Minnst 600 megavött, takk !

Upphaf stóriðjudraumanna sem ólu af sér nær tafarlausar byggingaframkvæmdir við álver í Helguvík voru svo dæmalaust mikið í stíl við annað sem kennt hefur verið við árið 2007 þegar þetta komst allt á mestan skrið.

Þá voru reistir hærri skýjaborgir og loftbólukastalar hér á landi en nokkurn hafði órað fyrir að væri hægt, en er best lýst í eflingarmyndbandi Kaupþings þar sem boðuð er trú á mátt íslenskra ofurmenna á andlega sviðinu sem sé langt fyrir ofan það sem þekkst hafi fyrr, algerlega ný hugsun og snilld, "Kaupthinking". 

Með nýrri snilligáfu er hægt að tvöfalda hvað sem er á hverju ári, vexti fjármagnsins og gróðans eru engin takmörk sett, -, já, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð...

Byrjað var í bókstaflegri merkingu að reisa skýjaborgina í Helguvík, áður en búið var að útvega orku og finna út hvort hún væri yfirleitt til,  áður en búið var að semja við tólf sveitarfélög um háspennulínur, vegi og virkjanamannvirki, hvað þá að verið væri að hugsa um endingu orkunnar eða afleiðingar orkuþurrðar fyrir komandi kynslóðir þegar þar að kæmi.

Ný lögmál hinna íslensku ofurmenna andans voru í gildi, sama eðlis og  "Kaupthinking". 

Aðalatriðið var ekki hvort orkuverðið væri fyrir neðan allt velsæmi, heldur hitt að selja eins hroðalega mikið af henni og unnt væri og hrinda af stað eins ofboðslega miklum framkvæmdum og unnt væri til að skapa með virkjana- og stóriðjuframkvæmdunum þúsundir starfa.

Ekkert var verið að spá í það þótt þær sömu þúsundir yrði atvinnulausar eftir örfá ár þegar framkvæmdunum lyki, því að upp myndu spretta ný risaálver, sem nýttu alla þá orku sem hægt væri að kreista út úr landi okkar, skítt með eyðileggingu náttúruverðmæta og það að ryðja öðrum kaupendum burtu.

Rétt eins og "Kaup-thinking" hafði rutt úreltum fjármálalögmálum í burtu, ruddi trúin á takmarkalausan vöxt álframleiðslu og virkjanir úreltum lögmálum um takmörk orkulinda í burtu.

Á fróðlegum fundi fyrir þremur árum upplýsti fulltrúi Norðurorku að ekki væri hægt að reka álver nú á tímum með arði nema það framleiddi minnst 350 þúsund tonn á ári og þyrfti minnst 600 megavött.

Ef nú verður gengið til verka við skýjaborgina frá 2007 sem lífga á úr dái, mun lítt gagna að uppfylla orkusölusamning Norðuráls og HS Orku, sem hljóðar upp á aðeins hluta af því sem í raun á að krefjast handa álguðinum.

Þegar þar að kemur verða Íslendingar uppi við vegg í alls ófærri samningsaðstöðu þar sem búið er að slá föstu að aðeins einn kaupandi kemur til greina og getur sett stólinn fyrir dyrnar þegar honum hentar.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur nýlega lýst því hve arfavitlaus sú söluaðferð er að bjóða í upphafi aðeins einum stórum kaupanda hið umsamda til sölu. Með því verður aðstaða seljandans vonlaus.

Mun betri staða komi upp ef mörgum smærri hugsanlegum kaupendum er boðin orkan sem þeir geti síðan keppt um að kaupa. 

Þetta, að leika af sér alveg í byrjun,  er hins vegar það sem áltrúarmenn sækja svo fast í sambandi við álverið í Helguvík og nú munu þeir eflast í því sem aldrei fyrr.

Skítt með það þótt virkjun í Eldvörpum muni aðeins flýta fyrir því að klára orkuna á Svartsengissvæðinu enn fyrr en ella. Skítt með það þótt Reykjanesskaganum öllum verði umturnað með virkjanamannvirkjum.

Skítt með það að ekki er gert ráð fyrir að orkan endist nema í 50 ár og að eftir það muni ekki aðeins verða orkuskortur til rafmagnsframleiðslu, heldur skortur á heitu vatni fyrir húsahitun. 

Og skítt með það að að með því að byrja í upphafi á að bjóða alla orkuna einum kaupanda er tryggt að hún verði seld á smánarverði.  

Skítt með það þótt ekki sé einu sinni til reiðu þau 150 megavött sem þarf fyrir fyrstu tvo áfanga virkjunarinnar. 

Já, skítt með það að nú munu engir smærri kaupendur bjóða hærra verð fyrir orkuna, sem þeir sjá að þegar er búið að ráðstafa allir og miklu meira en það. 

 

P. S. Í fyrstu frétt Stöðvar tvö í kvöld var upplýst að nú gæti allt farið á fulla ferð og að álverið myndi byrja að framleiða ál eftir aðeins tvö ár. Bjargað hefði verið "gríðarlegum hagsmunum" með því að tryggja 300 milljarða fjárfestingu sem væri jafn mikil og vegna Kárahnjúkavirkjunar. Já, það er búið að "bjarga þjóðinni" samkvæmt þessum fréttaflutningi rétt eins og "þjóðinni var bjargað" með úrskurði Sivjar um Kárahnjúkavirkjun í desember 2001. Fréttin á Stöð 2 varpaði ekki upp einni einustu spurningu varðandi það sem kemur fram hér að ofan. Nei, - nýtt gróðæri á beinni og breiðri stóriðjuhraðbautinni sem blasir við framundan!


mbl.is Verða að afhenda orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft er ekki allt sem sýnist.

Þótt við lifum á öld internetsins, facebook og stórkostlegra framfara í fjarskiptum og samskiptum, fer því fjarri að allt sé sem sýnist.

Öflugir valdahópar víða um lönd og einvaldar og harðstjórar í einstökum ríkjum nota öll brögð til að þess að hagræða fjölmiðlun, veitingu upplýsinga og miðlun mismunandi sjónarmiða eftir því sem þeim hentar.

Um allan heim er að vísu vitneskja um hið raunverulega ástandi í Norður-Kóreu, - en á hinn bóginn fá 23 milljónir landsmanna þess lands lítið að vita um annað en að allir verði társtokknir næstu ellefu daga sem þjóðarsorgin skal ríkja þar vegna fráfalls hins mikla leiðtoga og mannvinar, Kim Jong-il.

Vísa í því efni í næsta bloggpistil minn á undan þessum þar sem þess er minnst, að einhver grimmasti harðstjóri sögunnar var mærður við andlátið sem stórmenni sem "var elskaður og dáður meira en flestir menn í mannkynssögunni..." og "...mat manngildið ofar öllu öðru". 

Í Rússlandi er nýlega búið að ryðja úr vegi einum af helstu upplýsingamiðlum í hópi blaðamanna þar í landi, og í okkar vestrænu upplýsingasamfélögumgeta valdhafar, ráðamenn og stórfyrirtæki oft á tíðum haft mikil áhrif á fjölmiðla. 

Þess vegna er svo brýn þörf á aðhaldi óháðra fjölmiðla. Hún hefur sjaldan verið meiri þrátt fyrir alla samskiptatæknina.

Þess vegna er starfsemi uppljóstrara, allt frá Washington Post á tímum Watergate málsins til Wikileaks í dag svo mikilvæg. 

Uppdiktaðar ástæður fyrir Írakstríðinu á sínum tíma voru dæmi um hagræðingu og tilbúning staðreynda sem valdhafar komust upp með og verða víti til varnaðar. 


mbl.is Kim Jong-il látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hinn mikli leiðtogi.."/"...mat manngildið ofar öllu."

Sá glæsileiki, sem látinn er umlykja líf og starf helstu einvalda og harðstjóra heimsins nær oftast út yfir gröf og dauða í heimalöndum þeirra. Umhugsunarefni er hve langt er hægt að ná við að fegra og breiða yfir háttsemi þeirra í fjarlægum löndum, jafnvel í okkar eigin landi. 

Þegar Kínverjar tala um "hinn mikla leiðtoga" sem sé fallinn frá eru notuð þar og í löndunum báðum stór og jákvæð lýsingarorð um þennan einvald sem hélt þjóð sinni í helgreipum ófrelsis, kúgunar og eymdar meðan hann var við völd og kórónar síðan allt með því að láta starfið ganga í erfðir til sonar síns eins og gerðist hjá einvaldskonungum fyrri alda, því að nú hefur þessi vegtylla gengið í erfðir tvívegis. 

Og í ofanálag er sonurinn bæði vegna reynsluleysis og mjög líklega einnig vegna hæfileikaleysis og firrts uppeldis lítt fær um að taka við valdataumunum þannig að Austur-Asía og heimurinn allur er titrandi á beinunum yfir því hvað kunni nú að koma uppá. 

Við Íslendingar höfum svo sem ekki allir sloppið við persónudýrkun á harðstjórum, þótt nokkuð sé um liðið frá því að þeir Hitler og Stalín áttu sauðtrygga aðdáendur og fylgismenn hér.

Fáir voru þeir Íslendingar á þeim tíma sem ekki áttu einhverja ættingja sem trúðu á "Gerska ævintýrið" í blindni og gátu ekki séð neitt annað en fullkomleikann þegar kommúnisminn var annars vegar. 

Þegar Stalín féll frá voru skrifaðar hástemmdustu lofgreinar um látinn mann sem um getur í sögu okkar. 

Grípum niður í leiðara Þjóðviljans 7. mars 1953 þar sem ekki er aðeins talað fyrir munn Íslendinga, heldur einnig annarra þjóða:

"...Með klökkum huga og djúpri virðingu hugsa allir þeir, sem berjast fyrir sósíalisma á jörðu til hins ógleymanlega látna leiðtoga...."  

"...Við minnumst hetjunnar..."   "...sem var elskaður og dáður öllum fremur..."

"...var elskaður og dáður meira en flestir menn í mannkynssögunni og naut slíks trúnaðartrausts, sem fáir munu nokkru sinni hafa notið en lét sér þó aldrei þá ást og aðdáun til höfuðs stíga, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru..."

"Gagnvart mannlegum mikilleik þessa látna baráttufélaga drúpum við höfði..." 

Búast má við svipaðri mærð í heimalandi Kim Jong-Il að honum gengnum. 

Annað hljóð var komið í strokkinn varðandi Stalín í Sovétríkjunum sjálfum aðeins þremur árum eftir lát hans, þegar Krústjoff flutti fræga leyniræðu sína um hina stórfelldu glæpi og kúgun foringjans mikla sem kostaði minnst á annan tug milljóna manna lífið. 

Aðeins þremur árum fyrr hafði hann verið sagður hafa "metið manngildið ofar öllu öðru," maðurinn sem sagði: "Að drepa einn mann er morð, - að drepa milljón er bara tala." 

Þannig tekst einvöldum oft í krafti miskunnarlausra nota á valdi sínu að kasta ryki í augu margra, jafnvel alls mannkynsins. Og þarf ekki einvalda til heldur valdahópa sem hafa tök á að leyna staðreyndum, bjaga þær eða búa til upplogin atriði. 

Eitt af mörgum dæmum þess hve lengi hægt er að komast upp með slæma hluti er það, að lengst af var Ceausescu einvaldur Rúmeníu býsna vel þokkaður víða um heim, bæði austan að vestan járntjaldsins. 

Þetta tókst honum með því að sannfæra ráðamenn í Kreml um að þrátt fyrir ýmis konar skoðanaágreining við þá, þá gætu þeir treyst því að hann héldi tryggð við kommúnismann þannig að Varsjárbandalagið og Sovétríkin þyrftu ekkert að óttast í því efni.

En jafnframt tókst honum að sannfæra vestræna ráðamenn að hann ræki sjálfstæða stefnu, einn þjóðarleiðtoga í leppríkjum Sovétríkjanna. (Tító stundaði að vísu ákveðna hlutleysisstefnu í Júgóslavíu) 

Loks féll Ceausescu af stallinum og í ljós komu ógnarverk hans. Hann var að vísu tekinn af lífi á ómannúðlegan hátt, slíkt var það hatur á honum, sem hann hafði kveikt. 


mbl.is Umhugað um stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband