Víða svipuð saga.

Þegar á brattann er að sækja í efnahagslífi og þjóðlífi í löndum heims dalar yfirleitt álit fólks og traust á ráðamönnum og stjórnmálamönnum. Þetta hefur gerst hér og gerist nú líka í Bandaríkjunum.

Það er ágætt að vera bjartsýnn og trúa á framtíðina, en sú bjartsýni og sú trú má ekki breiða yfir það í hverju erfiðleikarnir, sem framundan eru, eru fólgnir og hættulegt er að gefa of stór loforð, sem minni líkur en meiri eru fyrir að hægt sé að standa við. 

Winston Churchill sagði í einni af frægustu ræðum sínum að hann hefði ekkert að bjóða nema blóð, strit, tár og svita. Hann dró ekkert undan með það að baráttan gæti orðið löng og ströng en klykkti þó út með því að segja að takmarkið væri engu að síður aðeins eitt: Sigur og ekkert annað en hreinn sigur, sama hvað hann ætti eftir að kosta. 440px-official_portrait_of_barack_obama_1127346.jpg

Þegar Obama hélt hina frábæru ræðu sína "Já, við getum það!" ("Yes, we can!") blés hann mörgum bjartsýni í brjóst.

En standa á honum spjótin vegna vonbrigða með árangurinn og hann var í mikilli vörn í viðtali í 60 mínútum á dögunum.

Þegar hann var inntur eftir því af hverju ekki einn einasti Wall-street fjármálamaður hefði verið ákærður svaraði hann því til að enginn þeirra hefði brotið lög, - lögin hefðu verið gölluð og nú væri búið að laga þau. 

Margir telja sig sjá veikleika hans gagnvart ofurvaldi fjármagnsins, sem hann þarf á að halda og fá frá fjármálajöfrum og stórfyrirtækjum til að standa undir kosningabaráttu, alveg eins og allir þeir þurfa, sem bjóða sig fram af einhverri alvöru til embættis forseta Bandaríkjanna. 

Svar hans við spurningunni um ábyrgð fjármálavaldsins var í máttleysi sínu í mótsögn við andann í "Já, við getum það!"-ræðunni frægu. 

Hann benti á það að stefna republikana um dýrð sem mests óhefts frelsis hefði valdið hruninu og að sérkennilegt væri ef fólk vildi þá aftur til valda. 

En allt kemur fyrir ekki.  Vonbrigði bandarískra kjósenda bitna mest á ráðamönnunum, sem eru við völd en einnig almennt á stjórnmálamönnum líkt og í fleiri löndum, - um það bera tölurnar í skoðanakönnunum vitni, sem sýna að samt hafa hugsanlegir mótframbjóðendur Obama ekki meira fylgi en hann. 

Obama reynir að bera sig vel og lofa auknum krafti á næsta ári, en því nær sem dregur kosningum, því meira verður hann "lömuð önd" (lame duck) eins og ástand Bandaríkjaforseta á kosningaári er kallað. 

Hann er svo sem ekki fyrsti forsetinn sem illa lítur út fyrir í aðdraganda kosninga. 

Þannig átti Harry S. Truman mjög undir högg að sækja í aðdraganda kosninganna 1948 og stóð svo illa að vígi, að engum, bókstaflega engum nema honum sjálfum datt í hug annað en að hann myndi tapa stórt fyrir Dewey, frambjóðanda Republikana. deweytruman12.jpg

Allir fjölmiðlar voru með fréttirnar af sigri Deweys tilbúnar þegar að kosningum kom, að eitt dagblaðið, Chicaco Daily Tribune,  setti tap hans í kosningunum sem stórfrétt á forsíðu sína áður en búið var að telja, en varð síðan að éta það ofan í sig. 

Um morguninn gat Truman því veifað rogginn blaðinu með risafyrirsögnninni um að Dewey hefði unnið. 

Allt getur því gerst, það sýnir sagan. 

Næsta ár á eftir að verða mjög langt ár í bandarískri pólitík og enginn dans á rósum fyrir forsetann, sem fór af stað með svo miklum glæsibrag og sóknarkrafti en er nú lagstur í erfiða vörn.

P. S.

Af tæknilegum ástæðum fóru tvær eins myndir af Obama inn á síðuna og ég kann ekki á það hvernig á að koma annarri þeirra út aftur. Kannski fyrirboði um að hvorki verði honum komið úr embætti fyrir né eftir kosningar? Wink

,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,


 440px-official_portrait_of_barack_obama.jpg


mbl.is Fáir ánægðir með Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn óöruggasti staðurinn til að vera á.

Það er löngu viðurkennt að hinn félagslegi þáttur reykinga er sá, sem reynist því reykingafólki einna erfiðastur sem vill reyna að hætta að reykja.

Þannig er miklu erfiðara fyrir annað hjóna að hætta ef bæði hafa reykt og hitt heldur áfram að reykja. 

Helst þurfa þau að taka höndum saman og hætta bæði samtímis. 

Ég fylgdist sem vinur með Bubba Morthens þau misseri sem hann hafði sigrast á öllum vímugjöfunum nema þeim erfiðasta, nikótíninu. 

Eins og oft er, hafði hann fengið leyfi til að skilja nikótínið eftir og halda áfram að reykja til þess að gera það ekki of erfitt að hætta við alla hina vímugjafana. 

Þegar frá leið eftir endanlegan sigur Bubba þótti honum æ súrara í broti að geta ekki sigrast á nikótíninu og gerði atrennur til þess að koma þeim djöfli líka frá. 

Frægt var þegar DV birti "paparazzí- mynd með fyrirsögninni "Bubbi fallinn" þar sem hann sást vera byrjaður að reykja. 

Bubbi fór í mál við blaðið vegna þess tjóns sem myndin olli varðandi traust á honum, því að ekki var nóg með að lesa þurfti sig inn í frétt um málið til að komast að hinu sanna, heldur var á þessum tíma birt dagleg smáauglýsing DV í Fréttablaðinu, víðlesnasta blaði landsins, þar sem enga útskýringu var að fá. 

Bubbi vann málið verðskuldað, lagði aftur af stað inn í hringinn til þess að rota nikótínófreskjuna í eitt skipti fyrir öll. 

Hann sagði mér að eitt það allra erfiðasta á þessum baráttutíma sínum hefði verið að fara í bíó þar sem mikið var reykt á hvíta tjaldinu og hefði hann orðið að forðast slíkar bíómyndir. 

Sennilega eru þær svona lúmskar vegna þess að þegar setið er í myrkvuðum sal og horft með innlifun á góða bíómynd, eru áhrifin einráð, ótrufluð og yfirþyrmandi. 

Þess vegna er svo mikilvægt að kvikmyndagerðarmenn sýni ábyrgð í þessum efnum án þess að þurfi að beita á þá ritskoðunarklippum. 

En það er ekki alltaf auðvelt, sérstaklega ekki ef sýnd eru atriði frá mestu reykingatímunum. 

Ef ég til dæmis skrifaði ævisögu mína og gerð yrði mynd eftir henni og reyndi að fanga þá stemningu sem var þegar faðir minn sat um kvöld og tefldi við Baldur Ásgeirsson heimilisvin okkar, meðan ég spilaði fyrir þá sérvaldan jass af hljómplötum og virti fyrir mér hinn stóra og ógnvekjandi öskubakka sem Baldur gaf pabba með merki SS-sveitanna, hauskúpu og krosslögðum leggjum, yrði óhjákvæmilegt að sveipa þá mynd, sem gefin væri, með þykkum tóbaksreyknum sem fyllti herbergið þar sem þeir tottuðu pípu, vindla og sígarettur. 

Það að reykingafólk þurfi að fara út fyrir húsdyr til að reykja virkar vafalaust hamlandi á reykingar þeirra, en á móti kemur óhagræðið af því að það eru oft svo óskaplega skemmtilegir vinnufélagar sem verða nánari og betri kunningjar í þessum hópum reykingamanna og efla þar með það félagslega áreiti sem reykingarnar hafa í þessum hópum, þar sem þetta lítur tilsýndar út eins og nokkurs konar helgar trúarsamkomur sem efla og treysta reykingaböndin. 

 


mbl.is Baráttan um reykingar í kvikmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúmskasta færið: Krap og "tilbúið laumukrap".

Svo vildi til að ég var á næsta bíl fyrir aftan þann, sem hlekktist á á Reykjanesbrautinni í morgun og var á leið til Reykjavíkur.

Aðdragandinn var athyglisverður. Á leiðinni suðureftir tók ég eftir því að saltdreifingarbíll var á leiðinni norður brautina og greinilegt að verið var að dreifa salti á brautina.

Á leiðinni til baka lenti ég fyrir aftan bílstjóra sem ók, að mér fannst að óþörfu, langt fyrir neðan leyfðan hraða. Skömmu síðar var kominn bíll á eftir mér og greinilegt að stefndi í bílalest með "lestarstjóra" fremstan. 

Hraðinn var mun minni en aðstæður hægra megin á brautinni gáfu tilefni til, en þeim megin óku bílarnir og voru búnir að mynda ágæt hljólför, en vinstri akreinin var hins vegar snævi þakin eftir snjóél, - og vegna þess að saltdreifingarbíll hafði áður farið þar yfir vissi ég að undir snjólaginu væri krap, sem væri mun varasamara en hreinn snjór vegna flotmagnsins sem krap býr yfir. 

Þegar færi gafst ók ég fram úr lestarstjóranum og hélt áfram á eðlilegum hraða, miðað við aðstæður. Nokkru síðar var kominn bíll alveg upp að mér fyrir aftan mig og virtist vilja fram úr.

Sá hafði greinilega lent á eftir lestarstjóranum og orðið óþolinmóður.

Ég vék því eins veg til hægri og unnt var hleypti honum fram úr en tók eftir því að hann fór alveg út á vinstri helming brautarinnar.

Þegar hann var kominn um 50 metra á undan mér sá ég að hann ætlaði að beygja aftur til hægri inn í hjólförin. 

En þá byrjaði bíll hans að skrika til vinstri að aftan sem olli því að bíllinn snerist og fór beint út í handriðið hægra megin. 

Við það fékk hann á sig mikið högg og kastaðist í heilan hring uns hann stöðvaðist vinstra megin á veginum. 

Ég átti fullt í fangi með að reikna út hvernig hringsnúningnum lyktaði og komast hjá árekstri. 

Ég lagði bíl mínum á öruggan stað og kom bílstjóranum til hjálpar, sem reyndist ómeiddur og gat hringt úr farsíma til að fá aðstoð.  

Ég þreifaði á hjólbörðum bílsins og fann, að þau voru að vísu lítið slitin en með mjög þéttu mynstri og þakin krapa.

Ástæður slyssins voru ljósar: Krapið undir þunnri snjóþekjunni var þétt og blautt af salti og bíllinn hafði "flotið upp" eins og það er kallað og orðið stjórnlaus. 

Mynstrið var þétt á þessum óhappsbíl, en á mínum bíl miklu grófara og það réði úrslitum auk þess að bílstjórinn hafði greinilega ekki áttað sig á hættunni sem hið ósáða krap olli og einnig ofmetið getuna til að beygja í þessu færi. 

Þarna blasti við dæmi um að söltun í snjókomu og éljagangi getur skapað hættulegar aðstæður sem bílstjórinn í þessu tilfelli gat ekki séð fyrir af því að hann var að koma inn á brautina án þess að vita að búið var að búa til krap með söltun undir þunnu snjólagi sem gaf alranga mynd af aðstæðum. 

Ég tel að í svona éljagangi eigi það að vera aðalatriðið að ryðja brautina sem oftast en að forðast beri söltun, sem býr til óséða hættu. 

Ef saltað er ætti að salta miklu meira svo að tryggt sé að laumukrap myndist ekki, - annars að láta söltun alveg vera og skafa þeim mun meira. 

Síðan eru það "lestarstjórarnir" sem hleypa upp eðlilegu flæði umferðar, og skapa óróa meðal bílstjóra eins og ríkti í kringum hann á leið hans í morgun.

Ég er ekki viss um að nokkur framúrakstur hefði átt sér stað þarna ef ekki hefði verið búið að hleypa ástandinu upp með því að tefja fyrir eðlilegu umferðarflæði á eðlilegum hraða.  


mbl.is Hálka á Reykjanesbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins stóriðjan "bjargar þjóðinni" og Vestfirðingum!

Orðið "stóriðja" er íslensk þýðing á enska hugtakinu "heavy insdustry".  Hvergi í heiminum nema á Íslandi myndi fiskeldi vera nefnt "heavy industry". 

Af hverju flokka menn þá fiskeldi í Arnarfirði undir stóriðju? 

Jú, áltrúarmenn og stóriðjutrúarmenn reyna eins og hægt er að stjórna hugsunarhættinum og umræðunni með því að nota aðferðina, sem George Orwell lýsti svo vel í bók sinni "1984", að nefna hlutina öðrum nöfnum en þeir raunverulega ættu að hafa. 

Allt frá því á sjöunda áratugnum hefur það verið trúaratriði hér á landi að aðeins stóriðjan geti "bjargað þjóðinni".  Og ekki nóg með það, heldur hefur hugtakið "orkufrekur iðnaður" verið keyrður áfram sem það jákvæðasta sem hægt sé að bjóða okkur. 

Á öld, þar sem orkuskortur á eftir að verða aðalvandamálið er það hins vegar aðeins hlálegt að það jákvæðasta sem Íslendingar geti hugsað sér sé "orkufrek" starfsemi, þ. e., að það sé trúaratriði að nota orkuna í eins mikið orkubruðl og hægt er að hugsa sér. 

Stóriðjutrúarmenn mega ekki til þess hugsa að fiskeldi geti flokkast undir "eitthvað annað". 

Ef það verður gert verða engar vegabætur og allt í voða. Þess vegna verður að kalla fiskeldið "vestfirska stóriðju" og slá tvær flugur í einu höggi: Veita Vestfirðingum þá einu björgun sem er hugsanleg, sem er stóriðja og í annan stað að losna við það ófremdarástand að Vestfirðir verði áfram stóriðjulaus landshluti. 

Annað dæmi um það hvernig stóriðjutrúarmenn ráða orðanotkun er það upplegg, sem er í rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma. 

Búið er að negla það fast í umræðu síðustu aldar að orðið "nýting" sé lausnarorð sem leysi allan vanda. Ef það er ekki "nýting" er það neikvætt. 

Þar af leiðandi er virkjanakostum skipt í þrjá flokka:  Orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. 

Með því að setja dæmið svona upp er fyrirfram búið að gefa sér það að eini flokkurinn, sem sé einhvers virði peningalega og með að einhverju hafandi fyrir þjóðina sé "nýtingar"flokkurinn.  Verndarflokkurinn feli í sér dauðan sjálfan. 

Þetta er alröng nálgun sem nýtist stóriðjutrúarmönnum vel því að með réttu ætti verndarflokkurinn að heita "verndarnýringarflokkur."

En það virðist vera hulið Íslendingum að hægt sé að nýta náttúrugæði öðruvísi en að út úr því komi kíló eða tonn. 

Besta dæmið um verndarnýtingarflokk eru Gullfoss og Geysir.  Þessi tvö fyrirbæri hafa ekki verið virkjuð enn (þótt mikill sé áhugi sumra á því) heldur mala þau meira gull ósnortin en virkjuð sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. 

Raunar er orðið "virkjun" sem búið er að gera heilagt í hugum okkar Íslendinga, líka misvísandi. Það gefur til kynna að óvirkjað sé sama og ónýtt. 

 


mbl.is Stóriðja kalli á vegabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband