20.11.2011 | 23:42
Mun tími Hönnu Birnu koma ?
Skoðanakannanir virtust sýna að tryggur meirihluti almennra fylgjenda Sjálfstæðisflokksins vildu að flokkurinn gengi alla leið í endurnýjun sinni og sinna vinnubragða.
En tveir mjög stórir gallar voru á þessu.
Í fyrsta lagi eru fylgjendur Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum ekki það sama og félagar í flokknum
Í öðru lagi eru fulltrúar á landsfundi ekki það sama og félagar í flokknum og félögum hans heldur hluti af meðlimum flokksins.
Á þetta benti ég í bloggi fyrir nokkrum dögum og nefndi dæmi um það, þegar þetta hefur komið mjög greinilega fram, svo greinilega að enda þótt almennir kjósendur flokksins hafi skiptst í jafnstóra hópa í einstökum málum, hefur hjarðhegðun á landsfundinum lýst allt öðru.
Greinilegt var frá upphafi á þessum landsfundi að það yrði erfiður róður að koma fram þeim helstu breytingum í lýðræðisátt og fleiri málum, sem ekki hugnaðist flokksforystunni, þeirri sömu flokksforystu og Hanna Birna minntist á í viðtalli eftir að úrslit urðu ljós.
Ýmsar lýðræðisumbætur í starfi flokksins, sem gerðar voru tillögur um, voru gerðar afturreka svo sem eins og þær að stuðningsmenn flokksins mætti taka þátt í honum án þess að vera valdir sem fulltrúar einstakra flokksfélaga.
Með því voru gefin skýr skilaboð: Hinn almenni stuðningsmaður, sem sýnist vera tilbúinn til að skipta um forystu, samanber fylgi Hönnu Birnu í skoðanakönnunum, skal ekki fá tækifæri til þess að koma inn á landsfund og styða hana eða aðra sem vilja of miklar umbætur eða breytingar í flokknum.
Davíð Oddsson hefur alla tíð stundað stjórnmál í anda Íslendingasagnanna, þar sem menn tókust á, voru annað hvort vinir eða óvinir, tryggir eða ótryggir.
Mér finnst afar ólíklegt að hann hafi verið hrifinn af samsvinnustjórnmálunum, sem Hanna Birna kom á í borgarstjórn Reykjavíkur og ekki litist á að slík grundvallarbreyting á starfsaðferðum í stjórnmálum færi út í landsstjórnmálin.
Davíð hélt vel samda og vel flutta ræðu á fundinum og lumar enn á gömlum sjarma og ljóma töframanns í stjórnmálum sem virtist falla betur í jarðveginn á þessum landsfundi en hinum síðasta, enda ræðan nú mun ljúfari að hlýða á fyrir hinn flokksholla Sjálfstæðismann, "sem vill græða á daginn og grilla á kvöldin" en ræða hans fyrir rúmum tveimur árum.
Jóhanna Sigurðardóttir tapaði fyrir sitjandi formanni Alþýðuflokksins fimmtán árum áður en hún síðan varð bæði formaður þess flokks og forsætisráðherra, en það var meiri frami en formaðurinn, sem felldi hana forðum, náði.
Í bardagaíþróttum verða menn ekki meistarar fyrir það eitt að sigra sem oftast heldur jafnvel fremur fyrir það hvernig þeir vinna úr ósigrum.
Framtíð Hönnu Birnu í stjórnmálum þarf ekki að vera óráðin, eins og hún segir, ef hún sjálf trúir á það að hún hafi í sér þann hæfileika sanns meistara, að geta unnið þannig úr ósigrum sínum að það snúist upp í sigur, þótt síðar verði.
Vísasti vegurinn til þess að hún hverfi inn í söguna sem "tapari" er sá að henni fallist nú hendur og dragi sig í hlé. Þá er 100% öruggt að hennar tími muni aldrei koma.
Nú reynir á hana, miklu fremur en ef hún hefði sigraði í formannskosningunum.
Flokkurinn hennar var ekki tilbúinn en hver veit nema hann kunni að verða það síðar.
Miðað við frammistöðu hennar sem borgarstjóri ætti hún að eiga erindi í landsstrjórnmál, því að hugmyndir hennar um endurnýjun á viðhorfum til starfsaðferða í stjórnmálum eiga það.
![]() |
Bjarni sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.11.2011 | 10:55
Hið eftirsóknarverða ábyrgðarleysi.
Um leið og eitthvað birtist um það að ákveðin fyrirbrigði í náttúrunni geti verið af mannavöldum, spretta umsvifalaust upp menn sem harðneita því að nokkuð slíkt geti gerst og fara mikinn.
Þeir meira að segja andmæla því að að hlýnun eigi sér stað núna mitt í sumarblíðunni í seinni part nóvember.
Þeir hamast við þetta þótt þeim gangi illa að sannfæra hraðminnkandi jöklana um það og er það slæmt fyrir þennan göfuga ábyrgðarleysis og stikkfrí-málstað hvað jöklarnir eru heimskir og þverir.
Fyrir 23 árum hélt Verkfræðingafélag Íslands merka ráðstefnu um Jökulsárlón og landrof á Breiðamerkursandi þar sem niðurstaðan var sú, að ef loftslagshlýnun héldi áfram myndi sjórinn á endanum ná inn í Breiðamerkurlón, rjúfa hringveginn og fella brúna og í stað lónsins yrði þá kominn óbrúanlegur fjörður þar sem stöðugt flæði yrði af stórum borgarísjökum út á haf með tilheyrandi hættu fyrir siglingar.
Bent var á möguleika til að seinka þessari þróun verulega, jafnvel um marga áratugi, með tafarlausum og markvissum aðgerðum.
Þær fælust í því að grafa annað útfall úr lóninu, til dæmis til austurs, sem yrði miklu lengra og reisa þar brú yfir.
Við það myndi það rof, sem núverandi flæði ísjaka veldur þar sem styst er milli lóns og hafs, hverfa.
Ástæða þess að landrof er nú á þessum slóðum er sú, að nú sest mest af jökulaurnum, sem Breiðamerkurjökull grefur upp við framskrið sitt, til í lóninu í stað þess að áður barst það beint út í sjó og skóp uppfyllingarefni til að viðhalda ströndinni.
Mikil og stanslaus minnkun jökla hefur afleiðingar á ýmsa lund, en svo virðist sem afar mörgum finnist það eftirsóknarlegt ábyrgðarleysi að afneita þessum sem mest þeir mega.
Á sínum tíma var því alls staðar harðneitað þar sem ég fór um og tók myndir af hinni hræðilegu jarðvegseyðingu á afréttum Íslendinga, að sauðfjárbeit hefði neitt með það að gera.
Ég heyrði alls staðar sama svarið: Þú veist ekkert um þetta. Við vitum það því að okkur ber öllum saman um að svona hafi þetta alltaf verið.
Þegar ég fór að aka Kjalveg reglulega á hverju ári frá og með 1980 kom í ljós að fjöldi rofabarða við veginn, sem höfðu gert mér kleyft að "læra" hann hurfu á hverju ári og voru öll horfin innan áratugs.
Þegar ég síðan í lokin fór um "afrétt" fjáreigenda suður af Kaldárseli og hitt þar menn í Kaldárrétt fékk ég kunnugtlegt svar þegar ég benti á ástand gróðurs þar um slóðir: "Þú veist ekkert um þetta. Þetta vitum við því að þetta hefur verið óbreytt frá því að elstu menn muna."
Í fyrsta skipti gat ég svarað í sömu mynt: "Þetta veit ég jafnvel og þið, því að hér var ég þrjú löng sumur í sumardvöld fyrir 50 árum og veit hversu mjög gróðri hefur hrakað hér síðan."
Síðar fékk ég fleiri staðfestingar á því að hin hefðbundnu svör um að landið hefði alltaf verið svona út um allt land höfðu verið byggð á sömu blindu og ég kynntist í Kaldárrétt.
![]() |
Náttúruhamfarir af mannavöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |