Enginn veit hvort kíkt hefur verið á spilin.

Einn af ágöllum Stjórnlagaþingkosninganna átti að vera sá að ekki mátti brjóta atkvæðaseðla saman.

Hermt er að Jón Steinar Gunnlaugsson sé góður briddsspilari og enginn veit, hvort úrslit briddsmóta hafa verið rétt eða röng vegna þess að einhver sá á spil annars, úr því að menn mega ekki brjóta þau saman. 

Engin veit heldur hvort maður eða menn í kjörstjórn hafi látið setja upp faldar myndavélar fyrir ofan kjörklefa í alþingiskosningum til þess að nema það hvar einfaldur kross var settur á kjörseðla og sjá hvað hver kaus. 

Það væri mun auðveldara en allt það samsæri og öll sú fyrirhöfn sem fylgt hefði því að "rekja" atkvæði í stjórnlagaþingkosningum.

Fráleitt er að mínu mati að það hefði verið hægt að "kíkja" á kjörseðla í stjórnlagakosningunum, sem voru útkrotaðir með allt að hundrað tölustöfum og brjóta þannig á rétti hvers kjósanda um leynd á því hvernig hann kaus. 

Þar sem ég sat í mínu skoti í kosningunum með kjörseðlinn á borði þétt upp að mér hefði sá, sem vildi vita, hvað ég kaus, þurft að koma inn í skotið og horfa yfir öxlina á mér. 

Ég gat bæði þá og síðar þegar ég gekk með seðilinn og setti ofan í kassan haldið honum jafnþétt upp að mér og Jón Steinar heldur spilum sínum upp að sér þegar hann spilar við Davíð. 

Þegar ég var í lagadeild lærði maður um það að "eðli máls" og "lögjöfnun" væru notuð í dómum þegar það ætti við. Ekki er að sjá að í hæstaréttarúrskurðinum hafi slíkt verið viðhaft. 

En, svo vikið sé að öðru í spjalli Þórhalls við Jón Steinar í kvöld, þá finnst mér einkennilegt að enginn fjölmiðill skuli taka upp það stórmál, sem hann ræddi um og skrifaði grein um á dögunum, en það er um allt of mikið álag á Hæstarétti og hættulega þróun í þeim efnum. 

Ég tel brýna þörf á að ræða hugmyndir hans um millidómstig, sem geti gert kleift að fækka dómurum í Hæstarétti og láta þá alltaf dæma alla, þannig að óyggjandi fordæmi myndist. 

Það er ekki viðunandi að dómarar þurfi að dæma í tveimur málum að meðatali á dag. 

Það þýðir að hver dómari hefur aðeins hálfan vinnudag til þess að setja sig inn í hvert mál og það er ekki viðunandi gagnvart þeim sem þurfa að leita til réttarins. 


mbl.is Enginn veit um áhrif ágalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar þrjú orð: "...og klára verkið."

"...vill að Alþingi hefjist nú þegar handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar." Þetta orðalag og orðalag svipað því hefur verið notað í 67 ár við ótal tilraunir af hálfu Alþingis til þess að framkvæma heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. 

Ævinlega hefur vantað framhaldið, sem felst í þremur orðum: "...og klára verkið" enda hefur heildarendurskoðunin, sem hefja átti fyrst fyrir 67 árum aldrei klárast, heldur alltaf rekið upp á sker, því að vegna eigin hagsmuna hafa þingmenn heykst á því.  

Nú halda menn, að aðeins örfáum árum eftir að síðasta tilraunin til þess að endurskoða stjórnarskrána mistókst halda menn að það gangi eitthvað betur núna. 

Það var fróðlegt að heyra útvarpsviðtal nýlega við Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra og alþingismann, sem var formaður síðustu stjórnarskrárnefndar þar sem hann lýsti því vel hvernig nefndarmenn komust í svipað öngstræti og ævinlega fyrr.

1851 þótti heppilegast að sérstaklega yrði kosið til stjórnlagaþings, sem hlaut nafnið Þjóðfundur, til þess að fjalla um nýja stjórnarskrá, frekar en að fela Alþingi þetta hlutverk. 

Þegar Trampe greifi, fulltrúi konungs, sá hvernig Þjóðfundurinn ætlaði að ljúka málinu, sleit hann fundinum, sem frægt er orðið. 

Ekki þyrfti að gera neitt svipað varðandi frumvarp nútíma stjórnlagaþings því að það er lögum samkvæmt ráðgefandi þing en ekki valdastofnun.  


mbl.is Alþingi hefji endurskoðun stjórnarskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef þetta hefði hrunið síðar?

Hinar stjarnfræðilegu upphæðir, sem um er að tefla í bankahruninu og við heyrum fréttir af nánast daglega, vekja ískaldan hroll þegar hugsað er til þess hvað hefði orðið, ef bankarnir hefðu fengið lengri tíma til að þenjast út áður en hinn alþjóðlegi lánasamdráttur byrjaði.

Því að það virðist nokkuð ljóst, að enda þótt það væri talað um það inni í kerfinu að bankakerfið íslenska væri orðið hættulega miklu stærra en þjóðarbúið sjálft, var ekkert gert við því sem skipti máli og það fékk óáreitt að verða ekki bara miklu stærra en þjóðarbúið og þjóðarframleiðslan, heldur margfalt stærra.

Best hefði verið eftir 2006 að bankarnir hefðu sprungið fyrr, því að uppblástur þeirra magnaðist síðustu mánuðina sem þeir störfuðu. Icesave, til dæmis, hefði orðið aðeins brot af því sem það varð, ef sú "gargandi snilld" hefði hætt aðeins nokkrum mánuðum fyrr. 

Miðað við það siðferði og hugsun sem spólaðist upp í þjóðlífi okkar frá 2002 var Hrunið líklega það skásta sem gat komið fyrir okkur, því að svona stórfelld siðferðisbjögun leiðir aldrei nema til ófarnaðar fyrr eða síðar. 

Orð Hallgerðar þegar hún vildi ekki láta Gunnar hafa lokkinn, hafa löngum verið talin ámælisverð, en voru í raun einhver viturlegustu ummæli sinnar tíðar. Hallgerður sagði: "Hirði ég eigi um hvort þú ver þig lengur eða skemur". 

Í því fólst það raunsæi, að það, að lána Gunnari lokkinn, myndi aðeins verða til þess að fleiri menn yrðu drepnir og að jafnvel þótt Gunnar bægði þessari aðför frá, sem var óraunsætt bjartsýnistal, myndu aðeins fylgja á eftir frekari áhlaup og blóðsúthellingar, sem aðeins gátu endað á einn veg ef hann streittist við að fara ekki úr landi, - að hann yrði drepinn. 


mbl.is Hafna 3312 milljarða kröfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband