Jarðgöng undir brekkuna eða yfirbygging?

Bakkaselsbrekkan er versti farartálminn á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ástæðan er margþætt. Þetta er hæsti fjallvegurinn á leiðinni, ein brattasta brekkan og oft vindaskil með sviptingum vegna þess að þarna verður um 45 gráðu beygja á leiðinni fyrir hornið á Heiðarfjalli.

Á þessum stað mætast þrír dalir og vindar geta mæst þannig að úr verður staðbundið óveður. 

Ég hef leikið mér að því að mæla vegalengdina, sem þyrfti mest að losna við og telst til að þetta getið verið 2500-3500 metrar er jarðgöng verða fyrir valinu, en styttri vegalengd ef sett yrði á veginn yfirbygging, sem ég kynnti einu sinni í sjónvarpsfrétt og er ódýrari en jarðgöng. 

Þessi sjónvarpsumfjöllun á sínum tíma beindist einkum að vestfirskum fjallvegum, einkum veginum yfir Dynjandisheiði, sem hentar einkar vel vegna þess að þar eru verstu kaflarnir aðeins hluti af heiðinni. 


mbl.is Lentu út af í Bakkaselsbrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að sannfæra aðra um sérstöðu sína.

Ég er varla búinn að blogga um ummæli Tryggva Þórs Herberssonar um framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar frétt kemur um fundaherferð hennar um landið.

Þetta getur orðið erfið fundaferð því að reynt getur á þekkingu hennar á landshögum og sérhagsmunum á hverjum stað. 

Ég vitna í síðasta blogg mitt um sterkasta tromp hennar sem hlýtur að felast í því að hún sannfæri Sjálfstæðismenn um að hún sé þess megnug, eins og hún var í borgarstjórn Reykjavíkur á erfiðustu árum hennar, að laða fram ný og árangursríkari samvinnu- og samræðuvinnubrögð í stjórnmálum en hér hafa ríkt sem geti breytt Alþingi þannig að það losni við stimpilinn átakaþing og fái í staðinn stimpilinn vinnuþing. 

Það verður ekkert áhlaupaverk að breyta ásýnd Alþingis því að landsstjórnmál eru miklu flóknari og erfiðari við að eiga en sveitarstjórnarmál í einstökum byggðarlögum og því ekki sjálfgefið að stjórnmálamaður, sem náð hefur góðum árangri á sveitastjórnarstiginu, nái samsvarandi árangri í landsstjórnmálum. 


mbl.is Hanna Birna í herferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hélt að tilgangurinn væri ný vinnubrögð.

Tryggvi Þór Herbertsson sér engan tilgang í framboði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formennsku í Sjálfstæðisflokknum af því að enn bóli ekki á neinum umtalsverðum málefnaágreiningi hennar og Bjarna Benediktssonar. 

Auðvitað væri það æskilegt í augum margra að fram kæmi stefnumunur hjá Bjarna og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur svo að það auðveldaði landsfundarfulltrúum valið.

En það er fleira sem hangir á spýtunni og má í því efni nefna framboð Davíðs Oddssonar gegn Þorsteini Pálssyni 1991. Þar stóð rimman ekki um umtalsverðan ágreining ef ég man rétt, heldur um það hvor þeirra yrði sterkari og árangursríkari leiðtogi.

Þar vó þungt í mati manna hve glæsilegur ferill Davíðs hafði verið sem borgarstjóri. 

Á sama hátt og ferlill Davíðs sem borgarstjóra var sterkasta tromp hans 1991 sýnist mér sterkasta tromp Hönnu Birnu sé það hvernig hún og allir borgarfulltrúar tóku sig saman um samvinnustjórnmál í stað átakastjórnmálanna, sem höfðu komið borgarstjórn Reykjavíkur niður á lægsta botn íslenskra stjórnmála. 

Þetta tromp hennar er að vísu gerólíkt trompi Davíðs, sem byggðist á sterkum foringjahæfileikum í gamalli herforingjahugsun stjórnmála þess tíma, að byggja upp sterka stöðu í átakastjórnmálum og valta yfir andstæðinga. 

Tromp Hönnu Birnu er gerólíkt,  forystuhæfileikar sem byggjast á því að laða ólíkt fólk til samvinnu um úrlausn erfiðra viðfangsefna þannig að allir hafi sóma að. 

Að sjálfsögðu áttu minnihlutaflokkarnir jafn mikinn þátt í þessu á borgarstjóraárum Hönnu Birnu og meirihlutinn, sem studdi hana til valda, en fram hjá því verður samt ekki komist að miklu olli, hvaða þýðingu leiðtogahlutverk og sameingarhlutverk borgarstjórans hafði. 

Mér sýnist fljótt á litið að vinnubrögðin í borgarstjórn á þessum "valdaárum" Hönnu Birnu hafi verið um margt svipuð þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð í Stjórnlagaráði; - þ.e. að hafa samvinnuvilja, vinnugleði og drengskap að leiðarljósi. 

Hvað vinnubrögð á Alþingi áhrærir er hægt að orða það með andstæðunum "vinnuþing - átakaþing." 

Ég hefði haldið að tilgangur framboðs Hönnu Birnu Kristjánsdóttur væri sú að hún vildi innleiða ný vinnubrögð og hugsun í stjórnmálin sem byggðist á því  að stjórnmálamenn séu kosnir til að leysa ákveðin verkefni af hendi sem þjónar og ambáttir almennings en ekki sem drottnarar í embættum í þeim gamla skilningi að embætti væru vegtyllur í framapoti. 

Ég skástrika orðin ambátt og embætti, þvi að bæði þýða það sama, þjónusta við þjóðina. 

Ég held að það hljóti að skipta miklu máli fyrir framboð og gengi Hönnu Birnu hvort henni tekst að koma þessu skýrt á frambæri ef enginn málefnagreiningur sem máli skiptir kemur fram.  


mbl.is Sér engan tilgang með framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ölfusárbrúin og félagsheimilið.

Það var mikið lán yfir fólkinu sem steyptis í á í Kína þegar hún brast. Einnig athyglisvert þegar vöruflutningabílstjóri reyndi að leggja þrefalt meira á brúna en talið var ráðlegt.

Þetta tvennt leiðir hugann að tveimur atvikum á íslenskum brúm. 

Þegar fyrst var gerð brú yfir Ölfusá fyrir aldamótin 1900 var hún gerð fyrir umferð hesta en ekki bíla. 

Engu að síður var brúin notuð lengst af fyrir bíla sem fóru sístækkandi þangað til kom að því óhjákvæmilega, að hún brysti. 

Þegar annar strengurinn brast árið 1944 steyptist mjólkurflutningabíll í ána. Þetta var hátt fall og áin ískald jökulfljót. 

Heljarmennið Jón Guðmundsson bílstjóri komst út út bílnum, náði taki á bílhjóli, sem losnaði, og tókst að krafla sig upp á árbakkann. Þetta var mikið afrek og í minnum haft. 

Hitt atriðið í kínversku fréttinni, hvernig haldið var áfram að leggja á gamla og þreytta brú miklu meiri þyngd en hún þoldi, minnir mig á atvik, sem ég tók myndir af fyrir nær tveimur árum. 

Þar sást á gamalli brú yfir á á Suðurlandi að bílstjóri einn óð út á brúna án þess að taka hið minnsta tillit til áberandi merkinga um breidd brúarinnar. 

Á járnvirkinu, sem hélt brúnni uppi mátti sjá hvernig bíllinn hafði fest í brúnni, vegna þess að hann var svo þungur að járnvirkið sveigðist inn á við og klemmdi hann fastan. Augljóst var á ummerkjum eftir á að bíllinn hafði verið allt of þungur. 

Því miður var ég ekki viðstaddur þegar þetta gerðist og átta mig ekki á því hvernig bílstjóranum tókst að nauðga bílnum stórskemmdum yfir brúna og skemma hana mikið í leiðinni. 

Ástæðan fyrir því að bílstjórinn hagaði sér svona sé dálítið einkennandi fyrir algengan hugsunarhátt hér á landi "að láta á það reyna."

Sighvatur Björginsson sagði eitt sinn skemmtilega sögu af þessu. Í félagsheimili úti á landi var upp skilti með þessari áletrun: "Gestir fari úr skónum áður en gengið er inn". Skömmu síðar kom þar kona úr sveitinni og óð inn á skítugum stígvélum. 

Henni var bent á skiltið sem legði blátt bann við athæfi hennar. 

"Þetta á bara við "gesti" sagði konan, "en ég er heimamaður." 

"Auðvitað á þetta við alla" var svar félagsheimilisstjórans. 

"Ja, ég vildi bara láta á það reyna" svaraði konan þá. 


mbl.is Sluppu ómeidd eftir að brú hrundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband