Eru Belgíumenn og Bandaríkjamenn "uppspunnar þjóðir" ?

Magnað er að heyra þau ummæli Newt Gingrich að það fólk, annað en Gyðingar, sem hefur búið í Palestínu, verði rænt landi sínu og sjálfsforræði vegna þess að utanaðkomandi fólk, sem telur sig hafa verið þjóð og meira að segja Guðs útvalin þjóð, eigi þar allan rétt, bara út á það að þeir hafi alltaf talið sig vera sérstaka þjóð.

Bandaríkjamenn eru samansafn innflytjenda frá öllum heimshornum og þá vaknar spurningin: Eru Bandaríkjamenn "uppspunnin" þjóð? 

Gætu Gyðingar þar af leiðandi tekið þar öll völd stofnað þar gyðinglegt ríki af því að þeir eru einir "þjóð" í álfunni? 

Hvað með Belgíu?  Hvað um Eþíópíu þar sem eru töluð 140 tungumál? 

Það má út af fyrir sig segja að til dæmis Norðmenn hafi ekki verið skilgreind þjóð í nútíma skilningi fyrr en eftir orrustuna á Stiklastöðum, af því að þeir sjálfir skynjuðu sig ekki sem þjóð fyrr en þá. 

En ég hygg að sagnfræðingar og þjóðfræðingar séu sammála um það að óumdeilanlegt sé að Norðmenn hafi verið sérstök þjóð í nútíma skilning að minnsta kosti eftir orrustuna við Stiklastaði. 

Sem sagt, frá þeim tíma sem þeir sjálfir skynjuðu sig sem þjóð. 

Ljóst er að það, að Ísraelsmenn fluttust til Palestínu og stofnuðu þar sérstakt ríki 1948, varð til þess að aðrir íbúar landsins skynjuðu sig sem þjóð, Palestínska þjóð, og hafa gert það síðan.

Af hverju máttu þeir ekki gera það úr því að Bandaríkjamenn og Norðmenn gerðu það á sínum tíma ?

 


mbl.is Gingrich segir Palestínumenn „uppspunna“ þjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði neitað að fara úr "viðrekstrarherberginu".

Ég er einn þeirra sem get borið vitni um það hve mikil fyrirmyndarstofnun St. Jósefsspítali var. Þurfti tvisvar að fara þangað í ristilspeglun til öndvegis læknis og sjúkraliðs og hafa fáar heimsóknir verið eins gefandi á alla lund.

Sem dæmi um góða þjónustu og atlæti má nefna að í spítalanum var sérstakt "viðrekstrarherbergi" sem sjúklingar gátu farið inn í eftir aðgerð á meðan iðrin voru að ná sér. Efast ég um að aðrir sambærilegir spítalar bjóði upp á slíka þjónustu. 

Ef ég hefði verið staddur inni á því hljómmikla herbergi þegar loka átti spítalanum hefði ég hikstalaust harðneitað að fara úr þaðan og frekar látið bera mig út meðan ég mótmælti á sem hávaðasamastan hátt með báðum endum ! 

Eftir síðari heimsóknina á þennan góða spítala lágu þrjár stökur, sem mér finnst rétt að birta nú í kveðju- og þakkarskyni. 

Til að útskýra stökuna, sem er í miðið, verður að geta þess, að hún byggist á ummælum Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem hún viðhafði óvart í sjónvarpsviðtali eftir að hún hélt að upptöku á viðtalinu væri  lokið, en þá hafði henni verið greint frá ummælum frænda sjónvarpsmannsins, sem viðtalið tók.

Þórunn brást við þeim með því að mæla af munni fram þessi ógleymanlegu orð við sjónvarpsmanninn: "Segðu þessum frænda þínum að hoppa upp í rassgatið á sér!" og öfunda ég hana af því að þessi orð muni lifa fremur en allt annað sem hún hefur sagt um dagana.

Áður en ég færi í ristilspeglunina fékk ég í hendur leiðbeiningar um laxeringu, þar sem sagt var að taka ætti inn ákveðinn skammt, ganga síðan um og taka þar á eftir því sem að höndum (fótum?) bæri. 

Ekkert var sagt um það hve lengi eða hvernig ganga ætti um gólf og vildi ég láta bæta nákvæmari fyrirmælum um það í plaggið í persónunlegum ráðleggingum læknisins, svohljóðandi: 

Laxeringin gengur glatt

ef gætir þú að orðum mínum. 

Þú átt að ganga, - ekki´of hratt

og alls ekki í hægðum þínum. 

 

Fagnandi vil ég fróðleik minn tjá þér. 

Nú færðu bestu ráðin mín hjá mér. 

Í laxeringunni hafðu þau hjá þér 

og hoppaðu svo upp í rassgatið á þér.

 

Eftir viðdvölina í "viðrekstrarherberginu" skildi ég þar eftir svohljóðandi þakkarvísu til læknisins: 

 

Ristilspeglun indæl er 

með útkomunni glæstri. 

Ánægður ég þakka þér

með þarmalúðrablæstri. 

 

Í stað þess að berja búsáhöld í mótmælaskyni við að vera færður úr herberginu með valdi í dag, ef ég hefði verið þar, hefði ég tjáð þessi mótmæli með "þarmalúðrablæstri". 

Og með slíkri tónlist kveð ég með þökkum þennan ljúfa spítala og starfsfólk hans. 

 


mbl.is Neitaði að yfirgefa spítalann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hugsar um sig.

Það mátti svo sem sjá það fyrir að hver þeirra tíu ESB-þjóða sem ekki er á evrusvæðinu myndi fyrst og fremst hugsa um það að bjarga sem best sínu eigin skinni þegar kom að því að taka á þeim vanda sem við er að glíma.

Raunar verður að telja það stórerfitt verkefni út af fyrir sig að ná samstöðu meðal þeirra 17 ríkja, sem eru á evrusvæðinu og spennan eftir sem áður mikil hvort það takist. 

Að sumu leyti minnir þetta viðfangsefni á það sem við blasti á síðari hluta fjórða áratugs síðustu aldar þegar Evrópuþjóðir utan Þýskalands, Ítalíu og Spánar áttu möguleika á að stöðva Hitler ef þær stóðu saman. 

Þótt allir sæju að eina leiðin væri að finna samstöðu sem dygði, tókst það ekki og því fór sem fór. 

Hugmyndin að samstarfi Evrópuþjóða eftir styrjöldina, fyrst varðandi stál- og kolaframleiðslu Frakklands, Benelux-landanna og Vestur-Þýskaland og síðar með stofnun Evrópubandalagsins, miðaði að því að koma í veg fyrir sundrungu sem á endanum gæti leitt til ófarnaðar. 

Nú er að vísu ekki um að ræða að koma í veg fyrir vopnuð átök heldur ófarnað á efnahagssviðinu en engu að síður er verkefnið gríðalega mikilvægt. 


mbl.is Tilraun til samkomulags 27 ríkja fjarar út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband