Hlýnun = minni jöklar = landris = fleiri eldgos.

Þegar loftslag varð hlýrra fyrir 11 þúsund árum og ísaldarjökullinn hvarf, er talið að eldvirkni helsta eldvirknisvæði landsins hafi orðið allt að 30 sinnum meiri en þekkst hefur.

Er það rakið til þess að við það að ísfarginu létti af landinu, reis það og afleiðingarnar birtust í fleiri eldgosum. 

Mestu munaði um brotthvarf jökulsins á norðaustanverðu hálendinu og þess vegna er Ódáðahraun stærsta hraunbreiða landsins. 

Nú telja jökla- og eldfjallafræðingar að svipað kunni að gerast vegna minnkunar og hvarfs Vatnajökuls ef svo heldur fram sem horfir. 

Auk þess gengur eldvirkni undir vestanverðum Vatnajökli í bylgjum, og slík bylgja hófst þar með Gjálpargosinu 1996. 

Þess vegna er ólíklegt að hægt verði að fækka starfsmönnum almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra langt fram eftir þessari öld. 


mbl.is Starfsmönnum fjölgað vegna eldgosahættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvað skyldu eldfjallafræðingar segja um virknina á hlýindaskeiðinu á miðöldum þegar hann var kallaður Klofajökull (næstum klofin í miðju) , var meiri eldvirkni þá?

Ari (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 23:14

2 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta getur allt verið rétt Ómar en síðustu aldir hafa verið rólegri í jarðsögunni og veðurfari sem betur fer en oftast áður.  Við erum alltaf að gera okkur rellu út af því sem gerist í náttúrunni og við getum lítil sem engin áhrif haft á.

Á næstu 5 árum Ómar hef ég meiri áhyggjur af því sem gerist varðandi banka- og ríkisgjaldþrot. Það eru vandamál sem stafa af mannlegum mistökum og áfram er haldið að hlaða í þann bálköst og bera að bensín. En það er að sálfsögðu meira gaman að tala um náttúruvá en sjálfskaparvítin. 

Jón Magnússon, 28.11.2011 kl. 23:19

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið sammála Jóni Magnussyni þarna!!Ómar þetta er málið!!!!!!

Haraldur Haraldsson, 29.11.2011 kl. 00:12

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Spurningu Ara held ég að menn munu svara þannig, að eldvirkni eykst þegar jökulfargi léttir af landinu, eins og Ómar nefnir. Frá landnámi fóru jöklar smám saman stækkandi uns þeir náðu hámarki um 1900. Þess vegna var jökulfargi ekki að létta á landinu á miðöldum og þar með jukust ekki goslíkur af þeirri ástæðu. Öfugt við það sem gæti gerst í framtíðinni með Vatnajökul.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.11.2011 kl. 00:35

5 identicon

Hlýnun jarðar er af mannvöldum, engin spurning. En við erum of veik og eigingjörn til að spyrna á móti. Afleiðingarnar eru þegar að koma í ljós og eiga eftir að verða skelfilegar.  Og í þessum efnum er mörlandinn ekki til fyrirmyndar, ekki síst sá hópur manna sem sér lífshamingjuna fólgna í peningum, völdum og veislum. Græða (stela) á daginn og grilla á kvöldin.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 07:34

6 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Við getum stöðvað mannlegar hörmungar en ekki náttúruna!

Sigurður Haraldsson, 29.11.2011 kl. 07:57

7 identicon

Það er nú drjúgur partur af skerinu sem kom upp í gosvirkni undir ís, - ekki má gleyma því.

Meir að segja Keilir ef ég man rétt! Hann er sagður mælistika á ísþykktina sem þá lá yfir því sem við þekkjum nú sem Reykjanes.

En bíðum nú við. Var ekki svaðagosið í Öræfajökli á 13. öld eða svo? Akkúrat á hlýskeiði miðalda og fyrir "litlu ísöld"??Einmitt þegar Vatnajökull var klofinn enn?!

 Og svo smá athugasemd við orð nafna míns Magnússonar, - 

" Við erum alltaf að gera okkur rellu út af því sem gerist í náttúrunni og við getum lítil sem engin áhrif haft á."

Tja, - ertu nú alveg svo viss um það? Man enginn eftir því að þegar stórveldi kalda stríðsins sátu á gikkfingrinum með alvegbarastórarbombur, þá var því spáð af vísindamönnum að úr gæti orðið kjarnorkuvetur mikill, vegna dökknunar í lofthjúp (global dimming), og hefur sú kenning hvorki verið hrakin, né mikið skoðuð eftir 1989.

Loftslagsbreyting á einni viku eða svo.

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 10:27

8 Smámynd: Guðmundur Paul

Hvað er Ódáðahraun? Skilgreining á Ódáðahrauni er á reiki, endimörk eru skilgreind á mismunandi hátt. Hér er skýring Wikipediu: Sumir vilja draga þau frá austri til vesturs sunnan við Bláfell og Sellandafjall, aðrir telja að það nái norður undir Mývatnssveit og að Hringveginum um Mývatnsöræfi, enn aðrir vilja teygja það allt norður að Þeistareykjum. Ódáðahraun er stærsti samfelldi hraunfláki Íslands, um 4400 km² (ef miðað er við fyrst nefndu skilgreininguna). Það er samsett úr fjöldamörgum einstökum hraunum, bæði dyngjuhraunum og hraunum frá sprungum og gígaröðum. Elstu hraunin eru 10-12 þúsund ára en þau yngstu eru frá Kröflueldumá 20. öld. Upp úr hraunaflákum Ódáðahrauns rísa fjöll og fjallaklasar svo sem Herðubreið, Upptyppingar og Dyngjufjöll. Tímabilið 1450-1900 er nefnt í riti Trausta Jónssonar veðurfræðings litla ísöld því þá snöggkólnaði á landinu eftir hægari kólnun frá upphafi 12. aldar. Á miðju þessu tímabili varð til mesta hraungos sögunnar Skaftáreldar og eitt af stórgosum Kötlu 1755 sem lagði mörg býli í Leiðvallahreppi í eyði. Hlýnun/kólnun jarðar er að mestu sprottin frá sólinni, önnur áhrif, svo sem menn og jarðeldar eru tímabundin áhrif en ekki varanleg. "Global dimming" eða kjarnorkuvetur er teoría en ekki staðreynd. Kjarnorkusprengjur hafa verið sprengdar ofanjarðar án þess að hafa varanleg gjöreyðingar áhrif á jörðina. Ef veðurfræðingar SÞ hafa rétt fyrir sér um hlýnun jarðar, þá er sú hlýnun öll eftir að kjarnorkusprengjurnar hafa verið sprengdar og því ekkert um "Global dimming"

Guðmundur Paul, 29.11.2011 kl. 12:27

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú er vitað að hitastig hefur verið breytilegt. Þannig var á tertier mun hlýrra en nú á Íslandi.

Mér finnst eins og margir ræða nokkuð frjálslega um þessi mál eins og gengið er út frá einhverju meðaltali eða einhverjum grunnpunkti. Ljóst er og augljóst að koltvýsýringur er talinn hafa aukist mjög eftir iðnvæðingu og fram á þennan dag.

Fyrir okkur Íslendinga er þetta eiginlega til að fagna á vissan hátt: Við getum aukið mikið jarðargróða, aukið akuryrkju og skógrækt þannig að næstu kynslóðir ættu að geta haft aðgang að nýjum náttúruauðlindum þó svo aðrar kunni að glatast eins og fiskurinn í sjónum.

Rétt er hjá Ómari að eftir ísöldina var mjög mikil eldvirkni og má reikna með að hún færist í aukanna með hverfandi jöklum.

Kveðja

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 29.11.2011 kl. 15:43

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jón Magnússon:
Við erum alltaf að gera okkur rellu út af því sem gerist í náttúrunni og við getum lítil sem engin áhrif haft á.

Við getum haft áhrif á það hvort hitastig hækki mikið af okkar völdum í framtíðinni, enda er nokkuð ljóst að aukin gróðurhúsaáhrif af manna völdum er staðreynd...þannig að lausnin er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig að við getum haft áhrif á það og reyndar margt annað í náttúrunni með því að huga að því hvernig við göngum um hana. Hitt er svo annað mál að manngerð mistök í fjármálum eru líka allrar athygli verð, en við hljótum að geta haft meira en eitt járn í eldinum, getum við ekki ætlast til þess af okkur mannfólkinu...enda teljum við okkur viti borin...

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.11.2011 kl. 15:59

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Global dimming eða "rökkvun" eins og ég vil kalla það og fékk því ráðið að það var íslenska nafnið á erlendum þætti um fyrirbærið, er vísindalega viðurkennt.

Þykir það sannað sem afleiðingar af stærstu eldgosum jarðsögunnar sem hafa þeytt miklu magni af öskuögnum upp í í lofthjúpinn svo að sól varð rökkvuð um allan heim, þó mest í heimalandi eldgossins. 

Af því drógu Móðuharðindin nafn sitt. 

Rökkvun er hins vegar ólík áhrifum gróðurhúsalofttegunda að áhrif þeirra endast í margar aldir, en rökkvun vegna til dæmis eldgoss eins og Skaftáreldanna,  stendur aðeins í nokkur misseri á meðan agnirnar, sem fara upp í lofthjúpinn, eru að falla aftur til jarðar.

Ómar Ragnarsson, 29.11.2011 kl. 22:23

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Ómar

Jöklar hafa verið að breytast á undanförnum árum og árþúsundum.

Væntanlega geta jarðvísindamenn og jöklafræðingar frætt okkur um hvort fylgni hafi verið milli þessara breytinga og eldgosa.  Það væri vissulega fróðlegt.

 http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/img/glaciers_in_iceland_1000_and_2500_years_ago-400w.jpg

Myndirnar eru úr Árbók Landgræðslu ríkisins 1995-97 og sýna þær líklega útbreiðslu jökla á Íslandi fyrir 1000 árum og 2500 árum.  Höfundar myndanna eru Grétar Guðbergsson og Þorleifur Einarsson.

Myndirnar sýna auðvitað auðvitað aðeins ástandið á ákveðnum tímum, en ekki þróunina.

Hvort breyting á stærð jökla sé að hluta til, og að hve miklu leyti, af mannavöldum er svo auðvitað annað mál sem menn deila endalaust um... Það er önnur saga...

l

Ágúst H Bjarnason, 30.11.2011 kl. 12:01

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Svona af því að Ágúst kom fram með þessa gömlu mynd úr Árbók Landgræðslu ríkisins 1995-97 , þá er vert að benda á nýlega bók Helga Björnssonar (Jöklar á Íslandi), sem sýnir ástand jökla aðeins öðruvísi en þarna kemur fram og tel ég þá heimild betri. T.d. er Vatnajökull ekki klofin þar við landnám. Ekki að það skipti máli í sjálfu sér, enda vitað mál að jöklar hafa verið að stækka í langan tíma fram á 20. öldina, en þar eftir byrjuðu jöklar að bráðna, nánast allir jöklar sem skoðaðir eru, sem er í samræmi við hlýnunina á heimsvísu sem orðið hefur á síðustu áratugum... Það er eðlilegt að við skoðum þátt manna með gagnrýnum huga og tökum mark á þeirri staðreynd að gróðurhúsaáhrifin eru að aukast af manna völdum, og hitastig er að hækka á heimsvísu, sem er í samræmi við kenningar um aukin gróðurhúsaáhrif af manna völdum, sjá nánar, Mælingar staðfesta kenninguna

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.11.2011 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband