2.12.2011 | 20:27
Norðurland skelfur stundum.
Harðir jarðskjálftar geta komið á Norðurlandi eins og dæmin sanna. 1934 varð harður jarðskjálfti við Dalvík sem olli miklum skemmdum á húsum og mannvirkjum þar.
1962 varð stór skjálfti út af Skagafirði, að mig minnir meira en 6 stig, enda fannst hann greinilega í Reykjavík.
Ég man að við hjónin sátum við borð uppi á 12. hæð í Austurbrún og sáum ljósakrónu rugga með blokkinni.
Þá voru svona há íbúðarhús nýjun hér á landi og hringt var í okkur frá dagblaðinu Vísi til að forvitnast um það, hvernig skjálftinn hefði verið þarna uppi á 12. hæð.
![]() |
Jarðskjálfti við Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.12.2011 | 20:16
Næsta spurning hlýtur að vera: Hægt að leigja land?
Huang Nubo bað um undanþágu til að fá að kaupa hina landmiklu jörð Grímsstaði á Fjöllum og fékk neitun.
Á honum er að skilja að hann undrist að ráðuneytið skyldi ekki ræða við hann um aðra möguleika, svo sem að leigja land.
Ég fæ ekki séð að það hafi verið hlutverk ráðuneytisins að breyta þessum samskiptum úr umfjöllun um einfalda sölu í samningaviðræður um allt aðra leið til að fá að fjárfesta á jörðinni, heldur sé það í verkahring Nubos nú með aðstoð góðra ráðgjafa að stinga upp á einhverri annarri leið og þá í viðræðum við núverandi eigendur jarðarinnar, sem gerðu við hann samning um kaup hans á jörðinni.
Sjálfur minnist Nubo á leigu og ef áhugi hans beinist að því að fjárfesta í ferðaþjónustumannvirkjum og þjónustu á staðnum, er eðlilegast að hann kanni aðra möguleika á því að gera það en þá að eignast jörðina, til dæmis með því að leigja land.
Aðalaðilar þess mál eru annars vegar Nubo og hins vegar landeigendurnir, áður en kemur til kasta íslenskra stjórnvalda. Það sýnist mér að minnsta kosti.
![]() |
Gagnrýnir vinnubrögð stjórnvalda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2011 | 09:20
Hin lúmska, hægfara sókn.
Offita er ákaflega lúmskur og hægfara sjúkdómur. Þarf ekki annað en að skoða algengar tölur í því sambandi.
Hjá langflestum er þetta hægfara og jöfn þróun, sem stendur yfir í marga áratugi.
Algengt er að þyngingin hefjist um þrítugt og gerist svo hægt að fæstir verða hennar varir. Hver tekur eftir því þótt manneskja, sem maður þekkir og hittir oft og jafnaðarlega, þyngist um eitt kíló á einu ári?
Breytingin, sem verður á hverju ári þegar þetta gerist svona rólega, nemur ekki nema innan við 100 grömmum á hverjum mánuði og dreifist um líkamann, þannig að hún er allt annars eðlis en til dæmis ef farið er til Kanaríeyja eða Flórída að vetrarlagi og komið heim kaffibrúnn eftir að hafa verið fölur og fár í skammdeginu hér heima.
En ef þyngingin nemur að jafnaði 100 grömmum á hverjum mánuði og byrjar um þrítugt, er hún orðin samtals tæplega 50 kíló um sjötugt !
Best er að gera sér grein fyrir þróuninni nógu snemma og setja fram langtímamarkmið.
Setjum sem svo að aðgerðir gegn þyngingunni hefjist um fimmtugt þegar hún nemur alls um 25 kílóum, er aðalatriðið að fara ekki á taugum og vaða í harðan megrunarkúr, sem oft ber takmarkaðan árangur til langframa eins og dæmin sanna, heldur vinna á þyngingunni jafnt og þétt.
Ef það takmark er sett að léttingin verði tvisvar sinnum hraðari en þyngingin var, eða 200 grömm á mánuði, verður léttingin 2,4 kíló á ári og fyrri þungi næst eftir tíu ár.
Raunar er það eðlilegt að fólk þyngist um nokkur kíló með aldrinum, þannig að í þessu tilfelli væri æskilegum árangri náð á nokkrum árum.
Lífið er langhlaup og flest viðfangsefni þess einnig.
![]() |
Langar þig að vinna bókina Hvers vegna fitnum við? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)