28.11.2011 | 21:15
Hlýnun = minni jöklar = landris = fleiri eldgos.
Þegar loftslag varð hlýrra fyrir 11 þúsund árum og ísaldarjökullinn hvarf, er talið að eldvirkni helsta eldvirknisvæði landsins hafi orðið allt að 30 sinnum meiri en þekkst hefur.
Er það rakið til þess að við það að ísfarginu létti af landinu, reis það og afleiðingarnar birtust í fleiri eldgosum.
Mestu munaði um brotthvarf jökulsins á norðaustanverðu hálendinu og þess vegna er Ódáðahraun stærsta hraunbreiða landsins.
Nú telja jökla- og eldfjallafræðingar að svipað kunni að gerast vegna minnkunar og hvarfs Vatnajökuls ef svo heldur fram sem horfir.
Auk þess gengur eldvirkni undir vestanverðum Vatnajökli í bylgjum, og slík bylgja hófst þar með Gjálpargosinu 1996.
Þess vegna er ólíklegt að hægt verði að fækka starfsmönnum almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra langt fram eftir þessari öld.
![]() |
Starfsmönnum fjölgað vegna eldgosahættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
28.11.2011 | 15:45
Nýtt búsetulandslag.
Sameining Bæjarhrepps og Húnaþings vestra, ef af veður, er löngu tímabær staðfesting á nýju búsetulandslagi í Norðvesturkjördæmi sem hefur skapast með breyttum samgöngum.
Nú er styttra að aka frá Hólmavík til Reykjavíkur en til Ísafjarðar og byggðirnar við Húnaflóa eiga miklu meira sameiginlegt en Strandir og Vestfirðir.
Raunar er kjördæmaskipunin á skjön við raunveruleika atvinnusvæða, sem er sá að svæðið frá Borgarfirði til Þjórsár er eitt búsetu- og atvinnusvæði sem stenst þau alþjóðlegu skilyrði "virks borgarsamfélags" (FUA, Functional Urban Area) að þar búi minnst 15 þúsund manns og að skemmri tíma en 45 mínútur taki að fara á jöðrum þess inn að miðju.
Það er ekki tilvilljun að í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er gert ráð fyrir að fjölga megi kjördæmunum úr sex upp í átta, því að núverandi "landsbyggðarkjördæmi" eru of stór og of sundurleit til þess að næg tengsl myndist milli kjósenda og þingmanna.
Hornafjörður á lítið sameiginlegt með Vogum á Vatnsleysuströnd, og Fljótamenn lítið sameiginlegt með Akurnesingum.
![]() |
Kosið um sameiningu Bæjarhrepps og Húnaþings vestra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.11.2011 | 02:17
Hreinsandi martraðir.
Þegar ég var sex ára fór ég að fá hræðilegar martraðir. Þær voru svo raunverulegar að ég var lengi að jafna mig þegar ég hrökk upp og vaknaði, og ég man þær enn nákvæmlega eins og þær hefðu komið í gær.
Þær fólust í því að eftir að ég var sofnaður í myrkrinu fannst mér ég vakna upp við það að veggirnir í herberginu voru ýmist að hrynja yfir mig eða að þeir komu að mér úr öllum áttum og loftið seig niður þangað til að ég átti engrar undankomu auðið og var að því kominn að kremjast og kafna.
Í einum draumnum skreið ég (sofandi) undir rúmið en það lagðist þá ofan á mig og kramdi mig, en í þeim svifum vaknaði ég undir rúminu svo titrandi af skelfingu að það tók langan tíma fyrir mig að sofna aftur.
Í síðasta skiptið sem þetta gerðist vaknaði faðir minn við þetta, en á þessum tíma svaf öll fjölskyldan okkar, alls fimm manns, í sama herberginu.
Hann tók mig í fang sér, huggaði mig og sefaði þangað til ég sofnaði aftur og síðan hefur þetta aldrei gerst aftur.
En mörgum árum seinna spurði hann mig hvort ég myndi eftir því þegar ég, fjögurra ára gamall, fór með honum inn á trésmíðaverkstæði við Vegamót á Seltjarnarnesi.
Jú, því mundi ég greinilega eftir og man það vel enn í dag.
Hann spurði mig hvort ég myndi eftir því að trésmiðurinn hefði tekið mig upp í gríni, sett mig ofan í kistu og skellt lokinu í lás.
Nei, ég mundi ekkert eftir því, man það ekki í dag og sennilega er það gersamlega þurrkað út úr minni mínu um aldur og ævi.
Það þótti honum skrítið, því að hann mundi vel að ég, sem yfirleitt var afar hægur og þægur, hefði gersamlega tryllst af hræðslu og veinað og öskrað af skelfingu þangað til kistan var opnuð og mér lyft upp úr henni.
Þetta sýnist mér benda til að martraðirnar tveimur árum síðar hafi verið viðbrögð sálarinnar til þess að losna við hina skelfilegu minningu frá því tveimur árum áður og hreinsa þær út, því að greinilegt er, að undirmeðvitundin hafði bælt þær niður, svo mér var ómögulegt að muna þetta atvik.
Svo algerlega losnaði ég við þessa minningu, að það er til dæmis ekkert mál fyrir mig að fara í ómsskoðun inni í sívalningnum í spítalanum sem svo margir eiga erfitt með að fara inn í vegna innilokunarkenndar.
![]() |
Martraðir þurfa ekki að vera slæmar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)