24.11.2011 | 22:58
Lýsing á golfmóti sem aldrei var háð. Viðtal við dauðan mann.
Gagnrýnandinn í Vín sem skrifaði lofsamlega síðastliðinn mánudag um tónleika Georges Michaels með útlistun á flutningi söngvarans í nafngreindum lögum, er ekki fyrstur manna til að lenda í því að tónleikunum hafði verið aflýst og voru því aldrei haldnir.
Mig rámar í að minnsta kosti þrjú svipuð atvik hér á landi fyrir nokkrum áratugum.
Í eitt skiptið var um tónleika að ræða en í hin tvö skiptin um að ræða íþróttafréttir.
Skrifað var í dagblað í smáatriðum um golfmót, sem aldrei var haldið og í hitt skiptið birt viðtal við einn af helstu frömuðum Manchester United, sem hafði legið í gröf sinni í áratug!
Þetta með golfmótið var hrekkur nokkurra kunningja blaðamannsins, sem vissu að hann hafði dottið illilega í það í tvo daga og þurfti að redda því snarlega í fyrsta tölublaði að skrifa um þau íþróttamót sem haldin höfðu verið á þessu minnisleysistímabili hans.
Þeir töluðu sín á milli um uppskáldað golfmót, sem aldrei var haldið, þannig að hinn timbraði heyrði aðeins ávæning af því, en þó nóg til þess að hann varð forvitinn og áhyggjufullur yfir því að vanrækja svona skemmtilegt mót og spurði hvort þeir hefðu hjá sér skriflegar upplýsingar um það.
Þeir þóttust finna þær fyrir hreina tilviljun og létu hann hafa þær.
Afar þakklátur fyrir þennan vinagreiða skrifaði blaðamaðurinn síðan þessa fínu frétt um mótið sem aldrei var haldið.
Í hitt skiptið var íþróttafréttaritari gabbaður sem hafði yndi af því að "skúbba".
Af tærri snilld var hann gabbaður í gildru sem bar þann ávöxt að hann skrifaði þess líka flottu skúbbfrétt með viðtali sínu við einn af helstu frömuðum Manchester United.
Gallinn var bara sá að viðmælandinn hafði látist fyrir tiu árum.
Ég held að ég hafi ekki heyrt um svakalegra "skúbb" en að birta slíkt viðtal.
Ekki fylgir sögunni hvort íþróttafréttaritarinn reyndi eftirá að koma sér út úr vandræðunum með því að segjast hafa tekið viðtalið með aðstoð íslensks miðils, en miðað við það hvað þeir voru öflugir lengi vel hér á landi, hefði hann kannski getað reynt það.
![]() |
Glimrandi gagnrýni um tónleika sem var aflýst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2011 | 18:57
Sumir mega segja sumt, aðrir ekki.
Þegar Björgólfur Thor Björgólfsson var spurður í heimildamynd um Hrunið hvað hefði orðið af öllum þeim tugum milljarða, sem höfðu verið í umferð í bankabólunni svaraði hann: "Þeir bara hurfu."
Þegar Svavar Halldórsson segir það sama um fjármuni sem voru í umferð hjá Pálma í Fons er hann dæmdur fyrir það. Furðulegur dómur.
![]() |
Ein ummæli í fréttinni ómerkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2011 | 15:16
Þarf betri tölvugerða mynd ?
Hér áður fyrr var sagt að ljósmyndarar flokksblaðanna hefðu spurt, þegar þeir voru sendir til að taka myndir af mannfundum: "Eiga að vera margir eða fáir á fundinum?"
Með því að velja sér sjónarhorn og vídd er hægt að stýra hughrifum af því sem myndin á að sýna.
Varðandi Þorláksbúð er mikilvægt að gefa óhlutdræga mynd af henni í samspili hennar við Skálholtsdómkirkju og helst að sýna hana frá mismunandi sjónarhornum svo að notendur fjölmiðla geti myndað sér skoðun.
Ef velja á eitt sjónarhorn þarf það helst að gefa vel til kynna fjarlægðina á milli húsanna og huga jafnframt að því frá hvaða stað og hvaða sjónarhorni er oftast horft á þessi tvö mannvirki, ef aðeins á að nota eina mynd.
Hvorugu þessu skilyrði er að mínum dómi fullnægt á tölvugerðri mynd, sem fylgir frétt mbl.is og auk þess er í myndinni bætt við óraunhæfu misræmi á milli Þorláksbúðar og umhverfis hennar.
Vitað er að Þorláksbúð á að standa á grasbletti og á myndinni með mbl.is fréttinni eru grasbletturinn og jörðin öll hulin hvítum snjó.
Grasið á þaki Þorláksbúðar hins vegar sýnt fagurgrænt, eins og einhver almáttug máttarhönd hafi komið í veg fyrir að á það félli snjór.
Rétt skal vera rétt. Ef á annað borð er gefin sú forsenda að jörð og gras séu þakin snjó á myndinni, verður það að gilda um alla jörðina og allt grasið sem snjór getur fallið á.
Myndin er þar að auki tekin frá sjónarhorni þar sem búðin sýnist standa innan við tvo metra frá kirkjunni.
Það er heldur ekki rétt. Hún stendur ca 20 metra frá kirkjunni.
Niðurstaða þess, sem ekkert þekkir til og sér þessa mynd í sjónhendingu, verður því þessi: Liturinn á Þorláksbúð verður í æpandi ósamræmi við umhverfið og hún stendur þétt upp við kirkjuna.
Ég efast um að þetta sé ætlun mbl.is, heldur sé hér um mistök að ræða, og bendi því á þetta í mestu vinsemd.
![]() |
Segir af sér vegna Skálholts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
24.11.2011 | 14:04
Til lítils sóma og ókristilegt.
Jólin eru að vísu eldri en kristnin sem hátíð í Norður-Evrópu en hafa þó verið fyrst og fremst kristin hátíð síðasta árþúsundið með fæðingu Jesú Krists sem meginástæðu.
Hann hvatti menn til að elska óvini sína og biðja fyrir þeim. Jólin eru kölluð friðarhátíð.
Frægt er þegar skotrhríðin þagnaði sums staðar á vesturvígstöðvunum á jólanótt 1914 og hermenn sendu hvorir öðrum jólakveðjur yfir skotgrafirnar til þess að sýna, að þrátt fyrir allt væri þeim það óljúft að taka þátt í manndrápum stríðsins þótt þeir neyddust til þess.
Hegðun forsætisráðherra Breta þess efnis að sumir sambærilegra evrópskra þjóðarleiðtoga séu þess verðir að verða óskað gleðilegra jóla en aðrir ekki er í senn honum til lítils sóma og ókristileg.
Að notað friðarhátiðina jólin sérstaklega til þess að undirstrika óvild og óbeit er ekki sæmandi og allra síst þjóðarleiðtogum á borð við forsætisráðherra Breta.
![]() |
Forsetinn fékk ekki jólakort frá Cameron |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2011 | 13:49
Ein elsta tegund leikja.
Stríðsleikir eru ein elsta tegund leikja sem til er, líkast til jafngamlir manninum. Um aldir hafa íslenskir drengir leikið sér að því með sverðum að skylmast og vega hver annan.
"Jesús kallar: Verjið vígið, / vaskra drengja sveit!" sungum við strákarnir í Kaldárseli. Og einnig: "Myrkraherinn, syndasveimur, / sígur móti oss. / Margir falla, felast sumir, / flýjum því að kross!"
Vel ort hjá séra Friðriki og ekki var síðri krafturinn í söngnum: "Áfram! Kristmenn! Krossmenn! / Kóngsmenn erum vér! / Fram í stríðið stefnið, / sterki æskuher!"
Á tímabili tókum við þetta þó kannski aðeins of bókstaflega, hlóðum vígi úr grjóti í hrauninu og köstuðum steinum (ímynduðum handsprengjum). En fljótlega lærðist okkur boðskapur söngvanna.
Fyrir mörgum árum kom ég í leiktækjasal erlendis, þar sem maður gat farið upp í tölvugerða eftirlíkingu af sprengjuþotu og flogið í árásarferð í Vietnam. Það telst viðburður ef ég fer í leiki í leiktækjum en af því að ég er flugmaður og stóð til boða að stjórna flugvél ákvað ég að prófa.
Ég settist því í flugmannsætið og fljótlega gleymdi ég mér alveg, því að þetta var svo spennandi, bæði að höndla þotuna, finna skotmarkið og fara rétt að því að varpa sprengjunum og einnig að forðast skothríð úr lofvarnarbyssum og verjast árásum andstæðinganna.
Mér tókst að klára verkefnið en um leið og ég slökkti á leiktæknu setti að mér hroll yfir því sem ég hafði verið að gera í huganum; að hafa gaman af stríðleik sem miðaðist að því að nota ítrustu tæknisnilli mannsandans og yfirburði í gerð stríðstóla til að drepa og limlesta fátækt fólk í fjarlægu landi.
Ég spurði sjálfan mig: Hvernig getur andstæðingur Víetnamstríðsins tekið þátt í svona leik?
Og samt er ég mikill áhugamaður um styrjaldir, vopnabúnað og bardagaíþróttina hnefaleika en hef aldrei lagt hendur á nokkurn mann.
Þetta er allt fullt af mótsögnum.
Stríðsleiki og bardagaíþróttir verður aldrei hægt að banna.
Heldur ekki blóðugar og hryllilegar glæpa- og stríðssögur sem margt friðsemdarfólk hefur yndi af að lesa og jafnvel lifa sig inn í.
En það eru takmörk fyrir öllu og verður einhvers staða að draga línu á stóru og erfiðu gráu svæði þess sem telst boðlegt fyrir siðað og friðsamt fólk.
Við getum að vísu deilt um það út í eitt hvar linan eigi að liggja, en nærtækast hlýtur til dæmis að vera að huga að leikjum sem snúast um það að ná sem blóðugustum árangri í skipulagningu og framkvæmd hryðjuverka.
Á sínum tíma, skömmu eftir hið hroðalega Víetnamstríð, hefði ég dregið línuna þannig, að sleppa þessum ljóta árásarleik af því að stríðið var þá svo nálægt í tíma og aðferðirnar sem notaðar voru í því, voru oftar en áður hafði þekkst svívirðilega villimannlegar.
Nóg var af öðrum bardagaleikjum í leiktækjasalnum, sem reyndu á færni og snerpu.
![]() |
Þingmenn deila um tölvuleik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.11.2011 | 13:28
Þarf ekki táninga til.
Það þarf ekki fólk á tángingsaldri til þess að vísa ábyrgð af gerðum sínum á hendur öðrum, samanber hinn breska ungling sem taldi íbúðareigendur bera sök á innbrotum hans vegna þess að þeir skildu eftir opinn glugga og dregið frá.
Ævinlega þegar ég ek frá Reykjavík til Selfoss minnist ég athyglisverðs atviks, sem ég lenti í á vegamótum hringvegarins og Grafningsvegar.
Þegar ég nálgaðist vegamótin í áttina að Selfossi sé ég að stór jeppi kom niður Grafningsveginn og stefndi inn að vegamótunum.
Þarna hefur hringvegurinn ótvíræðan forgang þannig að í fyrstu sýndist ekkert óvenjulegt í aðsigi, jeppinn myndi staðnæmast við vegamótin eins og venja væri og ég og aðrir vegfarandur á leið bæði austur og vestur aka okkar leið.
Jeppinn sem kom ofan að virtist vera að hægja á sér til þess að stöðvast við vegamótin eins og venja er.
En rétt í þann mund sem ég kem að vegamótunum sé ég skyndilega að jeppinn hægir ekki lengur á sér, heldur er greinilegt að hann muni aka áfram og "svína á mér" þegar hann kemur inn á vegamótin án þess að stansa.
Svo stutt var á milli okkar þegar þetta blasti allt í einu við, að of seint var að nauðhemla, þannig að ég reif í stýrið og þverbeygði til hægri og fór út af veginum út í skafl sem þar var.
Reiknaði með því að jeppinn myndi þá taka sína beygju þegar inn á hringveginn væri komið og að ökumaður hans hefði hvorki tekið eftir mér né bílunum sem komu á móti mér.
En þetta dugði ekki. Jeppinn hélt áfram yfir vegamótin, útaf veginum og skall á mínum bíl úti í skaflinum!
Er þetta eina tilfellið sem ég þekki til að ökumaður sem reynir að forða árekstri með því að aka bíl sínum út fyrir veginn er eltur uppi og keyrður niður!
Lögregla kom á staðinn og þá tók við annað sem var ennþá óvæntara en það að hafa verið eltur uppi út fyrir veg til áreksturs.
Ökumaður jeppans hélt því fram að ég bæri alla sök á árekstrinum!
Hann sagði, að ég hefði átt að sjá, að flughált var á síðustu metrunum sem hann ók niður að vegamótunum og hefði ég því átt að snarbeygja í hina áttina, til vinstri til þess að hleypa honum yfir hringveginn og út í skaflinn úr því að hann gat ekki stöðvað bíl sinn.
Ég varð í fyrstu orðlaus en spurði síðan ökumanninn af hverju hann hefði hægt fyrr og meira á sér.
Hann kvaðst ekki hafa séð hálkuna fyrr það var en um seinan.
Ég spurði hann þá hvernig hann gæti krafist þess af mér að ég hefði séð hálkuna akandi eftir öðrum vegi og staðsettur mun fjær en hann.
"Þú áttir að geta séð það á því að ég gat ekki hægt á mér" svaraði hann.
Ég spurði hann hvort honum fyndist eðlilegt að snarbeygja inn á öfugan vegarhelming í veg fyrir umferðina sem kom á móti.
"Já, til þess að koma í veg fyrir árekstur" svaraði hann.
"En hvað um það að rekast þá framan á bílana sem kom á móti?" spurði ég.
"Þú hefðir farið útaf veginum þeim megin og sloppið við þá" var svarið.
Ég stóð ekki í frekari rökræðum við þennan ökumann, mátti ekki vera að þessu þrasi og iþurfti að hafa hraðar hendur við að losa bíl minn úr skaflinum tl þess að komast í tæka tíð á leiðarenda á stórskemmdum bílnum.
Nefna má hliðstæð dæmi, svo sem varðandi álverið í Helguvík. Þar óðu menn af stað og byrjuðu að reisa álver án þess að hafa samið við tólf sveitarfélög um virkjanir og lagningu vega og háspennulína og án þess að hafa tryggt orkuöflun.
Þegar síðan kemur í ljós að ekki er hægt að vaða svona áfram er þeim kennt um sem gagnrýndu þennan æðibunugang og það áhættusækna og ábyrgðarlausa 2007-hugarfar sem að baki var.
![]() |
Þjófur kennir fórnarlambi um innbrotið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)