Íslensk skaðabótakrafa á Air France og Airbus ?

Heimurinn er orðinn lítill eins og umsvif Kínverja og olíuríkja ber vitni um. Rekstur erlendra flugfélaga getur hvenær sem er komið inn á borð hjá okkur Íslendingum á margvíslegan hátt.

Einhverjir Íslendingar eiga kannski eftir að fljúga með Boeing 777 vélum Emirates flugfélagsins. 

Sem dæmi um það hvað heimurinn er litill er að einn Íslendingur var meðal þeirra 228, sem fórust í flugi AF447 um borð í Airbusþotu frá Ríó de Janero hér um árið og að nú gæti farið svo að aðstandendur hans geti, ásamt öðrum aðstandendum hinna látnu, farið í mál við Airbus og Air France. 

Ástæðan er það mikla afrek að finna svartakassa vélarinnar á meira en 3000 metra dýpi í miðju Suður-Atlantshafi og vinna úr upplýsingum hans. 

Þær voru svo sláandi og dramatískar, að Air France vildi ekki gera þær allar opinberar af tillitssemi við aðstandendur flugmanna þotunnar. 

En einn af þeim, sem aðstöðu hafði til þess, lak samskiptum flugmannanna á netið og við blasir að ekkert af því sem fyrst var giskað á um aðalorsök slyssins var rétt, heldur var höfuðorsök þess, hvernig fór, einhver sorglegustu flugmannsmistök síðari tíma. 

Í upphafi voru helstu skýringar í fjölmiðlum þær að vélin hefði lent í svo óvenjulega svæsnu þrumuveðri að það hefði laskað vélina og búnað hennar svo mjög að hún hrapaði stjórnlaus í hafið. 

Svarti kassinn sýnir hins vegar að allt frá því er flugmennirnir fóru að handfljúga vélinni, eftir að sjálfstýringin sló út í meira en 30 þúsund feta hæð,  áttu þeir góða möguleika á að ná stjórn á henni og komast út úr vandræðunum þótt það kostaði að vísu færni byggða á góðri þjálfun. 

En við blasir að líklegast vegna ónógrar þjálfunar / þreytu / of mikils trausts á sjálfvirkum búnaði sem smám saman verkar deyfandi og sljóvgandi á hvern þann sem treystir á hann að staðaldri, unnu flugmennirnir kolrangt úr þeim upplýsingum, sem mælitæki og búnaður gáfu þeim þó, allt frá því þegar þeir ofreistu vélina og þar til hún skall á sjónum með nefið reist 10 gráðu upp á við.

Aðalflugstjórinn og sá lang reyndasti þeirra var í hvíld þegar vandræðin byrjuðu og kom ekki fram fyrr meira en mínútu síðar, þegar búið var að kalla ítrekað á hann. 

Á þeim tíma höfðu flugmennirnir tveir, sem stýrðu vélinni, ofreist hana án þess að séð verði að þeir hafi gert sér neina grein fyrir því, fyrst reist hana upp svo hún hækkaði fllugið og missti mestallan flughraðann, og síðan að vísu slakað henni fram en eftir það haldið henni reistri nær alla leið niður.

Í hljóðritanum heyrist alls sex sinnum aðvörun frá sjálfvirka búnaðinum um það að vélin sé ofreist og hætt að fljúga en flugmennirnir heyrast kalla skelfdir: "Hvað er að gerast?" "Hvað eigum við að gera!" o. s. frv., og hrópa á þess á milli misvísandi skipanir, oftast um það að taka í stýrin og rífa vélina upp sem gerði bara illt verra, eða að hrópa einu sinni gagnstæða skipun. 

Vélinn féll því hratt niður og í eyrum þeirra glumdi rödd úr sjálfvirkum búnaði sem aðvarar þegar flugvél nálgast jörðina of hratt: "Pull-up! Pull up!  Pull up" ! 

En sú skipun á því aðeins við að vélin sé á nægum flughraða og ekki ofreist og það mætti segja mér að nú setjist tæknimenn yfir það að samtengja þau skilaboð sem það gefur annars vegar að hraðinn er kominn niður fyrir ofrishraða og hins vegar að vélin falli hratt til jarðar.

Airbus hefur harðneitað því að neitt hafi komið í ljós í þessu slysi sem verksmiðjan beri ábyrgð á, en það, sem heyrist í hljoðritanum sem og aðrar staðreyndir sem nú liggja fyrir, vekur óneitanlega spurningar.  

Ef þetta yrði samræmt í sjálfvirka aðvörunarbúnaðinum myndi hugsanlega heyrast þegar flugvélin er þessari flugstellikngu:  "Push forward! Increase speed! Push forward! Increas speed¨!" 

Flugmennirnir voru í fyrstu uppteknir við að hamla á móti því að vélin vaggaði villt til hægri og vinstri og virtust ekki gera sér grein fyrir því að hún vaggaði svona vegna þess að hún var ofreist og hafði misst mestallan lyftikraft vængjanna. 

Í kjölfarið fer alger ringulreið og panik þar sem flugmennirnri þrír hrópa hver á annan í skelfingu. 

Skömmu eftir að aðalflugstjórinn er kominn fram í hrópar hann upp, skelfingu lostinn: "Við erum komnir niður í 4000 fet!"

Í kjölfarið kallar annar flugstjórinn: "Farið það kolað! Við erum að brotlenda! Það getur ekki verið!!"

Það eru síðustu orðin sem heyrast í upptökunni: "Það getur ekki verið!"  Já, óhugsandi. 

Ljóst er af þessu, ef það er rétt sem "lekið" var út af efni svarta kassans, að bæði Air France og Airbus áttu meiri möguleika á að verjast skaðabótakröfum, ef þessari hljóðupptöku væri haldið leyndri en ef hún kæmist í hámæli. 

Nú verður fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður.  

Slys á bandarískri þotu fyrir allmörgum árum í Ameríku sýndi, hve hættulegt það getur verið fyrir flugmenn ef þeir starfa sífellt í því umhverfi að sjálfvirk tæki taki af þeim ómakið og leiðrétti meira að segja mistök þeirra. 

Vitað er um fjölmörg dæmi þess að sjálfvirkur búnaður taki af flugmönnum ráðin líkt og ökumenn þekkja á bílum með ABS hemlunarbúnað og ESP skrikvörn, en enginn rallökumaður myndi ná árangri ef hann hefði slíkan búnað í bíl sínum. 

Ég fylgdist á sínum tíma með umfjöllun í flugblöðum um hið bandaríska slys og afleiðingar þess, sem birtist í endurskoðaðri æfingar- og þjálfunaraðagerðum varðandi flugmenn. 

Hvort sú endurskoðun skilaði sér til Air France og Airbus skal ósagt látið.

Air France hefur í kjölfar brotlendingar AF447 endurbætt þjálfunarstaðla sína, en þetta hörmulega slys hlýtur að hvetja til þess endurþjálfunar og sífþjálfunar flugmanna um allan heim og, - svo að hugsað sé til Íslands, - hugsanlega til málaferla vegna Íslendingsins sem fórst, því að heimurinn er lítill. 

 


mbl.is Panta 50 Boeing 777-þotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Djók" fyrir aldamót ?

Ef einhver hefði sagt fyri 1ö-20 árum að Íslendingar gætu komist í fremstu röð í fimleikum og dansi hefði andsvarið við því hugsanlega orðið: "Djók".

En Evrópumeistara- og Norðurlandameistaratitlar Gerplu og frammistaða íslensku keppendanna í Norður-Evrópumóti í samkvæmisdansi hafa gerbreytt þess og stungið upp í þá sem hefðu fyrirfram efast um að þetta gæti gerst. 

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim sem hafa stundað þessar íþróttir í gegnum áratugina. 

Mér fannst til dæmis þau Sæmi rokk og Didda hér í árdaga lítið gefa eftir því besta sem maður sá að Kanarnir væru að gera í sambærilegum dansi. 

Og unga fimleika- og dansfólkið, sem nú brýst fram til forystu sprettur ekki upp úr jörðinni, bara sisvona. 

Að baki ér áralöng þróun og vinna fyrirrennarar þeirra og þjálfara sem skilar í samvinnu yngri og eldri glæsilegum árangri. 

Til hamingju, fimleika- og dansfólk! 


mbl.is Ísland vann landakeppni í dansi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt prófmál.

Birgitta Jónsdóttir var kjörin á þing til þess að sinna hagsmunum umbjóðenda sinna og íslensku þjóðarinnar.

Í stað þess að hún fái frið til þess þarf hún að eyða tíma sínum og fé til þess að verjast ósvífinni innrás í einkalíf sitt, hundelt af bandarískum yfirvöldum sem vilja láta opna einkabréf hennar, en tölvupóstarnir sem um ræðir, eru ekkert annað en einkabréf okkar tíma.

Í stjórnarskrám og löggjöf vestrænna landa eru að bandarískri fyrirmynd ákvæði um friðhelgi einkalífsins sem aðeins má rjúfa í afar afmörkuðum undantekningartilfellum.

Augljóst er að árás hryðjuverkamanna á Tvíburaturnana hefur borið tilætlaðan árangur hvað það varðar að ráðast á og eyðileggja það frelsi og lýðræði sem Vesturlönd hafa barist fyrir að innleiða hjá þegnum sínum. 

Árás bandarískra yfirvalda á einkalíf og frelsi kjörins fulltrúa íslensku þjóðarinnar eru frekleg afskipti af okkar málefnum og í raun árás á frelsi allra Íslendinga. 

Þetta gæti orðið prófmál sem skæri úr um það hvort bandarísk stjórnvöld komist upp með það að ráðast á frelsi og friðhelgi fólks um allan heim sem hefur nýtt sér nýja tækni til að skiptast á einkabréfum.

Komist þau upp með þetta er komin upp ný staða, sem snertir fólk af mörgum þjóðernum um víða veröld. 

Það er dapurlegt að horfa upp á það að það séu ekki aðeins kínversk stjórnvöld í landi alræðis, sem eru í fararbroddi við að ráðast gegn frelsi og friðhelgi fólks, heldur skuli svipað vera á ferðinni í Bandaríkjunum þótt í minni mæli sé, - meðal þeirrar þjóðar sem kom Evrópu til bjargar í Seinni heimsstyrjöldinni til að forða henni frá því að verða einræðis- og kúgunaröflum að bráð.  

 

 


mbl.is Öruggast að senda sendibréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband