Víða svipuð saga.

Þegar á brattann er að sækja í efnahagslífi og þjóðlífi í löndum heims dalar yfirleitt álit fólks og traust á ráðamönnum og stjórnmálamönnum. Þetta hefur gerst hér og gerist nú líka í Bandaríkjunum.

Það er ágætt að vera bjartsýnn og trúa á framtíðina, en sú bjartsýni og sú trú má ekki breiða yfir það í hverju erfiðleikarnir, sem framundan eru, eru fólgnir og hættulegt er að gefa of stór loforð, sem minni líkur en meiri eru fyrir að hægt sé að standa við. 

Winston Churchill sagði í einni af frægustu ræðum sínum að hann hefði ekkert að bjóða nema blóð, strit, tár og svita. Hann dró ekkert undan með það að baráttan gæti orðið löng og ströng en klykkti þó út með því að segja að takmarkið væri engu að síður aðeins eitt: Sigur og ekkert annað en hreinn sigur, sama hvað hann ætti eftir að kosta. 440px-official_portrait_of_barack_obama_1127346.jpg

Þegar Obama hélt hina frábæru ræðu sína "Já, við getum það!" ("Yes, we can!") blés hann mörgum bjartsýni í brjóst.

En standa á honum spjótin vegna vonbrigða með árangurinn og hann var í mikilli vörn í viðtali í 60 mínútum á dögunum.

Þegar hann var inntur eftir því af hverju ekki einn einasti Wall-street fjármálamaður hefði verið ákærður svaraði hann því til að enginn þeirra hefði brotið lög, - lögin hefðu verið gölluð og nú væri búið að laga þau. 

Margir telja sig sjá veikleika hans gagnvart ofurvaldi fjármagnsins, sem hann þarf á að halda og fá frá fjármálajöfrum og stórfyrirtækjum til að standa undir kosningabaráttu, alveg eins og allir þeir þurfa, sem bjóða sig fram af einhverri alvöru til embættis forseta Bandaríkjanna. 

Svar hans við spurningunni um ábyrgð fjármálavaldsins var í máttleysi sínu í mótsögn við andann í "Já, við getum það!"-ræðunni frægu. 

Hann benti á það að stefna republikana um dýrð sem mests óhefts frelsis hefði valdið hruninu og að sérkennilegt væri ef fólk vildi þá aftur til valda. 

En allt kemur fyrir ekki.  Vonbrigði bandarískra kjósenda bitna mest á ráðamönnunum, sem eru við völd en einnig almennt á stjórnmálamönnum líkt og í fleiri löndum, - um það bera tölurnar í skoðanakönnunum vitni, sem sýna að samt hafa hugsanlegir mótframbjóðendur Obama ekki meira fylgi en hann. 

Obama reynir að bera sig vel og lofa auknum krafti á næsta ári, en því nær sem dregur kosningum, því meira verður hann "lömuð önd" (lame duck) eins og ástand Bandaríkjaforseta á kosningaári er kallað. 

Hann er svo sem ekki fyrsti forsetinn sem illa lítur út fyrir í aðdraganda kosninga. 

Þannig átti Harry S. Truman mjög undir högg að sækja í aðdraganda kosninganna 1948 og stóð svo illa að vígi, að engum, bókstaflega engum nema honum sjálfum datt í hug annað en að hann myndi tapa stórt fyrir Dewey, frambjóðanda Republikana. deweytruman12.jpg

Allir fjölmiðlar voru með fréttirnar af sigri Deweys tilbúnar þegar að kosningum kom, að eitt dagblaðið, Chicaco Daily Tribune,  setti tap hans í kosningunum sem stórfrétt á forsíðu sína áður en búið var að telja, en varð síðan að éta það ofan í sig. 

Um morguninn gat Truman því veifað rogginn blaðinu með risafyrirsögnninni um að Dewey hefði unnið. 

Allt getur því gerst, það sýnir sagan. 

Næsta ár á eftir að verða mjög langt ár í bandarískri pólitík og enginn dans á rósum fyrir forsetann, sem fór af stað með svo miklum glæsibrag og sóknarkrafti en er nú lagstur í erfiða vörn.

P. S.

Af tæknilegum ástæðum fóru tvær eins myndir af Obama inn á síðuna og ég kann ekki á það hvernig á að koma annarri þeirra út aftur. Kannski fyrirboði um að hvorki verði honum komið úr embætti fyrir né eftir kosningar? Wink

,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,


 440px-official_portrait_of_barack_obama.jpg


mbl.is Fáir ánægðir með Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Þór Hrafnsson

Mjög góð grein hjá þér Ómar, og gaman að sjá fleiri sem sjá hvað peninga öffiln raunverulega stjórna heiminum mikið.  Þrátt fyrir þetta stóra fjármála krass sem við sjáum ekki fyrir endann á..

Sveinn Þór Hrafnsson, 21.12.2011 kl. 00:23

2 identicon

er ekki obama vorkunn þar sem repúblikanar stöðva oft margt gegn auðvaldinu í senatinu þar sem þeir hafa meirihluta?

Ari (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 02:11

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það sem flestir, annaðhvort vilja ekki sjá, eða sjá það bara seinna er, að ALLT sem framkvæmt var í aðdraganda hrunsins, Vestanhafs, sem og á okkar litla skeri, var LÖGLEGT!!!!!!!!!!

Fá lög voru brotin, utan örfárra undantekninga. Það er HAUSVERKURINN MIKLI. Siðferði er ekki lög. Það sem var siðlaust, varðai ekki við lög. Það er ekki nóg að vera bara reiður, til að fá einhvern sakfelldan. Obama á ekki séns. Til þess hafa þeir er hruninu ollu, nú þegar séð til. "The power of money" er jú einu sinni "the power of money" og þar er og verður sterkast the USA.

Halldór Egill Guðnason, 21.12.2011 kl. 02:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fleygustu orð Vilmundar heitins Gylfasonar fá sífellt meira flug: "Löglegt en siðlaust".

Ómar Ragnarsson, 21.12.2011 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband