15.12.2011 | 17:12
Árið 1947 - öfugt.
Árið 1947 lagði Marshall, utanríkisráðherra Bandaríkjanna fram áætlun um stórkostlega aðstoð Bandaríkjanna til þess að reisa Evrópu úr rústum. Með því töldu þeir sig geta hraðað því að efnahagur álfunnar elfdist og hægt yrði að afnema tolla, koma á einu markaðssvæði og svipuðu frelsi til fjárfestinga og hreyfingar fjármagns og vinnuafls og Evrópubandalagið koma síðar á.
Bandaríkjamenn buðu öllum Evrópuþjóðunum, líka Sovetríkjunum og þjóðum Austur-Evrópu, þessa aðstoð, en Stalín sá til þess að engin Austur-Evrópuþjóð tæki þessu boði.
Tilgangur Bandaríkjamanna var ekki aðeins hjálpsemi heldur líka eigin hagsmunir, því að bæði í Frakklandi og á Ítalíu var órói á stjórnmálasviðinu og kommúnistar öflugir og Bandaríkin sjálf myndu hagnast á því í lengd og bráð að sameiginlegt og öflugt vestrænt hagkerfi myndaðist beggja vegna Atlantshafsins.
Að sama skapi myndi slík uppbygging verða mótvægi við útþenslupólítík Stalíns.
Þetta sá Stalín að sjálfsögðu og vildi alls ekki að Austur-Evrópuþjóðirnar yrðu á neinn hátt fyrir vestrænum áhrifum eða teldu sig eiga Bandaríkjamönnum neitt að þakka, því æ sér gjöf að gjalda eins og máltækið segir.
Í staðin voru knýtt sterk efnahagsleg, hernaðarleg og stjórnmálaleg bönd austan Járntjaldsins sem reis einmitt um þessar mundir um álfuna þvera.
Nú bjóða Rússar efnahagslega aðstoð skuldahrjáðri Evrópu og hefði maður látið segja sér það tvisvar fyrir 65 árum að sá tími myndi koma að slíkt væri á dagskrá.
Rússar, rétt eins og Bandaríkjamenn á sínum tíma, sjá tækifæri og hag þeirra sjálfra fólgna í því að láta til sín taka með fjárfestingum í Evrópu og fá með því aukin áhrif þar.
Nú er spurningin hvort það sama gerist og 1947 að þjóðirnar, sem aðstoða á, slái hendinni á móti því af því að sá sem hjálpar muni hagnast á því, beint eða óbeint, rétt eins og sá sem hjálpað er.
Aðstæður eru hins vegar aðrar nú en 1947. Nú liggur ekkert járntjald um álfuna þvera og ekkert Kalt stríð í gangi. Þar að auki er ekki um óafturkræfa aðstoð eða gjöf að ræða eins og 1947 heldur fjárfestingar eða jafnvel lán, sem ekki verða taldar gjafir.
Þar af leiðandi ætti síður að vera hætta á því að boðinu verði hafnað nú en fyrir 65 árum.
Þess má geta að engin þjóð Evrópu fékk eins mikla Marshallaðstoð á hvern íbúa og við Íslendingar.
Það mun ætíð verða svartur blettur á sögu þjóðarinnar, því að við voru líkast til eina Evrópuþjóðin sem hagnaðist fjárhagslega á stríðinu en margar hinnar þjóðanna voru með lönd sínu í rústum.
![]() |
Rússar bjóða Evrópu aðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2011 | 15:12
Lengja austur-vestur-brautina ?
1956 kom fram í viðtali við þáverandi flugmálastjóra, Agnar Koefoed-Hansen að það helsta sem gæti bætt Reykjavíkurflugvöll væri að lengja austur-vestur brautina til vesturs.
Ástæðan er einföld. Aðflug og fráflug á þessa braut er ákjósanlegt að því leyti að í austurátt liggur ferillinn yfir auð svæði í Öskjuhlíð og Fossvogsdal og til vesturs út á Skerjafjörð.
Síðan eru liðin tæp 56 ár og enn í dag yrði þetta afar mikil bót, því að þá væri hægt að stytta norður-suður brautina, beina mestöllu flugi frá því að fara yfir Kvosina til norðurs eða Kársnes til suðurs auk þess sem losna myndi rými fyrir byggingar húsa.
Best af öllu væri þó að leggja núverandi norður-suður braut niður og gera aðra mun styttri í staðinn, sem lægi frá núverandi skýli nr. 4 og út í Skerjafjörð þar sem áður var olíustöð Skeljungs.
Flug myndi þá alfarið leggjast af yfir Kársnes og að mestu yfir Kvosina og losna myndi talsvert rými í Vatnsmýri og vestan við Háskóla Reykjavíkur til húsbygginga.
En líkast til eru engir peningar til fyrir svona þarfar breytingar og því síður sýnist manni verða fallist á að lækka tré á hluta skógarins í Öskjuhlíð.
Enda virðast tré, og helst framandi barrtré eða aspir, sem ná sem allra mestri hæð, að vera orðnar heilagar kýr, hvar sem hægt er að planta þeim, því að íslenska birkið, birkikjarrið eða bara grasið, virðast ekki vera nógu fínn eða flottur gróður. Erlent skal það vera.
Afleiðingin af síhækkandi skógi barrtrjáa í aðflugsstefnu austur-vestur brautarinnar verður aukin flugumferð um norður-suður brautina og oft í erfiðum hliðarvindi auk flugtaka til austurs yfir skóginn háa, flugtök sem verða sífellt nær mörkum öryggis eftir því sem trén verða hærri.
En trén, eins há og hægt er, munu fá forgang yfir flugöryggið.
Enginn virðist pæla í því hvort það sé algert skilyrði fyrir útivist og gróðri í þessari aðflugslínu að hafa trén sem allra hæst og mest framandi í íslensku landslagi, hvort enginn annar gróður komi til greina og hvort hlutföllin á milli barrskógar og annars gróðurs séu æskileg í Öskjuhlíðinni.
Tilvist borga byggist á samgöngum, líka tilvist Reykjavíkur, og ef líkja má samgöngum við vef köngulóar eru flugsamgöngurnar þráðurinn að ofan.
En svo er að sjá að margir borgarfulltrúar séu búnir að gleyma þessu og fylgi fram rökum, sem myndu ekki aðeins réttlæta að leggja flugvöllinn niður og flytja þá starfsemi til Keflavíkurflugvallar, heldur myndu sömu rök duga um það að leggja höfnina niður og flytja þá starfsemi til Suðurnesja, af því að hægt yrði að byggja svo mikið af íbúðabyggð á því frábæra svæði til slíks, sem hafnarsvæðið er.
Og ekki má gleyma Miklubrautinni sem tekur svæði, sem er rúmlega helmingur þess sem flugvöllurinn tekur. Þar mætti með sömu rökum reisa íbúðabyggð á langbesta svæði borgarinnar fyrir slíkt og beina umferðinni annað.
Æpandi verkefni blasa við í landi okkar varðandi það að stöðva ofbeit og gróðureyðingu og klæða það land gróðri sem blásið hefur upp. En skógræktin getur eins og annað farið út í öngstræti ef ekkert er hugað að því hvort rækta eigi hvaða tré sem er hvar sem er á saman tíma og enn er að finna stór landsvæði þar sem landgræðsla er sannanlega bráðnauðsynleg og þörf, en skortir fé til að snúa vörn í sókn, vilja til að breyta landnýtingu, eða hvort tveggja.
![]() |
Fá ekki að fella tré í Öskjuhlíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.12.2011 | 11:17
Frægð að endemum er vond frægð.
Líklega eru það þrjú atriði sem skapa Íslandi mesta frægð um þessar mundir: Gosið í Eyjafjallajökli, Hrunið og Björk.
Hrunið mun lengi loða við okkur, jafnvel þótt önnur hrun og stærri verði á efnahagssviðinu víða um heim. Ástæðan er sú að íslenska hrunið kom fyrst og er því nefnt svo oft þegar svona mál ber á góma.
Ég man eftir skömmtunar- og haftatímabilinu í lok stríðsins sem hófst 1948 og stóð að mestu til 1960.
Þá var uppi hávær krafa um að kaupmáttur launa yrði sá samai og hann hafði verið í lok stríðsgróðaáranna 1947 þótt allir gætu séð að það gróðæri hafði verið dæmalaust og gæti ekki komið aftur.
Ríkisstjórninni 1947-49 var bölvað í sand og ösku og henni fundið allt til foráttu og krafist betri kjara, að allt yrði eins og það var 1947.
Stjórnarskipti 1950 breyttu engu um það, því að engin stjórn gat endurheimt stríðsgróðaástandið.
Margt frá þessum tíma minnir mig á ástandið nú. Nú er allt miðað við árið 2007, tekjur, mannfjöldi, atvinna og hvað eina.
Það er talið hið versta mál að kaupmáttur skuli vera svipaður og hann var við upphaf gróðærisbólunnar 2002, en mig minnir raunar að það hafi ekki ríkt neitt sérstakt hallæri í landinu það ár.
Að vísu verður að taka það stóra dæmi með í reikninginn að skuldir heimila og fyrirtækja hafa margfaldast og eru að sliga þjóðfélagið. En skuldirnar duttu ekki af himnum ofan yfir okkur. Við tókum lánin sjálf og máttum þó vita að kolskakkt gengi og uppskrúfað verð hlutabréfa gæti ekki enst til langframa.
Nú eru niðurstöður skoðanakannana túlkaðar þannig að þjóðin heimti aftur til valda þá sem stóðu mest að uppbyggingu gróðærisbólu stjórnlausrar útþenslu stóriðju- og fjármálakerfisbólunnar.
"Gef oss 1947 aftur!" gæti hafa verið ákallið sem hljómaði fyrir rúmum 60 árum.
Í dag gæti ákallið verið: "Gef oss 2007 aftur!" "Gef oss aftur það gríðarlega traust sem umheimurinn hafði á okkur 2007!"
En þegar rýnt er í tölurnar í skoðanakönnunum sést að allt niður í helmingur aðspurðra gefur ekki svar og að stjórnarandstaðan nýtur næstum jafn lítils trausts og stjórnarmeirihlutinn.
Við þessar aðstæður og á meðan Hrunið er einn af þremur helstu hornsteinum þess sem útlendingar vita um okkur, þar engan að undra að Ísland skorti traust, sama hvað hver hrópar og krefst.
Það var botnlaust óraunsæi og ábyrgðarleysi sem skóp Gróðabóluna og Hrunið. Það er sams konar óraunsæi og ábyrgðarleysi sem virðist enn lifa svo góðu lífi hjá okkur, meðal annars með því að trúa á sömu stóriðju- og virkjanaæðisgræðgina og trúa á það að Ísland geti bara rétt si svona öðlast forna frægð trausts á íslensku efnahagslífi.
Stundum er sagt að slæm auglýsing sé betri en engin auglýsing. Ég leyfi mér að efast um það. Frægð að endemum er vond frægð.
![]() |
Ísland skortir traust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)