þúsund kall fyrir hana á staðnum og af því að ég var í svo miklu tímahraki vegna fréttaöflunarinnar ákváðum við að ganga frá kaupunum seinna. 

Ég hélt áfram ferðinni og hef hvorki séð Bjölluna né kaupandann síðan enda týndi ég nafni kaupandans!

Hef síðan staðið í brasi vegna þessa og gjalda af henni. Frétti af henni í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum en veit ekki meira.

Ef einhvert gæti gefið mér upplýsingar um þessa ljósbláu Bjöllu yrði það vel þegið. 


mbl.is Verstu kaupin voru hlaupabretti og bíll á bílaláni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband