Mikilvægt prófmál.

Birgitta Jónsdóttir var kjörin á þing til þess að sinna hagsmunum umbjóðenda sinna og íslensku þjóðarinnar.

Í stað þess að hún fái frið til þess þarf hún að eyða tíma sínum og fé til þess að verjast ósvífinni innrás í einkalíf sitt, hundelt af bandarískum yfirvöldum sem vilja láta opna einkabréf hennar, en tölvupóstarnir sem um ræðir, eru ekkert annað en einkabréf okkar tíma.

Í stjórnarskrám og löggjöf vestrænna landa eru að bandarískri fyrirmynd ákvæði um friðhelgi einkalífsins sem aðeins má rjúfa í afar afmörkuðum undantekningartilfellum.

Augljóst er að árás hryðjuverkamanna á Tvíburaturnana hefur borið tilætlaðan árangur hvað það varðar að ráðast á og eyðileggja það frelsi og lýðræði sem Vesturlönd hafa barist fyrir að innleiða hjá þegnum sínum. 

Árás bandarískra yfirvalda á einkalíf og frelsi kjörins fulltrúa íslensku þjóðarinnar eru frekleg afskipti af okkar málefnum og í raun árás á frelsi allra Íslendinga. 

Þetta gæti orðið prófmál sem skæri úr um það hvort bandarísk stjórnvöld komist upp með það að ráðast á frelsi og friðhelgi fólks um allan heim sem hefur nýtt sér nýja tækni til að skiptast á einkabréfum.

Komist þau upp með þetta er komin upp ný staða, sem snertir fólk af mörgum þjóðernum um víða veröld. 

Það er dapurlegt að horfa upp á það að það séu ekki aðeins kínversk stjórnvöld í landi alræðis, sem eru í fararbroddi við að ráðast gegn frelsi og friðhelgi fólks, heldur skuli svipað vera á ferðinni í Bandaríkjunum þótt í minni mæli sé, - meðal þeirrar þjóðar sem kom Evrópu til bjargar í Seinni heimsstyrjöldinni til að forða henni frá því að verða einræðis- og kúgunaröflum að bráð.  

 

 


mbl.is Öruggast að senda sendibréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Snýst þetta nokkuð um einkalíf hennar? Er hún ekki grunuð um að hjálpa wikileaks við að komast yfir trúnaðarupplýsingar.

Ég held að bandarísk stjórnvöld hafi ekki nokkurn áhuga á "einkalífi" Birgittu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2011 kl. 01:31

2 identicon

1: Þetta er alþjóðleg hlerun og án heimildar. Reyndar það sama og Wikileaks gerir, EN:

2: Wikileaks hafa stigið þarna á nokkur feitar tær með því að afhjúpa ýmislega svívirðu sem yfirvöld ætluðu að sópa undir teppið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.11.2011 kl. 09:33

3 identicon

Það er auðvelt að gagnrýna USA en hæstiréttur Íslands sá ekkert athugavert við að öllu tölvupósthólfi Jónínu Ben væri stolið og þær úrklippur úr tölvupóstum sem pössuðu Jóni Ásgeiri yrðu birtar í Fréttablaðinu.

Flísin í auga bróður þíns  osv................

Grímur (IP-tala skráð) 14.11.2011 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband