14.11.2011 | 23:45
Ekki hægt að mæla allt...
Hávaði er eitt af því sem of mikið er af í lífi nútímafólks og heyrnaleysi vaxandi böl eins og kannanir sýna.
Um það hve samfelldur hávaði hefur skekkt líf okkar getur það fólk vitnað um sem hefur komist í þá aðstöðu að upplifa algera þögn, sem er því miður of sjaldgæf, finnst varla lengur nema langt frá mannabyggð uppi á öræfum.
Þegar sólmyrkvi varð nyrðra 2004 fór ég norður í land til að mynda hann og gera um það frétt.
Ég stillti mér upp á sama stað og ég var 1954 þegar sólin myrkvaðist og dimman og myrkvinn sjálfur var ekki sterkasta upplifunin þá, heldur það hvernig allir fuglarnir í mýrinni þögnuðu.
Ég vildi ná þessu með mynd og hljóði aftur.
En það mistókst. Í fyrsta lagi hafði mýrin verið ræst fram og engir fuglar voru þar lengur.
Í öðru lagi var svo mikil umferð eftir þjóðveginum að fuglahljóð hefði hvort eð er lotið í lægra haldi fyrir honum.
Af hverju var svona mikill hávaði af umferðinni? Var ekki umferð 1954?
Jú, en miklu minni en nú og þá var þetta mjór og hlykkjóttur malarvegur og ökuhraðinn um 60 km/klst á bílum, sem voru með næstum tvöfalt mjórri dekk en nú tíðkast. Núna eru þetta stærri og þyngri bílar á 90km hraða plús og söngurinn í jeppadekkjunum og dekkjum flutningabílanna alveg yfirgengilega hár.
Ég vann á loftpressu og loftbor í nokkur sumur sem ungur maður án heyrnarhlífa.
Í skemmtikraftabransanum og í Sumargleðinni var hávaðinn yfirþyrmandi, klukkustundum saman.
Ég hávaðamældi bíla þegar ég skrifaði bílasíðu í Vísi hér í den og hávaðinn inni í sumum þeirra fór yfir 90 decibel, en meira en 85 decibel eru talin skaðlegur hávaði og heilsuspillandi til lengdar.
Sjálfur ók ég stundum á bílum þar sem hávaðinn var skaðlegur og þreytandi í langferðum, vel yfir 90 decibel.
Deyfandi áhrif hans lýstu sér í því að þegar ég fór að nálgast Reykjavík í langferðum byrjaði ég ósjálfrátt að aka hægar og hægar þótt ég vildi flýta mér. Undirmeðvitundin var greinilega að verða vitlaus á hávaðanum og varð til þess að ég hægði á mér þótt ég vildi það ekki.
Hávaðinn í flugvélum er langt yfir mörkum og endilega þurfti ég líka að fljúga eins og rófulaus hundur án heyrnarhlífa áratugum saman.
Hávaði getur verið eins og fíkniefni samanber það þegar bílar ungs fólks aka framhjá og þungur bumbuslátturinn bylur yfir allt nágrennið þótt gluggar bílsins séu lokaðir.
Ég tel mig jög heppinn að vera enn með það góða heyrn að tvisvar á ári fæ ég vottorð upp á það að ekkert skorti á þegar ég fer í heyrnarpróf fyrir atvinnuflugamannspróf.
En konan mín undrast þetta. Henni finnst ég heyra mjög illa. Til skamms tíma þurftu atvinnuflugmenn að að fara reglulega í ofurpróf varðandi heyrn niður á Borgarspítala, sem framkvæmd var með fullkomnustu tækjum nútímans og Helga skildi ekki að ég kæmist með láði í gegnum mælingarnar.
Hún bað mig um að spyrja lækninn út í þetta.
Ég gerði það og hann svaraði: "Segðu konunni þinni að þetta séu fullkomnustu heyrnarmælingar sem völ sé á í heiminum, en að þrátt fyrir alla tæknina hafi enn ekki verið fundin upp mælitæki, sem geti mælt sálræna heyrn."
Læt í lokin fylgja með eina skýringu: Konan mín hefur einhverja þá næmustu heyrn sem nokkur manneskja hefur. Hún er með eitthvert næmasta "móðureyra" veraldar.
Svei mer ef hún getur ekki heyrt gras gróa.
Þess vegna verður hún sennilega vegna þessa óhagstæða samanburðar á milli okkar hjónanna svona óþyrmilega vör við "heyrnarleysi" mitt.
![]() |
Heyrnarleysi algengara en áður var talið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.11.2011 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.11.2011 | 20:27
Í þoku hverfa viðmið.
Ef menn lenda í villum í þoku getur allt fjarlægðarskyn og hallaskyn brenglast.
Ef maður er staddur á jökli og hefur ekki fyrirfram áttað sig á stöðu sinni og til dæmis því hvernig vindurinn blæs, getur vindurinn haft þau áhrif að í stað þess að maðurinn sé að halda niður af jöklumm eins og hann hefur væntanlega ætlað sér, hrekst hann upp jökulinn, enda viðspyrnan léleg á móti vindinum.
Það gæti verið skýringin á því hve ofarlega Svíinn var þegar hann að lokum örgmagnaðist í jökulsprungu.
Á þeim tíma sem hann var þarna á ferð, blés vindurinn af suðri í meginatriðum á þessu svæði, það er að segja, upp jökulinn.
![]() |
Lést af völdum ofkælingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.11.2011 | 19:58
Hrökk við að heyra þetta.
"Þetta er bara þróuð yfirheyrsluaðferð" sagði einn af frambjóðendum Republikanaflokksins um vatnspyndingar í kappræðum þierra og allir nema tveir tóku undir þetta.
Dæmigerður orðhengilsháttur í stíl George Orwells þar sem öllu skiptir að hlutirnir heiti ekki sínum réttu nöfnum ef þau þykja ekki hljóma vel.
Þannig er margt af því, sem hryðjuverkamenn hafa komið Bandríkjamönnum til að gera, í stíl þjóðfélaganna sem George Orwell lýsti í bókum sínum, svo sem það að "Stróri bróðir" fái að fylgjast með því sem ríkisvaldinu hentar hjá þegnunum, og hins vegar að fundin séu heiti á óþægilega hluti, eins og það að hermálaráðuneytið sé kallað friðarmálaráðuneyti.
Orwell hafði hins vegar ekki hugmyndaflug til að kalla pyndingar "þróaðar yfirheyrsluaðferðir".
Ég hrökk við að heyra þetta úr munni svona margra þeirra sem sækjast eftir því að gegna valdamesta embætti heims og hafi John McCain þökk fyrir að taka málið upp eins og hann gerir.
![]() |
Afstaða frambjóðendanna vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2011 | 19:17
Eitt tilgangslausasta stríð allra tíma.
Fyrri heimsstyrjöldin, hverra loka menn hafa minnst um helgina, er eitt tilgangslausasta, versta, fráleitasta og glæpsamlegasta strið allra tíma.
Það hófst vegna fáránlegs kapphlaups um auðlindir og nýlendur, knúnu af græðgi og valdafíkn stórveldanna, og ól af sér framhaldsstyrjöld sem var enn verri og hryllilegri, og í kjölfar hennar vígbúnaðarkapphlaup; kalt stríð og styrjaldir um allan heim út öldina.
Öll stórveldin, sem hófu stríðið, voru haldnar þeirri blekkingu að þau sjálf myndu vinna sigur í stuttum og glæsilegum hernaði. Hún hófst í ágústbyrjun og henni átti að ljúka fyrir jól!
Ungir menn í blóma lífsins marséruðu við fagnaðarlæti múgsins rakleiðis inn í hrylling gagnkvæmrar slátrunar sem stóð í meira en fjögur ár.
Í hverri orrustunni af annari var hundruðum þúsundum og milljónum ungmenna att út í blóðbað, sem oft stóð vikum saman eins og orrusturar við Somme og Verdun, og skilaði engu nema dauða, hryllingi og eyðileggingu.
Á fyrstu klukkustundum orrustunnar við Somme féllu meira en 50 þúsund bresk ungmenni. Stór hluti þess hóps var stráfellur þegar hann fór það langt að hann féll fyrir stórskotarhíðinni frá eigin her!
Þegar orrustunni lauk mörgum mánuðum síðar, lá milljón í valnum án þess að hinn minnsti árangur hefi náðs.
Einn hershöfðingja Breta sagði: "Við verðum að halda þessu áfram og áfram því á endanum munum við vinna sigur, jafnvel þótt aðeins fáir okkar hermanna verði lifandi og allir Þjóðverjarnir dauðir."
Enginn af hershöfðingjunum sem töluðu og hugsuðu svona voru ákærðir fyrir stríðsglæpi.
Prestar klæddu sveipuðu brottfarir til orrustu með trúarlegum ljóma, blessunarorðum og söngvum eins og "Áfram! Kristmenn! Krossmenn!"
Eftir stríðið réði hefnd og heift þar sem sigurvegararnir nýttu aðstöðu sína til að niðurlægja liggjandi andstæðing sem mest, svo að hann gæti aldrei litið framar til sólar, heldur væri bundinn í handjárn himinhárra og óviðráðanlegra stríðsskaðabóta.
Það bar einungis þann árangur að kveikja með Þjóðverjum blundandi hatur, sem glæpahyski nasista nýtti sér til að efna til enn meiri ófriðar og enn meiri hörmunga aðeins 20 árum síðar.
Það er ógleymanlega sorglegt að koma til Verdun og líta yfir svo stóran kirkjugarð með gröfum ungra manna, að ekki yfir hann allan þar sem hann þekur heilu hæðirnar.
Staðurinn býr yfir yfirþyrmandi harmsögu; - þar varð Petain hershöfðingi Frakka þjóðhetja landa sinna fyrir það að koma í veg fyrir ósigur í margra mánaða blóðbaði en gekk síðan erinda nasista í Seinni heimsstyrjöldinni og átti aðeins miskunn De Gaulle það að þakka að verða ekki hálshöggvinn fyrir landráð.
Eftir Fyrri heimsstyrjöldina kölluðu sigurvegararnir hana "Stríðið sem bindur enda á allar styrjaldir" en í raun varð þessi glæpsamlega styrjöld kveikjan að nánast öllum öðrum styrjöldum, stórum og smáum, sem háðar voru út alla 20. öldina.
![]() |
Fallinna hermanna minnst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2011 | 15:14
"Öfga"-söngurinn strax byrjaður.
Fróðlegt er að sjá fyrstu bloggviðbrögðin við sameiginlegri umsögn 13 félagasamtaka um drög að þingsályktunartillögu um verndun og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun).
Raunar er uppsetningin verndun-orkunýting hlutdræg, því að hún gefur til kynna að engin nýting sé möguleg nema orkunýting. Gullfoss er besta dæmið um staö/svæði þar sem verndarnýting hefur verið tekin fram yfir orkunýtingu fram að þessu.
Látum það vera, en fyrstu bloggviðbrögðin tengd frétt mbl.is voru þessi: ÞAU VILJA STÖÐVA ALLAR VIRKJANIR. Ekki var getið um þau tilfelli þar sem við lögðum til að svæði yrðu sett í biðflokk, nei, það er dauðasök.
Ekki heldur það að nú eru í gangi framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem enginn hefur sett sig upp á móti.
En þessi viðbrögð er í fullum samhljómi við það að reyna að stjórna umræðunni með því að stilla henni upp sem átökum hófsamra virkjanamanna og "öfga-náttúruverndarfólks".
Í þessu felst líka sú ásökun að við (ég vann fyrir Framtíðarlandiið að þessari sameiginlegu umsögn) höfum kastað stríðshanska.
Ef menn fara yfir umsagnirnar má sjá að af viðbrögðin við þeim hefðu getað orðið: "ÞAU VILJA VIRKJA ALLT!" því að slíkar umsagnir skipta mörgum tugum.
Og ekki bara það, - því að það fyrsta sem fréttist í fjölmiðlum af umsögnum, talsverðu áður en umsagnarfresti lauk, var umsögn frá 0rkuveitu Reykjavíkur þess efnis að Bitra skyldi ekki fara í verndarflokk.
Og ein af fyrstu umsögnunum var þess eðlis að í stað þess að Gjástykki færi í verndarflokk skyldi það fært í virkjunarflokk og fleiri í sama dúr fylgdu á eftir.
Nú er svo að sjá menn sjái rautt yfir því að við brugðumst til varnar eftir að virkjanasóknin var þegar hafin og dirfumst að andæfa henni.
Eftir að Orkuveita Reykjavíkur og fleiri höfðu gefið tóninn lá það ljóst fyrir, að 13 samtökin áttu tveggja kosta völ:
1. Að "vera þæg" og leggja inn umsagnir þar sem engar athugasemdir yrðu gerðar við flokkunina í drögunum að þingsályktunartillögunni og vona að hætt yrði að hrópa: Öfgafólk! Öfgafólk!
Leyfa hinum "hófsömu" virkjunarsinnum að setja fram rök sín gegn öllum verndunarhugmyndunum og biðflokkshugmyndunum. Leyfa þeim einum að vinna eins og berserkir gegn verndun eða bið.
Eða...
2. Gefa Alþingi og þjóðinni færi á því að sjá rök með og á móti vegast á í umsögnunum.
Hrópað er: ÞAU ERU Á MÓTI ÖLLUM VIRKJUNUM!" "Á móti framförum! Á móti atvinnuuppbyggingu! Á móti rafmagni! Vilja fara inn í torfkofana!" af því við dirfumst, eftir að búið er að reisa 28 stærri virkjanir um allt land sem framleiða fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til eigin nota, að setja fram gagnrök gegn rökum virkjanafíklanna.
Já, það er stundum vandlifað.
![]() |
Vilja stofna þjóðgarð á miðhálendinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)